14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5251 í B-deild Alþingistíðinda. (4541)

86. mál, áfengislög

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég óttast að það verði spennufall mikið eftir að ég kem hér í ræðustól á eftir síðasta ræðumanni. Ég skal ekki hafa orð mín mörg en vil aðeins lýsa minni skoðun á málinu.

Þegar rætt er um bruggun og sölu áfengs öls á Íslandi held ég að nauðsynlegt sé að hafa í huga að áhrif slíkrar lagabreytingar verða á margan hátt afdrifaríkari en ýmsir átta sig á í fljótu bragði. Þetta er allt annað en í löndum þar sem bjórdrykkja hefur þróast kannske nokkur hundruð ár. Menn hafa kynnst því. Það fer aldeilis tvennum sögum af þeirri reynslu.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar að með samþykkt þessa frv. skelli aukin áfengisalda yfir landið sem öðru fremur lendir á æskufólki. Ísland hefur að ýmsu leyti sérstöðu. Þó að okkur finnist nóg um drykkjuna er þó eitt sem er athyglisvert, að nú orðið er það hrein hending ef drykkja á vinnustað er liðin eða að menn séu undir áhrifum áfengis á vinnustað. Það voru töluverð brögð að þessu á stríðsárunum og upp úr stríðinu. En þetta hefur tekist nokkurn veginn að uppræta og ég býst við að það sé hrein undantekning ef hægt er að nefna dæmi um slíkt.

Þetta er ákaflega dýrmætt og hefur verið talið okkur til sóma. Ég er ákaflega hræddur um að þegar bjór skyndilega flæðir yfir fari menn að drekka hann svipað og þeir drekka kók í dag. Þetta með að menn verði ekki undir áhrifum á vinnustað, ég held að það líði undir lok, því miður. Þetta verður eingöngu selt í Áfengisverslun ríkisins, sagði einn þm. og reyndar fleiri en einn, og ekki auðvelt að ná í það. Bjór verður að vísu meira og minna alls staðar þrátt fyrir það.

Það var fróðlegt að hlusta á hv. 5. þm. Austurl. Enginn sakar þann ágæta mann um að vera einhvern brennivínspostula, öðru nær. Og hvert er áhugamál þessa ágæta þm. ef frv. næði fram að ganga? Ef það næði fram að ganga, þá er áhugamálið — og væri ekki aldeilis um brennivínspostula að ræða eða einhvern talsmann bjóráfengissölu í landinu — að hvert kaupfélag, a. m. k. á Austurlandi, seldi bjór svo að ekki hallist á með lífsgæðin.

Ég er ekki með ásakanir eða brigslyrði á þennan ágæta þm. og flokksbróður minn, en á þessu geta menn heyrt hver næsta krafa verður. Það verður vart búið að afgreiða þetta frv. eða samþykkja sem allt bendir nú til þegar kemur fram krafa um það — ég segi ekki að hún fljúgi í gegn á næsta ári en það verður stutt í það — að ekki megi gera upp á milli landshluta, ekki megi gera upp á milli byggðarlaga og þetta verður ekki lengi hamið við Áfengisverslun ríkisins.

Þetta verður ekki nema 5%, er líka sagt. Margir úr mínum kunningjahóp, sem styðja þetta frv., eru á því að bjór eigi að vera sterkari. Það eigi hiklaust að leyfa bjór allt að 7%. Ég er ekki í minnsta vafa um að verði þetta frv. samþykkt verði næsta baráttumál líka að fá hann sterkari svo að þetta flæði yfir líka.

Það er almæli í þessari hv. deild að öruggur meiri hluti sé hér fyrir framgangi þessa máls. Það sem ræður úrslitum hér nú er ástandið í þessum málum, ferðamannabjórinn sem kallaður er og bjórkrárnar. Raunverulegir andstæðingar bjórsins styðja því málið. Við þolum ekki þessa tvíhyggju, segja hinir mætustu menn. Það er mikið til í þessum málflutningi. Það er vitnað í að löggjöfin sé svona. Hvað snertir bjórinnflutning ferðamanna liggur fyrir lögfræðilegt álit eins virtasta lagaprófessors við Háskólann að heimild fyrir ferðamannabjórnum, ef má nefna hann svo, styðjist alls ekki við lög og hefur það álit legið fyrir lengi. Dómsmrh. gæti stöðvað það ef hann hefði bara þrek og kraft til.

Þá eru bjórkrárnar. Það væri eðlilegast af bindindismanni og það góðum bindindismanni eins og núv. dómsmrh., að hann hefði ekki veitt leyfi fyrir bjórkrám eins og kom fram hér hjá hv. 3. þm. Reykv. heldur látið dómstólana skera úr ef einhver vildi ekki hlíta þeim úrskurði að þessu væri synjað. Það er álit þeirra sem til þekkja að með þessum bjórkrám sé verið að fara í kringum lögin. Eðlilegra hefði verið að hæstv. dómsmrh. hefði lagt til eina stutta linu í áfengislögin til að taka af öll tvímæli.

Ég skal taka undir það að þetta er ófremdarástand. Ég virði bindindissemi hæstv. dómsmrh. en skörungur hefur hann ekki verið í þessum málum. En ég vil þó benda á að svo slæmt sem þetta ástand er er ég sannfærður um að neysla á bjór hefur í för með sér eins og alls staðar er reynslan, að áfengisneysla verður mörgum sinnum meiri en þó þetta tvíhyggjuástand sem varir í dag. Ég tek undir að þetta ástand er afleitt og þarna hefði röskur dómsmrh. átt að taka til hendi.

Ég skal ekki vera með meiri ásakanir á hæstv. dómsmrh. Það vantar skörungsskapinn í þessum efnum. Ég þekki skoðanir þeirra er styðja sölu á áfengum bjór og hef í sjálfu sér ekki mikið við þá að tala og þeir sennilega ekki við mig. Það mætast bara tvær skoðanir. Það eru menn sem hafa haft afdráttarlausar skoðanir um það að bjór væri æskilegur og hann sé ekki skaðlegur o. s. frv. Það er skoðun. En hitt er öllu ömurlegra að ég held að bjórinn fari hér í gegn í þessari hv. deild vegna þess ástands sem ríkir í þessum efnum, þessarar tvíhyggju sem ræðumenn tala hér um og þessa aðgerðarleysis. Ef bjór er á annað borð ekki leyfður á ekki að leyfa að fara í kringum lagaákvæði jafnvel þó að liggi fyrir skýlaus ákvæði, umsagnir virtustu lagaprófessora.

Ég skal nú fara að ljúka máli mínu. Ég þykist þekkja nokkuð vel til, a. m. k. hér í Reykjavík, a. m. k. ekki minna en margur annar. Af þeirri þekkingu verð ég að segja að mér blöskrar sú fátækt og það mannlega böl sem hlýst af áfengisneyslu almennt. Ég veit að yfirgnæfandi meiri hl. þm. er mér sammála í þessu og skal ég ekki fara frekari orðum um það þó að ég óttist mjög að dagleg neysla á þessari vöru taki í á mörgu alþýðuheimili. En hvað um það. Ég skal játa að ég er ekki meiri kjarkmaður en það að ég tek ekki þátt í neinni lagasetningu sem orsakar að mínu áliti aukningu á þessum áfengisvanda. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessari till.