01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

54. mál, endurmat á störfum kennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar og margorðar ræður um nauðsyn þess að standa að því efni sem þessi till. fjallar um. Ég efast ekkert um að þessi till. sé af góðum hug fram borin og hún er um þarft mál. Mér finnst liggja í augum uppi að framkvæmd þess sem till. fjallar um tengist hluta af þeim sérkjarasamningum sem fram undan eru. Ég vil taka það fram að mér er kunnugt um að fram hefur farið nú um nokkurt skeið athugun á launaflokkaröðun háskólamenntaðra manna og kennarar eru, þótt þeir séu ekki í samtökum háskólamenntaðra manna, stétt sem hefur háskólamenntun að baki. Mér þykir eðlilegt að starfsmat kennara verði skoðað í nokkrum tengslum við það mat sem fram hefur farið á vegum BHM. Ég þykist þó vita að kennarastarfið sé ekki meðal þeirra starfa sem sérstaklega eru til skoðunar og það stafar sjálfsagt af því að þeir eru í öðrum samtökum en þar standa að verki.

Ég hygg að það sé skynsamlegt að skipa nefnd með einhverjum hætti í þá veru sem vikið er að í till. Ég skal ekki segja hvort e.t.v. ættu að vera einhverjar örlitlar breytingar á þeim hugmyndum sem þar koma fram. Það gefst tími til þess að athuga það mál þegar það fer í nefnd, en í stórum dráttum er ég hlynnt þessari till.

Nú er það svo að fyrir alimörgum árum, ég hygg að það hafi verið 1970, þá fór einmitt fram endurmat á kjörum kennara. Það var í fyrsta lagi mat sem fram fór á vegum BSRB og fjmrn., en í öðru lagi var sérstaklega tekinn fyrir sá þáttur sem laut að mati á sjálfu fræðslustarfinu og námi kennara og þess hluta fræðslustarfsins sem fyrst og fremst byggðist á námi kennara. Það voru valinkunnir heiðursmenn sem stóðu að því mati og ég efast ekki um að menn hafi sæst á þá niðurstöðu þeirra að því er þetta varðaði. En það sem olli mestri óánægju meðal kennara, að því er embættismenn tjá mér, var að ábyrgðarþátturinn í starfi kennaranna muni ekki hafa verið metinn sem skyldi. Ég hygg að það hafi byggst á því að einmitt sá þáttur hafi ekki verið innan þess verksviðs sem matsmönnum var falið að athuga.

Nú hafa mál þróast svo á undanförnum árum vegna breytilegra þjóðfélagsaðstæðna, aðstæðna sem sífellt hafa verið að breytast meira í það horf að stærri hluti af uppeldisþættinum hefur verið í höndum skólanna á þann veg að þeirra umboð frá foreldrum hefur orðið æ víðtækara. Þess vegna hygg ég einmitt að það sé mjög tímabært að nú fari aftur fram mat á þessum hlutum og þá verði ekki síður tekið tillit til ábyrgðarinnar en menntunarþáttarins. Hvort tveggja þetta þarf en ég hygg að það mat, sem þarna þurfi fram að fara, eigi að grundvallast á faglegri úttekt manna sem þar þekkja best til. Það verði einnig skoðað í samhengi við það mat sem fram hefur farið hjá Bandalagi háskólamanna og síðan verði tekið til við að koma því inn í hina raunverulegu sérkjarasamninga. Ég vonast til þess að svo margir þessara þátta liggi allljósir fyrir að þetta taki ekki mjög langan tíma og ég hvet til þess að nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, vinni að því, að vísu af nákvæmni en ekki af seinlæti.