15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5284 í B-deild Alþingistíðinda. (4563)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér eru nú til umr. mikilvæg mál, mikilvægari en mörg önnur sem stór hluti þingtímans hefur farið í að ræða að undanförnu. Eins og síðasta hv. ræðumanni þótti mér það vera tíðindi að hæstv. forsrh. skyldi segja í ræðu sinni áðan að hann teldi peningum betur varið til annars en að reisa „frjálsar útvarpsstöðvar“. Vil ég þá í framhaldi af því beina því til hæstv. forsrh. hvort hann muni þá beita sér fyrir því að peningum verði ekki varið til þeirra hluta á því þingi sem nú situr.

Eins og ráðh. sagði réttilega er hér stórt vandamál á ferðinni hvað húsnæðismálin varðar. En, sagði hann. það er aðeins eitt af mörgum. Undir það get ég tekið. Og svo sannarlega get ég sameinast hæstv. forsrh. í því að hafa áhyggjur af fleiri málum en þessu. En húsnæðismálin eru samt stórt vandamál.

Á orðum hæstv. forsrh. var það helst að skilja að þetta vandamál stafaði af tímabundnum samdrætti í þjóðarframleiðslu og að þetta væri tímabundið vandamál í heild sinni. Svo er engan veginn að mínu viti. Þessi stóri vandi húsnæðismála á sér langan aðdraganda og hér er í rauninni um kynslóðamál að ræða. Eftir þá ræðu sem hæstv. forsrh. hélt áðan langar mig til þess að fjalla örlítið um það hér hvernig þessi mál horfa við fólki á mínum aldri, ekki bara húsnæðismálin, þótt þau séu stór þáttur af þessu, heldur fleiri mál, vegna þess að í þessum málum má segja að heil kynslóð hafi verið svikin.

Þegar fólk á mínum aldri var að alast upp var okkur kennt að leggja sparifé okkar á sparisjóðsbækur í bönkum. Það gerðu börn og það gerði gamla fólkið. Þetta sparifé brann upp í óðaverðbólgu. Okkur var kennt að mennt væri máttur og aldrei hefur stærri hluti neinnar kynslóðar farið í nám en þeirrar kynslóðar sem ég tilheyri. Þegar við komum í skólana til að stunda nám eru námslánin verðtryggð. Þegar við síðan komum út á vinnumarkaðinn eftir að hafa aflað okkur starfsmenntunar er námið lítils metið. Er þar skemmst að minnast þeirrar umræðu og þeirra staðreynda sem fram hafa komið um launamál kennara og launamál háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hér í vetur. Þegar við förum að kaupa okkur húsnæði, koma okkur þaki yfir höfuðið, eru lánin, húsnæðislánin og önnur lán sem fáanleg eru á lánamarkaðinum, líka verðtryggð. En við verðum að kaupa því að það er ekkert leiguhúsnæði að hafa hér á landi. Þessi kynslóð, sem ég er hér að tala um, er í rauninni svikin um allar þær grundvallarforsendur sem hingað til hafa legið til grundvallar velmegun hér á landi.

Sú kynslóð sem á undan fór fékk allt á silfurbakka. Hún er með allt sitt á þurru. Hún fékk sparifé gamla fólksins nánast ókeypis, hún byggði sér sín hús fyrir hagstæð lán með neikvæðum raunvöxtum, hún fékk sína starfsmenntun á gjafverði og hún fékk sæmilega launuð störf þegar hún kom út á vinnumarkaðinn. Og hvaða kynslóð skyldi það vera? Jú, þetta er kynslóð hæstv. forsrh., kynslóð þeirra sem í dag stjórna þessu landi. Það er þessi kynslóð sem hefur notið velmegunar hér á landi og auk þess ekki kunnað sér hóf, heldur eytt og bruðlað um efni fram og sett landið í erlenda skuldafjötra. Og hvað gerir svo þessi kynslóð þegar hún heldur um stjórnartaumana? Jú, þá segir hún loksins: Nú er nóg komið. Það verður að hætta þessu. Þá segir hún það, en þá er hún líka með allt sitt á þurru. Og hún gengur að þeim sem á eftir henni koma, heggur í þann knérunn sem síst skyldi og steypir næstu kynslóð út í botnlaust skuldafen, gerir henni nánast ókleift að standa við skuldbindingar sínar, að standa skil á greiðslum af lífsnauðsynjum eins og þaki yfir höfuðið.

Og ábyrgð stjórnvalda er mikil. Sú ríkisstj. sem nú situr er ábyrg fyrir gríðarlegu misgengi kaupmáttar og lánskjara sem er ein rót hins gífurlega vanda sem fólk á nú við að etja í húsnæðismálum og hún er ábyrg fyrir því að hafa lofað og lofað, lofað í það endalausa, úrbótum í þessum málum án þess að standa við nema brot af þessum loforðum. Og það er önnur rót þessa vanda. Fólk hefur tilhneigingu til að treysta stjórnvöldum og hefur líka tilhneigingu,til að halda að það séu mannréttindi hér á landi að hafa þak yfir höfuðið. Þetta traust hefur átt sinn þátt í því að leiða menn út í þann vanda. það greiðsluþrot sem nú blasir við fjöldamörgum heimilum landsins.

Á þessum vanda verðum við að taka, annað er gersamlega óhugsandi og óverjandi, og það verður að taka á rótum vandans með samræmdum aðgerðum. Þar dugar ekkert smávægilegt eins og það frv. sem ríkisstj. lagði fram hér á hv. Alþingi fyrir fáeinum dögum og ber heitið „frumvarp til laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga“ sem í raun felur lítið annað í sér en framlengingu og ofurlitla víkkun á þeim fjárhagsfjötrum sem nú umlykja stóran hóp landsmanna. Í þeim hópi er fjölmenn sú kynslóð sem með björtum vonum gekk til móts við framtíðina fyrir ekki alilöngu til þess eins að finna sig skuldum vafða og gerða að vanskilamönnum vegna þess að hafa reynt að koma sér þaki yfir höfuðið. Þessi vandi og þessi trúnaðarbrestur er til orðinn bæði vegna aðgerða og aðgerðarleysis stjórnvalda og ekki aðeins þessarar ríkisstj., heldur líka þeirra sem á undan henni voru. En það er á ábyrgð okkar sem hér erum og þá ekki síst þeirrar hæstv. ríkisstj. sem nú situr að leysa þennan vanda.

Hér var áðan spurt: Hvernig á að leysa þennan vanda? Þau voru rýr svörin hjá hæstv. forsrh. En ég lýsi því hér yfir að við Kvennalistakonur erum tilbúnar að gera allt sem í okkar valdi stendur og leggja allt sem við höfum yfir að ráða af mörkum til að lausn finnist á þessum vanda. Og ég lýsi því líka hér með yfir fyrir hönd Kvennalistans að við munum ekki ganga af þessu þingi, sem nú situr, fyrr en viðunandi lausn er fengin á þessum málum.