15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5286 í B-deild Alþingistíðinda. (4565)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umræður að neinu ráði. Ég held því fram að ég hafi einnig svarað þriðju spurningu hv. þm. Stefáns Benediktssonar. Það kom greinilega fram í mínu máli að ég hvet þá sem eru í vandræðum til að leita til ráðgjafarþjónustunnar. Ég harmaði það að úr henni hefur verið lítið gert og sumir talið jafnvel að það væri ekki mannsæmandi að leita þangað með sín mál. Ég bið hv. þm. að koma því á framfæri að þangað eiga þeir að fara sem eru í vandræðum og enginn á að þurfa að skammast sín fyrir það. Mér er líka kunnugt um það að alþýðusamtökin eru að hugleiða að koma upp slíkri ráðgjafarþjónustu. Það mun víða verða gert og ég vona að það verði metið að verðleikum.

Ég verð að lýsa því yfir að mér þótti ákaflega leiðinlegt að heyra hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur gera svona samanburð á milli kynslóða. Þær eiga allar ýmislegt gott í því sem okkur hefur tekist að byggja upp, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson sagði. Þær kynslóðir sem juku hér þjóðarframleiðsluna meira en í flestum öðrum löndum ár eftir ár eiga þakkir skilið. Þær kynslóðir sem stofnuðu til þess heilbrigðiskerfis sem við njótum nú eiga þakkir skilið. Þær kynslóðir sem komu á fót menntakerfi sem við njótum nú eiga þakkir skilið. Og núverandi kynslóð á miklar þakkir skilið fyrir dugnað. Vitanlega hafa kynslóðirnar notið fyrirgreiðslunnar á mismunandi hátt. Sú kynslóð sem nú er uppi nýtur betri heilbrigðisþjónustu, betra menntakerfis, meiri trygginga en fyrr. Ég vek athygli á því að t. d. þegar ég fór í skóla gat ég ekki fengið umtalsvert námslán. Námslánin eru nýr þáttur í þessu þjóðfélagi. Er það allt gleymt sem kynslóðirnar hafa byggt upp? Ég spyr.

Og þegar menn tala um vanda húsbyggjenda ættu menn líka að hugleiða það, sem var sýnt í sjónvarpinu í fróðlegum þætti, að síðan 1981, þegar allar hömlur voru niður felldar af stærð íbúða, hefur aðeins stækkun íbúða til dagsins í dag kostað eins mikið og allur togarafloti landsmanna. Ég er ekki að segja að ýmsir hafi ekki þurft stærri íbúðir og að mínu mati mega allir byggja eins stórt og þeir vilja. En þeir eiga ekki að fá lán úr hinu félagslega kerfi. Það er því fleira sem hér spilar inn í þegar menn eru í vanda nú.

En ég segi: Í guðanna bænum, hefjum ekki stríð á milli kynslóða.