15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5289 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 41 frá 2. maí 1968. um verslunaratvinnu. Nefndin ræddi frv. ítarlega og varð sammála um afgreiðslu málsins eins og kemur fram í nál. á þskj. 918.

Nefndin flytur við frv. brtt. á þskj. 919 sem hljóðar svo:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna bætist ný mgr. er orðist svo:

Lög þessi taka einnig til leigu myndbanda.“

Eins og fram kemur í nál. og brtt. leggur nefndin til að ákvæði frv. nái aðeins til myndbanda. Nefndin er sammála um að það sé allt of víðtækt að fella leigu allra lausafjármuna undir lög um verslunaratvinnu. Þar muni hljótast af þungt kerfi sem trauðla yrði farið eftir í framkvæmd og til þess eins fallið að bjóða lögbrotum heim. Leiga lausafjármuna er mjög algeng viðskipti milli manna og má þar nefna um ótal dæmi, hestaleigur, grímubúninga svo að eitthvað sé nefnd.

Hins vegar eru myndbandaleigur mjög útbreiddur atvinnurekstur sem þarf að vera undir eftirliti, m. a. vegna höfundaréttar og laga um bann við ofbeldismyndum. Féllst því nefndin á að starfsemi þeirra falli undir verslunaratvinnu þar sem hætta á leyfissviptingu getur aukið aðhald í rekstri þessara fyrirtækja auk þess sem leyfi þurfi til að reka slík fyrirtæki og þau falli undir bókhaldsskyldu. Það skal tekið fram að viðskrh. gerir ekki athugasemd við þessa málsmeðferð og hefur afgreiðsla nefndarinnar á málinu verið kynnt honum.

Nefndin telur ástæðu til þess að um leigu lausafjármuna gildi ákveðnar reglur og nauðsyn beri til þess að setja þessari starfsemi ramma þó að það verkefni bíði um sinn. Bílaleigur eru útbreiddasta starfsemin af þessu tagi og þær starfa skv. reglugerð frá 1960. Það er full þörf á því að endurskoða reglur um rekstur þessara fyrirtækja sem sum hver eru stór og með mjög mikinn rekstur. Hins vegar ber að áliti nefndarinnar að setja sérstaka löggjöf þar um eða fella ákvæði um þennan rekstur inn í þau lög sem við eiga um hvern þátt, t. d. skráningu atvinnurekstrar, bókhaldsskyldu o. fl.