01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

54. mál, endurmat á störfum kennara

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Efni þessarar till. til þál., sem hér er til umr. um endurmat á störfum kennara. er vissulega tímabært að taka til meðferðar. Það hafa þær umr. um kjör kennara hér á hv. Alþingi að undanförnu beint sannað. Það ber vissulega að fagna þeim stuðningi sem hæstv. menntmrh. fær hjá Kvennalistanum með þessari till., en eins og fram hefur komið í umr. hefur hæstv. ráðh. lýst vilja sínum á að endurmat á störfum kennara verði framkvæmt.

Umr. um kjör kennara hefur verið hávær í nýafstaðinni kjaradeilu opinberra starfsmanna og er það að vonum. Kennarar eru láglaunastétt, hafa dregist aftur úr í launum, enginn getur dregið það í efa. Launataxtar þeir, sem sýndir eru í grg. þáltill. og víða hafa borið á góma að undanförnu, segja til um það. Þær krónutölur eru að vísu úreltar nú eftir gerð kjarasamnings, en láglaunastéttirnar, og þar með kennarar sitja eftir í þessum kjarasamningum eins og ávallt áður og séð var fyrirfram, enda ekki lögð megináhersla á að bæta þeirra kjör sérstaklega umfram aðra í nýafstöðnum kjarasamningum.

Endurmat á störfum kennara er utan við gerð aðalkjarasamnings BSRB og þarf að fara fram eftir sem áður. Það er löngu ljóst og má furðu sæta að það hafi ekki verið framkvæmt fyrir löngu síðan. Sú öra þróun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu undanfarinn áratug t.d. með fjölgun kvenna á vinnumarkaðinum og þá um leið breyttar aðstæður á heimilum af þeim sökum hefur ekki síst raskað þessum málum jafnframt fjölgun kvenna í kennarastétt. Skólarnir verða í auknum mæli að taka á sig gæslu- og uppeldishlutverk auk fræðslunnar og það kallar á enn meiri ábyrgð og álag á kennarana. Við þessu verður að bregðast. Þetta er einn af þeim þáttum sem tengist nauðsyn þess að koma á betri tengslum milli heimila og skóla, meiri samábyrgð þessara aðila sem verða að vinna saman að því að ala upp og mennta íslenska æsku.

Það er t.d. nauðsynlegt að ætla kennurum þann viðverutíma í skólanum að þeir geti sinnt samstarfi við heimilið og nemendur utan sjálfra kennslustunda, en eins og nú er háttað er lítið svigrúm í þeim efnum. Efnislega er þessi till. til þál. samhljóða þeim viðhorfum sem ríkja innan þess vinnuhóps sem skipaður var af hæstv. menntmrh. á s.l. ári til þess að fjalla um aukin tengsl heimila og skóla. Við eigum báðar sæti í þeirri nefnd eða vinnuhópi, hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir, einn af flm. þessarar till., og ég. Vegna verkfalls hefur nefndin ekki getað skilað áfangaskýrslu sinni til ráðh. en skýrslan er nú í lokavinnslu.

Það má segja að það hafi gengið eins og rauður þráður í gegnum þær umr. sem fram hafa farið innan þess vinnuhóps og viðmælenda hans, að til þess að bæta samstarf heimila og skóla verður að fara fram endurmat á störfum kennara til að mæta þessum breytingum í þjóðfélaginu og aukinni ábyrgð sem þeim fylgja. Það er óhætt að segja að skilgreining og mat á vinnutíma kennara og umr. um þau mál í þjóðfélaginu almennt, ekki aðeins hér á hv. Alþingi, er því miður oft byggð á vanþekkingu vegna ónógra upplýsinga sem stafar af því að samband milli heimila og skóla er ekki nógu náið. Vanþekking á störfum kennara er oft nokkuð hliðstæð því mati sem lagt er á vinnutíma þm. sem við verðum óneitanlega oft vör við og er kannske byggt á því hvort þm. sitja á stólum sínum hér á þingfundum, t.d. er sjónvarpið bregður upp skyndimynd af þingfundi sem gæti verið af fundi í Nd. en almenningur veit ekki að tekin er í sal Sþ. og þess vegna eru a.m.k. 20 auð sæti í salnum og viðkomandi fréttamaður lætur slíkar upplýsingar ekki fylgja. Eða sú skoðun að þm. eigi allt of langt sumarfrí eins og sagt er að kennarar eigi einnig. Hitt er hins vegar staðreynd að kennarar nota meginhluta sumars til að endurhæfa sig og undirbúa næsta starfsár nákvæmlega eins og þm. þurfa að gera.

Ingólfur Ármannsson skólastjóri á Akureyri hefur einmitt tekið saman yfirlit eða samanburð á vinnutíma kennara og þm. sem birt var í Verkfallstíðindum BSRB 17. okt. og við þm. fengum reyndar sérprentað og sent í pósthólfin okkar. Meira að segja honum, sem þó hefur væntanlega kynnt sér málið, yfirsést í töflu sinni, t.d. varðandi nefndarfundi þm. Þar gleymast hjá honum fundir fastra nefnda sem eru fyrir hádegi alla daga sem þingfundir standa yfir því að fastir þingflokksfundir fylla fundarkvótann sem hann skammtar þm., en þeir eru eins og kunnugt er tvisvar í viku, tvo tíma í senn að lágmarki. Þetta nefni ég til að sýna að betra er að fara varlega í að fullyrða þegar upplýsingar eru ófullnægjandi, hver sem í hlut á.

Ég vil, herra forseti, minna á þá ábyrgð sem lögð er á kennara í starfi þeirra. Árangur uppeldis, þroska og fræðslu nemenda, sem kennurum er ætlað að sinna. ræðst af hæfni þeirra, alúð við kennslu og umhyggju fyrir velferð nemenda. Ég vil því með þessum orðum mínum ítreka þá skoðun mína að nauðsynlegt er að endurskoða þessi mál í heild frá grunni til að leita leiða til að auðvelda skólunum að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu, aðstæðum sem hafa orðið til þess að auka áhrif kennara. Sú lausn þarf að verða þannig að í þessi ábyrgðarmiklu störf sé alltaf völ á hæfasta fólkinu hverju sinni, en eins og nú háttar eru þeir æ fleiri sem sjá sig neydda til að leita annarra starfa.