15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5291 í B-deild Alþingistíðinda. (4577)

342. mál, verslunaratvinna

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Öldungis ofbýður mér þegar menn taka sér í munn í þessum ræðustóli orð eins og fasismi út af svo litlu tilefni og svo litlu máli sem hér er til umr. núna. Það er slík gróf ofnotkun orða og slík stórmæli að því er ekki hægt að una. Ég lýsi furðu minni á þessu háttalagi og þessari ræðumennsku.

Ég vek athygli á því að hér er bara um að ræða enn eitt málið af mörgum á þessu þingi sem BJ hefur misskilið. Það er ekkert um það að ræða í þessu máli að verið sé að leggja einhvern dóm eða amast við einhverju efni sem myndbandaleigur hafa á boðstólum. Málið snýst ekki um það að einu eða neinu leyti. Það snýst um allt aðra hluti. Það er búið að gera grein fyrir því hér hvers vegna sú leið var farin sem farin er. Efni og innihald þeirra myndbanda, sem eru til leigu hér í myndbandaleigum, kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við. Það var til umr. hér í Sþ., ef ég man rétt, fyrr í vetur og voru þar höfð uppi nokkuð þung orð af hálfu þeirra þm. sem ætla má að gerst þekki þessi mál, hv. þm. Pétur Sigurðsson m. a., í þá veru að rökstuddur grunur væri á því að skattskil þessara fyrirtækja sem enginn vissi þá hvað væru mörg, myndbandaleigurnar, væru ekki að réttum lögum vegna þess að starfsemi þeirra væri ekki leyfisbundin með neinum hætti. Þess vegna kom fram hér frv. um að öll leigustarfsemi yrði háð því að menn hefðu verslunarleyfi þannig að leyfisveitingin skapaði eins konar aðhald í þessum efnum. Auðvitað er það aðhald ekkert einhlítt, ég skal viðurkenna það. En það er þó a. m. k. nokkurt aðhald og tilraun til þess að hafa yfirsýn yfir þessa starfsemi þannig að a. m. k. skattyfirvöld viti hverjir það eru sem fást við þessa tegund af rekstri sem veltir milljónum og veltir ótrúlegum upphæðum hér í höfuðborgarsvæðinu á hverri viku og býður margt mjög gott efni. Það er bara fyrir utan þetta mál.

En menn töldu ekki fært að samþykkja þessa till. eins og hún lá fyrir vegna þess að skv. orðanna hljóðan hefði leiga á lausafjármunum jafnvel gilt um bókasöfn og ýmislegt fleira. Menn höfðu efasemdir um þetta en voru sammála um að myndbandaleigurnar ættu að falla undir þetta í þessari lotu þannig að það væri á einhverjum opinberum stað yfirsýn yfir þennan rekstur. Það var líka talað um það í nefndinni þegar þessi mál voru til umr. að þetta ætti hugsanlega að gilda um bílaleigur líka. Menn töldu hins vegar að það þyrfti svolítið meiri athugunar við.

Þessi myndbandaleiga er í eðli sínu ákaflega svipuð verslunarrekstri. Þetta er venjulega í verslunarhúsnæði. Fólk kemur þarna og gerir viðskipti sem eru í því formi að það borgar gjald fyrir að nota ákveðinn hlut í ákveðinn tíma og kemur síðan aftur og skilar honum og kannske stofnar til enn frekari viðskipta. Ég sé því hreint ekkert óeðlilegt við þetta. Að nota þan orð hér að þetta beri keim af fasisma sem hér er verið að gera er svo gersamlega út í hött að ég ætla ekki að gera það frekar að umtalsefni. En ég held bara að hér sé misskilningur á ferðinni. Það er ekki með neinum hætti verið að fjalla um eða leggja mat á gæði þess efnis sem er á boðstólum í myndbandaleigunum, það kemur þessu máli bara ekkert við.