15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5296 í B-deild Alþingistíðinda. (4595)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í fjarveru heilbr.- og trmrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um Þroskaþjálfaskóla Íslands á þskj. 909. Eins og fram kemur í grg. með frv. er það skoðun heilbr.- og trmrn. að treysta þurfi betur lagalegan grundvöll Þroskaþjálfaskóla Íslands og að kveða þurfi á um starfsemi hans í sérstakri löggjöf, eins og tíðkast um aðra sérskóla. þar sem fyrirsjáanlegt er að lög um framhaldsskóla ná ekki fram að ganga á næstunni. Fyrir því er þetta frv. flutt. Ég leyfi mér að vísa til framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. í hv. Ed. svo og athugasemda við frv.

Í hv. Ed. voru gerðar á frv. tvær breytingar, þ. e. við 1. gr. og 4. gr. Þær brtt. voru fluttar af heilbr.- og trn. þeirrar hv. deildar sem annars mælti samhljóða með frv. Brtt. birtust á þskj. 902.

Með tilvísun til þessa, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. heilbr.- og trn.