15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5272 í B-deild Alþingistíðinda. (4554)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Félmn. Nd. hefur lagt til breytingar við frv. til laga um ríkisábyrgð á launum og voru brtt. samþykktar í Nd. Fyrri brtt. er við 4. gr. Henni er raunar einvörðungu ætlað að taka af öll tvímæli um að skyldusparnaður teljist til launa, skilji ég þetta rétt. Hin brtt. varðar 9. gr. frv., þar er viðbótarmálsliður sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Félmrh. er þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.“

Enda þótt ekki sé að mínum dómi um stórvægilegar breytingar að ræða tel ég eðlilegt að félmn. þessarar hv. deildar fái tækifæri til að líta nánar á þessar brtt. Vænti ég þess að umr. verði af þeim sökum frestað a. m. k. um stund.