14.05.1985
Efri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5231 í B-deild Alþingistíðinda. (4525)

5. mál, útvarpslög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umr. var lagt fram á þingi skömmu eftir að Alþingi kom saman um miðjan októbermánuð s. l. Ef ég man rétt, þá sagði hæstv. menntmrh. við fjölmiðla á þeim tíma að ráðh. ætti von á því að frv. yrði afgreitt fyrir októberlok. Nú er maímánuður og sannarlega er allt í óvissu um afgreiðslu þessa máls.

Í Nd. Alþingis var málið afgreitt í gær við 3. umr. en einungis 16 þm. Nd. greiddu því atkvæði af 40 sem þar eiga sæti. 40% þm. í Nd. voru samþykkir frv. en 60% greiddu ýmist atkvæði gegn því eða sátu hjá til að vekja athygli á andstöðu sinni við mikilvæg efnisatriði frv. Það er því sannarlega ekki ofmælt, sem ég sagði hér rétt áðan, að örlög þessa frv. eru í mikilli óvissu. Eftir það hvernig á málum hefur verið haldið og eftir að orðinn er slíkur ófriður um málið og reynt er að þröngva fram sjónarmiðum, sem bersýnilega njóta ekki meirihlutafylgis á Alþingi, þá eru orðin slík illindi út af málinu að einungis 16 af 40 þm. í annarri deildinni greiða því atkvæði.

Auðvitað væri það reginhneyksli ef þetta geysimikilvæga mál, sem fjallar um grundvallarreglur fjölmiðlunar í útvarpsrekstri, yrði afgreitt frá Alþingi með stuðningi minni hluta þm. Þetta er einmitt eitt af þeim málum sem brýna nauðsyn ber til að skapa almenna samstöðu um, vegna þess líka að hér er verið að setja leikreglur fyrir skoðanaskipti, skoðanamyndun og lýðræðislega umræðu í landinu. Það er meginatriði þegar slíkar leikreglur eru til umræðu og afgreiðslu hér á Alþingi að þá sé um þær viðunandi samstaða, lágmarkssamstaða. Og það er ekki lágmarkssamstaða þegar minni hluti þm. stendur að afgreiðslu máls.

En um hvað snúast þá deilurnar um ný útvarpslög? Um hvað snúast þessar hörðu deilur sem hafa valdið því að þingheimur hefur sundrast í málinu með þeim hætti sem ég nú hef lýst? Ég vil fyrst vekja athygli á því um hvað þær snúast ekki. Þessar deilur hér í þinginu snúast ekki um það að auka eigi frjálsræði til útvarpsrekstrar í landinu, að auka eigi tjáningarfrelsi í landinu og lýðræðislega umræðu með því að leyfa fleiri aðilum að spreyta sig á útvarpsrekstri. Um þetta snúast deilurnar alls ekki. Og það er alrangt, sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. hér rétt áðan, að þm. Alþb. í Nd. eða yfirleitt þm. nokkurs flokks hafi haldið því sjónarmiði fram að ekki bæri að gera hér breytingar á einmitt í þá átt að auka tjáningarfrelsi í landinu og lýðræðislega umræðu.

Í öðru lagi er ljóst að þessar deilur snúast ekki heldur um það hvort frelsi til útvarpsrekstrar á Íslandi eigi að vera ótakmarkað, það eigi að vera fullt frelsi á þessu sviði. Að því leyti er þessi umræða alls óskyld þeim meginsjónarmiðum um ritfrelsi í landinu sem ríkjandi eru og staðfest í stjórnarskrá. Og það er ekki rétt hjá hæstv. menntmrh. að hér sé verið að stefna að sams konar leikreglum í þjóðfélaginu eins og gilda varðandi ritfrelsið. Við vitum að þar eru engar takmarkanir varðandi útgáfu, prentun eða ritun aðrar en þær að menn verða að standa ábyrgir fyrir því sem þeir segja og setja fram á prenti. Að öðru leyti er fullt frelsi. En það hefur enginn flokkur, hvorki minn flokkur né flokkur hæstv. menntmrh. haldið því fram að það eigi að ríkja ótakmarkað frelsi til útvarpsreksturs hér á landi. Tillögur hæstv. menntmrh., tillögur Sjálfstfl. og tillögur allra flokka fjalla um mismunandi fyrirkomulag á leyfisveitingum til útvarpsrekstrar, frelsi til fjölmiðlunar á þessu sviði með mjög miklum takmörkunum. Þetta skulum við hafa alveg á hreinu, að deilan stendur sem sagt hvorki um það hvort eigi að auka frjálsræðið, hvort eigi að breyta reglunum í frjálsræðisátt frá því sem nú er, eins og hæstv. menntmrh. vildi nú helst gera að sjónarmiðum míns flokks. Og hún snýst ekki heldur um algert frelsi á þessu sviði, eins og ég veit þó að ýmsir talsmenn Sjálfstfl. vildu helst láta lita út.

Nei, þessi deila snýst um hvaða reglur á að setja um þær takmörkuðu leyfisveitingar og heimildir sem veita á til útvarpsrekstrar. Hún snýst um það hvort fjársterkir aðilar í þjóðfélaginu eiga að hafa óhefta aðstöðu til að leggja undir sig fjölmiðlun á þessu sviði, hvort viðskiptaaðilar, þeir sem mikið þurfa að auglýsa, þeir sem mikið fjármagn hafa á bak við sig, eiga að hafa verulega miklu betri aðstöðu til að leggja undir sig fjölmiðlun á þessu sviði heldur en aðrir aðilar — eða ekki. Og í þriðja lagi snýst þessi deila um hvernig búið verður að Ríkisútvarpinu í framtíðinni, hvort Ríkisútvarpið bíður hnekki vegna þeirra breytinga sem gerðar eru á útvarpslögum.

Það er meginsjónarmið Alþb. í þessu máli að það sé löngu orðið tímabært að heimila mörgum aðilum að spreyta sig á útvarpsrekstri og að það geti orðið til þess að auka lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu. En Alþb. setur hins vegar ákveðin skilyrði fyrir samþykki sínu við þessari breytingu. Meginskilyrði okkar Alþb.-manna er að svigrúmi til almennrar útvarpsstarfsemi verði sniðinn ákveðinn stakkur með þessum nýju útvarpslögum og það svigrúm nái ekki til þess að útvarpsstarfsemi einkaaðila verði gerð að markaðsvöru í gróðaskyni. Við teljum óeðlilegt að handhafar útvarpsheimilda öðlist rétt til þess að selja þriðja aðila aðgang að senditíma með einhvers konar verslun milli útvarpsins annars vegar og viðskiptaaðila hins vegar, og höfum bent á það að unnt er að fjármagna rekstur útvarpsstöðva án auglýsingatekna. Til þess eru margar leiðir og á það má sérstaklega benda að í nálægum löndum eins og Noregi, Svíþjóð og Danmörku, þar sem verulega hefur verið rýmkað um rétt manna til útvarpsrekstrar, eru auglýsingar ekki heimilaðar í útvarpi. Og við sjáum enga ástæðu til þess að hér á Íslandi verði gengið lengra í þessum efnum heldur en gert er í þessum þremur Norðurlöndum sem nokkra reynslu hafa þegar fengið af þessu.

Annað meginatriðið, sem við leggjum áherslu á í þessu sambandi, er að dreifikerfi til útvarpssendinga, bæði veitulagnir í jörð, sem oft eru nefndar boðveitulagnir — þótt ekki sé ég nú alls kostar hrifinn af því orðfæri — bæði veitulagnir í jörð og endurvarpsstöðvar fyrir þráðlaust útvarp, verði í eigu opinberra aðila, þ. e. annaðhvort ríkisins eða sveitarfélaga eða beggja þessara aðila. Á þetta leggjum við áherslu til að koma í veg fyrir einokun í skjóli einkaeignar á þessum dreifikerfum. Við göngum út frá því eins og aðrir að heimildir til útvarpsrekstrar verði einungis veittar til takmarkaðs tíma. Með það í huga, og vegna þess að mér skilst nú að það sé samkomulag um það atriði, væri það fullkomlega óeðlilegt að aðili væri sviptur útvarpsheimild, t. d. vegna þess að hann hefði brotið lögin ítrekað eða af einhverjum öðrum ástæðum, en hann væri eftir sem áður eigandi að umfangsmiklum dreifikerfum. Það sjá allir að þar sem verið er að veita aðilum leyfi til útvarpsrekstrar í skamman tíma í tilraunaskyni, þá hlýtur það að vera öllum fyrir bestu að opinberir aðilar hafi dreifikerfið undir sinni stjórn. Það getur um leið tryggt visst samræmi í sendibúnaði.

Þetta eru sem sagt þau meginskilyrði tvö sem við setjum fyrir því að heimildir til útvarpsrekstrar séu veittar og sé meiri hluti hér á Alþingi ekki reiðubúinn að fallast á þessi skilyrði þá erum við ekki reiðubúnir til að greiða þessu frv. atkvæði.

Að öðru leyti leggjum við mjög þunga áherslu á það að vel sé búið að Ríkisútvarpinu varðandi alla starfsaðstöðu og raunar miklu betur en nú er gert. Ríkisútvarpið hlýtur og verður að vera áframhaldandi burðarásinn í útvarpsfjölmiðlun. Og það verður að tryggja það með öllum ráðum að það geti gegnt þessari forustuskyldu sinni og forustuhlutverki. Því þarf að tryggja starfsmönnum Ríkisútvarpsins viðunandi kjör og um leið þarf að tryggja starfsmönnum aukin áhrif á starfrækslu stofnunarinnar. Það er raunar regla sem ætti að gilda miklu víðar en í útvarpsrekstri ríkisins. Við erum almennt inni á því að starfsmenn fyrirtækja eigi að hafa miklu meiri áhrif á stjórn þeirra. Þetta á hins vegar ekki síður við um Ríkisútvarpið en aðrar stofnanir og er sjálfsagt að reyna að stuðla að því að starfsmenn hafi bein áhrif á það hvernig stofnun af þessu tagi er stjórnað.

Jafnframt leggjum við mjög mikla áherslu á það að innlent efni njóti meiri forgangs í útvarpsrekstri en nú er. Við teljum að það þurfi að skylda allar stöðvar til þess að flytja íslenskt efni að vissu marki og að allar stöðvar, þar með talið Ríkisútvarpið, ættu að verja ákveðnum hluta af dagskrárfé sínu til framleiðslu á íslensku efni. Einkum og sér í lagi þarf að tryggja að hæfilegt efni sé samið og flutt fyrir börn.

Varðandi rekstur Ríkisútvarpsins höfum við auk þess lagt áherslu á það að útvarpsstjóri og framkvæmdastjórar Ríkisútvarpsins séu ráðnir til takmarkaðs tíma í senn. Við höfum lagt til að þeir verði ráðnir til fimm ára og er það reyndar einnig í fullu samræmi við aðrar tillögur, sem við höfum gert, þar sem ráðningartími forstöðumanna ríkisstofnana er bundinn við fimm eða sex ár, en það teljum við að ætti að vera meginregla í öllum ríkisrekstri. Við getum að vísu fallist á það að sá sem hefur verið eitt tímabil, fimm eða sex ár í starfi forstöðumanns ríkisstofnunar, eigi þess kost að sækja aftur um starfið að þessum fimm eða sex árum liðnum og þá megi ráða hann eitt tímabil í viðbót en ekki lengur.

Það er meginsjónarmið okkar að í útvarpslögum verði að leggja þunga áherslu á það að ræki sé sýnd íslenskri menningu og íslenskri tungu og þó umfram allt að gætt sé hagsmuna allra þjóðfélagshópa og allra skoðanahópa. Ég tók eftir því við atkvgr. í Nd. í gær að felld var till. frá hv. þm. í Nd., Kristínu S. Kvaran, sem lagði það til að útvarpsstöðvum öllum væri skylt að tryggja, þegar stjórnmálaumræður færu fram með beinum eða óbeinum hætti í útvarpi, að gætt væri fyllstu óhlutdrægni og skoðanir allra stjórnmálaflokka ættu greiða leið inn í umr. Mér þótti afar illt að verða vitni að því að þessi sjálfsagða till. skyldi vera felld.

Virðulegi forseti. Það gefst tækifæri til að ræða þetta mál eftir að um það hefur verið fjallað í nefnd. Ég læt því þessi orð nægja að sinni.