01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er til meðferðar till. til þál. um kosningu þingnefndar vegna rekstrarvanda í íslenskum sjávarútvegi. Kemur þar fram að rétt sé að kjósa nefnd sjö þingmanna sem skilgreini rekstrarvanda íslensks sjávarútvegs, safni saman upplýsingum og bendi á leiðir til úrbóta. Ég skal ekki um það fullyrða hvort það sé rétt meðferð á málum að kjósa þingmannanefnd í einstaka málaflokka og hvað það megi leiða af sér. Hins vegar kemur greinilega fram í grg. að ástæður fyrir þessari till. eru m.a. þær, eins og segir hér í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Í till. er gert ráð fyrir sérstöku átaki vegna togaraútgerðarinnar þar sem stjórnvöld hafa ekki bent á leiðir í þeim efnum. Því er eðlilegt að Alþingi taki það mál sérstaklega í sínar hendur.“

Það er því greinilega forsenda fyrir þessum tillöguflutningi að flm. telja að ekki hafi verið tekið á þessum vandamálum og því beri þinginu að taka þau að nokkru leyti í sínar hendur. Nú er það svo að við höfum sem betur fer aðskilið framkvæmdavald og löggjafarvald. Má því um það deila í hvaða mæli fela á þingmannanefndum að taka slíka málaflokka til meðferðar því að hér er að miklu leyti um sjávarútveginn í heild sinni að tefla.

Nú hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða í sjávarútvegi vegna þess mikla vanda sem við höfum staðið frammi fyrir. Á s.l. hausti sáum við fram á það að við yrðum að draga verulega saman afla í hefðbundnum veiðum. Á sama tíma lá það fyrir að staða sjávarútvegsins var afar veik. Rekstrarstaða hans var fremur slæm, eiginfjárstaða einnig og sjóðir sjávarútvegsins að miklu leyti tómir. Það var því mjög lítið svigrúm til að mæta þessum vanda. Að öllu eðlilegu á hver atvinnugrein að geta tekið á sig áföll, sem alltaf hljóta að koma, en þegar ein atvinnugrein hefur búið við langvarandi erfiðleika og stendur síðan frammi fyrir miklu áfalli. þá er erfitt að leysa úr því. Á þessu ári hefur t.d. verið ákveðið að beita Aflatryggingasjóði til að létta á þessum vanda. Það hefur verið endurgreiddur söluskattur af smurolíu í formi greiðslu til skipanna. Það hefur verið ákveðið að gefa sérstakan 60% vaxtaafslátt af stofnlánum í Fiskveiðasjóði, þannig að vextir eru þar 4% í stað 10. Ákveðið hefur verið að lengja stofnlán skipanna upp í allt að 25 ár. Auk þess hefur verið komið á sérstakri skuldbreytingu eftir ákveðnum reglum, en sú vinna hefur tekið langan tíma og er því miður ekki enn endanlega lokið þótt nokkuð skýrt liggi fyrir hvernig það muni endanlega fara.

Í þessari þáltill. eru sérstaklega ræddir nokkrir liðir. Það er í fyrsta lagi olíuverð til fiskiskipa. Það var gripið til þess að greiða sérstaka greiðslu til skipanna í sumar, sem samsvarar 10% af olíukostnaðinum, á meðan fram færi endurskoðun á verðlagningu olíunnar. Viðskrh. hefur beitt sér fyrir slíkri endurskoðun og þess er að vænta að sú nefnd sem það hlutverk fékk muni skila af sér innan skamms og mun þá þurfa að breyta lögum og ýmsum ákvæðum, ef menn komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að létta ýmsum kostnaði af olíunni. Ég á von á því að svo verði, enda er það eitt helsta vandamál fiskiskipa.

Í öðru lagi orkuverð til fiskvinnslu, svo sem frystingar og bræðslu. Þetta orkuverð er mjög hátt og m.a. er söluskattur á þessu orkuverði. Það hefur nú verið ákveðið að uppsafnaður söluskattur í fiskvinnslu og útgerð verði endurgreiddur á næsta ári sem léttir þarna nokkuð á. Það hefur verið ósk manna að lækka orkuverðið enn frekar, en því miður er það svo í okkar landi að orkuverð er afar hátt og er það m.a. vegna þess að við höfum verið óvarkárir í fjárfestingum í orkumálum sem hefur leitt til þess að kostnaður við orkuverð er mun meiri en annars hefði þurft að vera. Hvort rétt sé að það leggist í minna mæli á fyrirtækin og þá í meira mæli á almenning er að sjálfsögðu alltaf umdeilanlegt. En fiskvinnslan greiðir hátt orkuverð og að sjálfsögðu er ég talsmaður þess að það orkuverð verði lækkað, en þá þýðir það að sjálfsögðu að einhver annar verður að axla þá bagga sem þar hafa verið bundnir.

Viðhalds- og þjónustukostnaður er að sjálfsögðu mikilli. Þó hefur hann ekki hækkað mjög verulega, þótt stundum komi það nokkuð skýrt fram, m.a. vegna þess að það er mikil samkeppni meðal þeirra aðila sem annast viðhaldskostnaðinn, t.d. skipasmíðastöðvanna, og þær eiga einnig í mikilli samkeppni við skipasmíðastöðvar erlendis sem bjóða gjarnan lægra í þessa þjónustu. Það hefur að sjálfsögðu skapað þessum aðilum vaxandi erfiðleika. En slíkur kostnaður verður best lækkaður með því að tryggja þessum aðilum aðhald. Það aðhald hefur að mínu mati verið tryggt t.d. með verðsamanburði milli aðila innanlands og erlendis því að skipin fara gjarnan þangað til viðgerða og þau geta ekki tekið á sig hærri kostnað hér innanlands eigi þau kost á honum lægri annars staðar.

Í fjórða lagi er hér talað um fjármagnskostnað og fjárfestingar. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að staðið hefur verið mjög ákveðið gegn því að skipum væri bætt í flotann og það hefur einnig verið, eins og ég gat um áðan, greiddur niður fjármagnskostnaður í Fiskveiðasjóði sem þýðir að sjálfsögðu að þau skip sem þar skulda mest fá langmesta afsláttinn hlutfallslega.

Flutningskostnaður á útflutningsafurðum hefur verið mjög hár og það hefur leitt til þess að útflutningsaðilar hafa boðið út þessa þjónustu meðal skipafélaganna. Hillir nú loks undir að þessi kostnaður muni lækka.

Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál lið fyrir lið. Ég vildi aðeins geta þess að að sjálfsögðu er ávallt verið að takast á við þessi vandamál, ekki aðeins af stjórnvöldum heldur einnig þeim aðilum sem í þessari atvinnugrein vinna. Ég fagna því að sjálfsögðu að hv. þm. skuli sýna þessu máli áhuga. Ég hef áður sagt að ég hafi ekki fundið fyrir þeim áhuga þegar hér hafa verið afgreidd mikilvæg mál sjávarútvegsins, t.d. á s.l. vetri. Vildi ég ráðleggja hv. 1.flm., Steingrími J. Sigfússyni, að lesa þær ræður sem hann þá flutti, m.a. þegar var verið að ákveða að beita Aflatryggingasjóði til hjálpar skipunum, m.a. þegar ákveðið var að skipta afla á skip til þess að koma við hagræðingu og sparnaði miðað við það litla aflamagn sem þar var til skiptanna.

Það kemur fram í grg. að sú hætta sé nú yfirvofandi að útgerð í landinu verði eingöngu ákveðin á forsendum fjármagnsins. Það er að sjálfsögðu alrangt að svo muni verða. Hitt er svo annað mál að fjármagnið mun skipta máli í því sambandi. Fiskiskipin hafa verið smíðuð að langmestu leyti fyrir erlend lán, lán sem eru tekin á alþjóðavettvangi, og við verðum að sjálfsögðu að greiða þau lán.

Það hefur verið ákveðið að skuldbreyta lánum skipanna. Frestur til að ganga frá því var til 15. okt., en hefur nú verið framlengdur, m.a. vegna verkfalls opinberra starfsmanna, en það var vegna þess að póstur barst ekki. Mörg skipanna hafa þegar gengið frá sínum málum, en það liggur fyrir að nokkur skip eiga þar í miklum erfiðleikum. Er þar fyrst og fremst um að ræða skip sem smíðuð hafa verið hér innanlands. Hefur kostnaður þeirra farið fram úr öllu hófi, bæði vegna þess að þessi skip eru fullkomin, vel útbúin, og einnig hafa þau lán, sem til smíðinnar hafa verið tekin, verið mjög dýr. Hins vegar eru þetta ekki mörg skip, sem þar standa eftir, og um þeirra vanda verður sérstaklega fjallað þegar allir aðrir hafa gengið frá sínum málum. En það liggur að sjálfsögðu fyrir að þeir aðilar sem í þessa fjárfestingu réðust á sínum tíma verða að vera ábyrgir sinna gerða eins og annað fólk í þessu landi og það er ekki einhlítt hvernig um slík mál er fjallað. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að ræða málefni einstakra skipa, ég tel það ekki rétt, og tel rétt að bíða þess að Fiskveiðasjóður ljúki við að vinna úr þessum málum.

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur þá umr. sem hér varð um þetta mál um daginn, en mér hefur verið tjáð að við umr. s.l. þriðjudag hafi hv. 4. þm. Suðurl. haldið því fram, vegna þess vandamáls sem upp er komið á Eyrarbakka, að sjútvrh. og ríkisstj. hafi lagt sérstakt kapp á að ná til Hafrannsóknastofnunar skipi sem annars hefði verið keypt til Eyrarbakka og bjargað atvinnumálum þar. Ég vildi vegna þessara orða aðeins upplýsa hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Ég vil mótmæla því að með þessu hafi sérstaklega verið — eins og mér fannst vera látið í skina — vegið að því fólki sem býr við þá miklu erfiðleika sem nú eru á Eyrarbakka.

28. ágúst s.l. gekk stjórn Hafrannsóknastofnunar á minn fund, nánar tiltekið kl. 5, og ræddi um þau vandamál sem eru hjá stofnuninni. Þau eru að eitt af rannsóknaskipunum, ms. Dröfn, sem er afar þýðingarmikið skip og stundar rannsóknir á grunnslóð, t.d. rækjumiðum, skelmiðum og miðum sem hafa gefið mikið af sér á undanförnum árum, er úr sér gengið. Þetta skip hefur fundið mikið af fiskimiðum og fært þjóðarbúinu mikil verðmæti. Þetta er gamalt tréskip og er orðið má segja ónýtt. Það mundi kosta 15–20 millj. að gera við það þannig að það væri sæmilega haffært. Mönnum hefur komið saman um að ekkert vit sé í því að gera það, en hins vegar verði að leysa skipið af hólmi. Það var hugmynd mín eftir að ég kom í sjútvrn. að reynt yrði að nota eitt af þeim raðsmíðaskipum, sem til eru í landinu og hafa verið í smíðum, til þessa verkefnis og annarra verkefna og gert væri mjög vel við Bjarna Sæmundsson og Árna Friðriksson, en Hafþór yrði settur í önnur verkefni. Þessi stefna hefur verið framkvæmd með því að leigja ms. Hafþór til rækjuveiða sem eru jafnframt má segja rækjurannsóknir. Sú tilraun hefur gefist afar vel. Það er nýlega búið að setja í hann frystitæki og hann kom úr sinni fyrstu veiðiferð með fullfermi af Dohrnbanka. Er greinilegt að hér hefur verið um merkilega tilraun að ræða. — Það kom hins vegar í ljós, þegar kannað var betur hvort rétt væri að nota eitt af þessum raðsmíðaskipum, að þau væru mjög dýr og með þeim breytingum sem þurfti að framkvæma á einu af þessum skipum mundi það væntanlega kosta um 150 millj. kr. a.m.k. og var það fyrir um ári. Það var því ekki talið mögulegt að gera það, enda töldu menn að þetta skip væri óhentugt til rannsókna á grunnslóð og of dýrt í rekstri til að athafna sig á innfjörðum og í þeim verkefnum sem ms. Dröfn hefur verið í.

Á þessum fundi var um það rætt hvort eitthvert af þeim skipum, sem nú eiga í miklum rekstrarvanda og geta ekki staðið undir þeim lánum sem á þeim hvíla með góðu móti, gæti orðið til sölu. Það var um það talað að ekki væri ólíklegt að Otto Wathne mundi fara á söluskrá vegna þess að hann stóð í nokkrum vanskilum við Fiskveiðasjóð. Togarinn hafði fiskað mjög vel á árinu. Ég held að ég fari með rétt mál að hann hafi fiskað um 1400 tonn, en samt vantar nokkuð upp á að staðið verði undir fjárfestingarkostnaði. Það var strax upp úr því farið að kanna hvort þetta skip mundi verða til sölu og svo reyndist vera. Voru aðilar, Hafrannsóknastofnun og eigendur þessa skips, í sambandi upp frá því og er það löngu áður en Eyrbekkingar sýna því áhuga að kaupa þetta skip.

Vegna orðróms um að við værum með þessu móti að koma í veg fyrir að leysa vanda þessa fólks, sem ég tel að sjálfsögðu að verði að reyna að leysa, kannaði ég hvort búið væri að tryggja að þessir aðilar gætu fengið þetta skip, ef Hafrannsóknastofnunin féllist á það. Mér var sagt í Landsbankanum að það væri alls ekki frágengið og engin loforð gefin þar um. Mér var sagt hjá Byggðasjóði að ekki hefðu verið gefin loforð og jafnvel væri ólíklegt að Byggðasjóður gæti gert það. Mér var sagt hjá Fiskveiðasjóði að þeir sæju ekki fram á að þessir aðilar gætu með nokkru móti staðið undir afborgunum af þessu skipi. Þess vegna væri líklegt að það fengi ekki góðar undirtektir í stjórn Fiskveiðasjóðs.

Nú skal ég ekkert um þetta fullyrða, og ég endurtek að að sjálfsögðu þarf að reyna að finna lausn á hráefnisvandamálum þessa staðar, en ég tel ekki viðkunnanlegt að það sé með þessum hætti verið að stilla málinu þannig upp að þessi ákvörðun og þessar umleitanir Hafrannsóknastofnunar beinist sérstaklega gegn þessu fólki, eins og hv. þm. var í reynd að gefa í skyn. Það má vel vera að slíkt passi ágætlega í áróðrinum sem alltaf er í gangi, en það er rangt að stilla málum svona upp og mér þykir miður að svo skuli gert og endurtek að það er nær að halda áfram að vinna að því að fá skip fyrir þessa aðila þannig að þar megi halda áfram að vinna fisk eins og áður hefur verið gert. Alltaf er eitthvað af skipum sem eru á lausu svo að ég trúi ekki öðru en það sé hægt að finna lausn á því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meir um þessa till. Ég fagna því að flm. skuli sýna máli þessu áhuga, en tel till. óþarfa og ónauðsynlegt að fara að kjósa nefnd þm. til þess að skilgreina þessi vandamál. Þau liggja fyrir. Það verður að vinna að úrlausn þeirra. Það er verið að gera það á hverjum einasta degi. Ég tel ekki breyta þar miklu um þótt sjö manna þingmannanefnd bætist í þann hóp.