14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5243 í B-deild Alþingistíðinda. (4536)

384. mál, varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Það er 384. mál Ed., upphaflega á þskj. 616.

Frv. þetta er samið af sérstakri nefnd sem skipuð var í júlí 1983 í samræmi við ályktun Alþingis frá 2. apríl 1981 þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á Alþingi frv. til l. um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla. Í þessa nefnd voru skipaðir Jóhann Einvarðsson formaður, Hafliði Helgi Jónsson veðurfræðingur, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur, Helgi Hallgrímsson verkfræðingur og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri. Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri tók sæti í nefndinni í byrjun september 1984 í stað Hafliða Helga Jónssonar.

Þetta mál hefur fengið allmikla meðferð í Ed. og fylgja hér frá Ed. nokkrar breytingar, sem deildin gerði á frv., sem eru þó flestar smávægilegar. En ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara mörgum orðum um þetta frv. hér í Nd. Ég vænti þess að hv. nefnd sem fær málið kynni sér afstöðu og þá vinnu sem Ed. lagði í málið og ég legg aðaláherslu á að þetta mál verði afgreitt sem lög frá þessu þingi því að það er beðið eftir því. Þetta er mál sem allir eru sammála um að þurfi að færa til betri vegar og ég vænti þess, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.