01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

54. mál, endurmat á störfum kennara

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Launamál kennara hafa verið mikið á döfinni hér að undanförnu og komu raunar til tals hérna strax í vor af ýmsum ástæðum, t.d. í sambandi við umr. um atvinnumál. Það er augljóst að þegar er orðinn atgervisflótti úr kennarastétt. Þessi atgervisflótti er bæði þannig að fólk, sem hefur menntað sig til kennslustarfa og hafið störf í kennslu, hætti þessum störfum og líka þannig að fólk sem kannske hefði átt fullt erindi í kennslu menntar sig til annarra starfa, sem sé það að kennsla er ekki eftirsótt starf. Og það, eins og ég kem að síðar, er kannske það alvarlegasta í sambandi við þessi launamál kennara.

Þessi atgervisflótti veldur því að dýrmætir starfskraftar glatast, að dýr reynsla og þekking, kunnátta, glatast úr skólunum. Hún er kannske ekki með öllu glötuð, hún er til áfram í þjóðfélaginu, en hún er glötuð á þeim stað sem kannske mest þarf á henni að halda.

Annað atriði sem lágu launin gera er að þau valda mikilli óánægju, jafnvel örvæntingu, þeirra sem kennslustörfin stunda. Sú sára tilfinning minnkar kannske hollustu þeirra, bæði við stofnanirnar og þjóðfélagið sem þeir eru að sinna. Þessi atgervisflótti veldur því líka á endanum að stofnanirnar, skólarnir, liggja betur við höggi ósanngjarnrar gagnrýni en vera þarf. Við höfum á síðustu misserum talsvert rætt hérna á Alþingi um framtíðarþjóðfélagið. Við höfum talað um að á döfinni séu og það séu jafnvel í undirbúningi ýmsar aðgerðir til að breyta hérna atvinnuháttum. Talað er um háþróaðar aðferðir í ýmiss konar framleiðslu, líftækni, upplýsingatækni, alls konar hátækniframleiðslu af ýmsu tagi, þróunarverkefni og þekkingarframleiðslu. Menn gleyma því að kennslan og skólarnir eru undirstaðan að öllu þessu starfi.

Menn hafa Bandaríkin gjarnan til viðmiðunar sem nú veita forustu á þessum svokölluðu þekkingarframleiðslusviðum, en þeirra árangur er byggður á eflingu kennslu, á eflingu skóla og eflingu rannsókna sem hófst fyrir líklega einum 25 árum, þegar þau settu sér það markmið að koma manni til tunglsins og efldu stórkostlega rannsóknir og kennslu í öllum grundvallaratvinnuvegum og í öllum grundvallargreinum eðlisfræði, efnafræði og öðrum fræðigreinum sem hafa þarna mikilvægi. Mér dettur stundum í hug að þetta hafi bara verið skynsamlegt, pólitíski bragð að láta þannig líta út að það væri sérlega eftirsóknarvert að koma manni til tunglsins. Mér dettur stundum í hug að kannske hafi framsýnir menn séð að þetta var ágætis markmið að stefna að til þess að virkja þjóðina og það sem í henni býr til að keppa að ákveðnu marki sem um leið efldi og styrkti svo mjög þessar undirstöðugreinar. Það skiptir svo kannske litlu máli á endanum að maður komst til tunglsins. Mikilvægast er að eftir stendur, t.d. í tölvufræðum, háþróaðasta tölvutækni á þessari jörð, í efnafræði þær háþróuðustu aðferðir sem við þekkjum. Við tölum gjarnan um og allir þekkja dæmið um teflonið á pönnurnar. Það er bara eitt lítið og einfalt dæmi um þann afrakstur af þessu stórkostlega átaki í kennslu og rannsóknum sem Bandaríkjamenn gerðu.

Þannig verða menn að gera sér grein fyrir að það er á kennslunni og skólastarfinu sem þessi svokallaði þekkingariðnaður byggist og það er á störfum kennaranna sem þarf að byggja þessa framsókn. Það þýðir ekki að tala fjálglega um einhverja nýja framtíð eða nýstefnu og nýtækni og Pólinn á Ísafirði og það að renna nýjum stoðum undir atvinnugreinar eða styrkja og bæta ef undirstaðan sjálf er ekki rétt. Ég held að við verðum að tileinka okkur þann skilning að skólakerfið og starfsemi skólakerfisins er undirstöðuatvinnuvegur. Afurð skólakerfisins er þekking sem er á sinn hátt alveg jafndýrmæt og aðrar þær áþreifanlegu afurðir sem við tölum gjarnan mest um, fiskur eða kjöt. Við getum þess vegna reynt að líta á skólakerfið sem verksmiðju sem framleiðir þekkingu og sinnir bæði nýmenntun og ekki síður endurmenntun þjóðfélagsins vegna þess að eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti á eru á þessum tímum svo örar framfarir að sá sem lærir til einhverrar iðju eða lærir einhverja tækni í upphafi síns lífsstarfs hefur margsinnis breytt um stefnu áður en hann lýkur sínum störfum. Endurmenntun er því efni sem sérstaklega þarf að sinna.

Ég er alveg sammála því, sem kemur fram í þessari till., að það sé mikið gagn að því að endurmeta störf kennara, endurmeta þau til ábyrgðar, endurmeta þau til reynslu og framlags. En við eigum ekki að taka þessi kennaramál upp bara til þess að losna við að hafa óánægða kennara, kennara sem eru leiðir yfir kjörum sínum, heldur til þess að finna út hvað við þurfum að greiða kennurum í laun til þess að við fáum bestu hugsanlega starfskrafta þannig að kennarastaðan verði eftirsótt, þannig að það sé hægt að velja úr kennurum í framtíðinni, þannig að stjórnendur skóla verði umkringdir af vel hæfu fólki sem vill sinna þessum störfum, þannig að þessi verksmiðja, þessi þekkingarverksmiðja, þessi undirstöðuatvinnugrein sem skólastarfið og skólakerfið er, verði á hverjum tíma mönnuð besta fólki sem völ er á. Ég held að þetta sé aðalatriðið í þessu. Við eigum að líta á þetta í beinu efnahagslegu samhengi vegna þess að sé þetta kerfi vel mannað í framtíðinni ræður það öllu um afkomu okkar. Þetta er ekki einungis spurning um að vera laus við óánægða kennara. Þetta er spurning um að hafa bestu hugsanlegu starfskrafta sem völ er á á hverjum tíma.