15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5298 í B-deild Alþingistíðinda. (4601)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um framleiðslu. verðlagningu og sölu á búvörum á þskj. 915. Það hafa orðið miklar breytingar á aðstæðum í íslenskum landbúnaði síðan lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins voru sett árið 1947. Nokkrar breytingar hafa að vísu verið gerðar á þeim lögum á þessu tímabili. Þær veigamestu eru ákvæðin sem sett voru 1960 um útflutningsbótaábyrgð ríkissjóðs og 1979 þegar heimildir til framleiðslustjórnunar voru lögfestar. Áhrif beggja þessara breytinga hafa verið mikil.

Á næstu árum eftir 1960 fékkst tiltölulega gott verð fyrir sumar tegundir íslenskra búvara á erlendum mörkuðum þannig að litið vantaði á að útflutningurinn skilaði grundvallarverði til bænda. Framlag ríkissjóðs sem nam 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar nægði því til að verðbæta mikið framleiðslumagn og framkvæmdir í íslenskum landbúnaði miðuðust við að þar væri um tryggan markað að ræða. En smátt og smátt seig á ógæfuhlið þannig að verðlag fór lækkandi og það var sífellt minna magn sem framlag ríkissjóðs nægði til að verðbæta að fullu. Jafnframt hefur orðið sú breyting á að vinnulaunaliður verðlagsgrundvallarins hefur farið hlutfallslega lækkandi svo að í stað þess að áður þurfti framlag ríkisins aðeins að bæta upp nokkurn hluta vinnulauna, en annar reksturskostnaður var að fullu greiddur, hefur framlag ríkissjóðs í æ ríkara mæli farið til að greiða einnig aðkeyptar rekstrarvörur innlendar og erlendar þegar útflutningsverð skilar ekki lengur neinu upp í grundvallarverð til bóndans.

Forustumenn bændasamtakanna sáu hvert þróunin stefndi. Töldu þeir því nauðsynlegt að veittar yrðu heimildir til að koma á framleiðslustjórnun og gerðu tillögur um það. Það var þó fyrst árið 1979 sem Alþingi veitti slíkar heimildir með ákvæðunum um búmark og kjarnfóðurgjald. Þessum heimildum báðum hefur síðan verið beitt og þær reynst áhrifaríkar.

Mikill samdráttur hefur orðið í mjólkur- og kindakjötsframleiðslu þó að vissulega hafi harðindi sumra þessara ára einnig haft þar sín áhrif. En árferðið hefur einnig haft þær afleiðingar að ekki hefur dregið úr rekstrarkostnaði búanna að sama skapi til að vega á móti lækkun brúttótekna. Þar við bætist að um svipað leyti var tekin upp verðtrygging lána svo að verðbólga greiddi þau ekki lengur niður. Í stað þess magnaðist verðbólgan óðfluga á þessum árum og lagði líka af þeim sökum þungar byrðar á landbúnaðinn. Þetta eru þær staðreyndir sem blöstu við þegar endurskoðun hófst á lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. eftir að núverandi ríkisstj. var mynduð í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála hennar.

Að samningu þessa frv. hafa unnið þm. úr báðum stjórnarflokkum ásamt Bjarna Guðmundssyni aðstoðarmanni landbrh. sem stjórnað hefur þessu starfi. Margir aðrir hafa einnig lagt þar hönd að verki.

Í upphafi s. l. árs skipaði landbrh. nefnd til að marka stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins. Voru í henni þrír fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda og aðrir þrír frá Búnaðarfélagi Íslands en formaður var Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri. Þessi nefnd skilaði áliti á s. l. sumri fyrir aðalfund Stéttarsambands bænda sem tók niðurstöður nefndarinnar til ítarlegrar umræðu og gerði ályktanir sem mjög voru í samræmi við tillögur nefndarinnar. Hafa þessar tillögur mjög mótað það frv. sem hér er lagt fram.

Jafnframt ræddi þessi aðalfundur um skipulagsmál Stéttarsambandsins og ákvað að kjósa millifundanefnd bara til að gera tillögur um breytingar á þeim málum. Þessi nefnd Stéttarsambandsins skilaði tillögum til stjórnar þess á s. l. vetri en aðalfundur hefur ekki fjallað um þær. Eftir tillögum þessarar nefndar um skipun Framleiðsluráðs og fleiri atriði í þessu frv. hefur algerlega verið farið við samningu þess.

Auk þessara tveggja atriða, sem mjög hafa sett svip á þetta frv., er rétt að geta þess að rætt var við fjölmarga aðila sem voru fulltrúar þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við frv. þetta. Drög að þessu frv. voru lögð fyrir aukafund Stéttarsambands bænda hinn 17. fyrra mánaðar. Fundurinn gerði ýmsar athugasemdir og ábendingar við þau og kaus nefnd sex manna til að móta frekar tillögur Stéttarsambandsins og eiga viðræður um þær. Við lokafrágang frv. hafa margar þær tillögur og ábendingar verið settar inn í frv.

Frv. felur í sér mikilvæga stefnumörkun í framleiðslumálum landbúnaðarins. Kemur sú stefnumörkun annars vegar fram í 1. gr. frv. þar sem settur er fram megintilgangur þess, en hins vegar í VIII kafla frv. Þar er sett fram eins konar áætlun til næstu fimm ára um aðlögun búvöruframleiðslunnar að breyttum tímum. Sú áætlun er tvíþætt.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða stuðning við breytingar á framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða með stiglækkandi útflutningsbótum og í öðru lagi stuðning við uppbyggingu nýra búgreina. Að þessu tvennu verður nánar vikið síðar.

Stefnumörkun frv., sem kemur fram í 1. gr. þess, felst í eftirfarandi atriðum:

1. Að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.

2. Að framleiðsla búvara til vinnslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.

3. Að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið.

4. Að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta.

5. Að innlend aðföng nýtist sem best við framleiðslu búvara bæði með hliðsjón af'framleiðslu, öryggi og atvinnu.

6. Að stuðla að jöfnuði milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað.

Í frv. er gert ráð fyrir að ríkið semji við Stéttarsamband bænda um það magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum og leggur ríkissjóður fram fjármagn til að greiða framleiðendum mismun á fullu verði skv. ofangreindum samningum og því verði sem fæst fyrir búvörur við sölu á innlendum og erlendum mörkuðum. Í samræmi við ákvæði, sem koma fram í 36. gr. frv., er gert ráð fyrir að þessar greiðslur fari lækkandi í áföngum til ársins 1990. Jafnframt er ákvæði um að því framleiðslumagni, sem þannig er tekin ábyrgð á fullu verði fyrir, sé heimilt að skipta á milli framleiðenda. Í því skyni er m. a. heimilt að taka upp framleiðslukvóta eftir héruðum.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um að Stéttarsamband bænda og einstök landssamtök framleiðenda búvöru, sem Stéttarsamband bænda hefur samþykki, skuli fara með samninga þá sem frv. gerir ráð fyrir við ríkisvaldið.

Þá eru í 30. gr. einnig heimildir til að innheimta gjöld af innfluttu fóðri og hráefnum í það, í fyrsta lagi grunngjald sem má nema allt að 50% af tollverði hinnar innfluttu vöru og í öðru lagi sérstakt föðurgjald sem má nema allt að 150% af tollverði hinnar innfluttu vöru.

Eins og kunnugt er koma áhrif hins lága verðs á erlendum mörkuðum ekki aðeins fram í því að útflutningur íslenskra búvara er ákaflega erfiður á þá markaði heldur er þar einnig unnt að fá ýmsar landbúnaðarafurðir á niðurgreiddu verði langt undir framleiðslukostnaði. Reyna allar þjóðir í kringum okkur að verjast innflutningi þeirra til þess að koma í veg fyrir að kippt verði fótum undan innlendum landbúnaði. Það er ekki aðeins talið hagsmunamál landbúnaðar hvers lands heldur ekki síður öryggisatriði fyrir hverja þjóð að geta treyst sem mest á innlenda fæðuöflun. Í því sambandi fengum við aðvörun á s. l. hausti þegar truflun varð á innflutningi í verkfalli opinberra starfsmanna enda eru lítil rök fyrir því að láta stuðnings- og verndaraðgerðir stjórnvalda í nágrannalöndum okkar kippa fótum undan íslenskum landbúnaði.

Grunngjald af innfluttu fóðri er m. a. ætlað til styrktar innlendri fóðuröflun og fóðurvinnslu í samræmi við þann tilgang frv. sem kemur fram í e-lið 1. gr. þess og ég las áðan. Jafnframt fyrrnefndu gjaldi er gert ráð fyrir sérstöku fóðurgjaldi sem verður endurgreitt til framleiðenda í samræmi við þá framleiðsluþörf sem markaðurinn leyfir. Það er sóun á fjármagni, sem þjóðin hefur ekki efni á, að framleiða vöru sem ekki er hægt að selja og leggja í fjárfestingu sem annaðhvort er ekki hægt að nýta til framleiðslu eða kippir fótunum undan framleiðslu hjá öðrum sem þegar hafa ráðist í slíkar fjárfestingar.

Í frv. er gert ráð fyrir breytingu á verðlagningu búvara á þann veg að verð til framleiðenda og verð búvara í heildsölu er ákveðið með aðskildum hætti. Þá er gert ráð fyrir að ákvörðun smásöluverðs fari eftir lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Verðlagsnefnd búvara skal ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda á sama hátt sem sexmannanefnd gerir skv. núgildandi lögum. Verði ekki samkomulag skal málinu vísað til yfirnefndar sem fellir endanlegan úrskurð. Stéttarsamband bænda tilnefnir þrjá fulltrúa í verðlagsnefnd búvara sem einnig er skipuð tveimur fulltrúum sem stjórn Alþýðusambands Íslands tilnefnir og einum sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja tilnefnir. Heildsöluverð búvara skal hins vegar ákveðið af nefnd fimm manna er í eiga sæti undir forsæti verðlagsstjóra eða fulltrúa hans tveir fulltrúar neytenda og tveir fulltrúar afurðastöðva fyrir búvörur. Fulltrúar neytenda skulu tilnefndir af sömu aðilum og tilnefna fulltrúa neytenda í verðlagsráð, en samtök afurðastöðva skulu nefna tvo fulltrúa í nefndina þannig að í nefndinni séu fulltrúar frá þeirri vinnslugrein sem fjallað er um verðákvörðun á. Það virðist eðlilegt að fulltrúar afurðastöðvanna eigi beina aðild að ákvörðun heildsöluverðs eins og lagt er til í frv. en ekki fulltrúar bænda, eins og gert er í núgildandi lögum, þar sem vinnslustöðvarnar hljóta að vera best kunnugar sínum málefnum.

Við verðákvörðunina skal fimm manna nefnd ganga út frá afurðaverði til framleiðenda sem ákveðið hefur verið og jafnframt rökstuddum upplýsingum um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara sem aflað er með eins ítarlegum athugunum og kostur er þannig að á engan sé hallað við þá verðákvörðun.

Til þess að halda vinnslu- og dreifingarkostnaði í lágmarki eru ítarleg ákvæði um verðmiðlun. Henni skal hagað þannig að afurðastöðvum sé gert kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvörur þrátt fyrir misjafna aðstöðu sem afurðastöðvarnar eiga við að búa. Er þetta eitt af grundvallaratriðum frv. eins og kemur fram í 1. gr. þess. En öllum er ljós þessi misjafna aðstaða afurðastöðvanna við að vinna og koma á markað þeim afurðum sem þær taka á móti. Þar kemur t. d. til greina staðsetning, heildarafurðamagn og byggingarkostnaður auk fjölmargra annarra atriða. T. d. er sérstaklega tekið fram að jafna megi flutningskostnaði frá framleiðendum að afurðastöð í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna. En við samdrátt búvöruframleiðslu breytist aðstaða margra afurðastöðva þar sem afkastageta þeirra er meiri en framleiðslan sem til þeirra berst svo að það getur verið hagkvæmt að stuðla að sameiningu þeirra.

Þá er ákvæði um að koma megi á hentugri verkaskiptingu milli afurðastöðva, en slíkt getur sparað mikla fjárfestingu. Í mjólkuriðnaðinum er það Framleiðsluráð landbúnaðarins og samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem skulu gera með sér samkomulag um verkaskiptingu á milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara með tilliti til heildarafkomu framleiðslugreinarinnar og hagsmuna mjólkurframleiðenda og neytenda. Samkomulagið staðfestir landbrh. og úrskurðar ef aðilar ná ekki samkomulagi.

Á sama hátt skulu Framleiðsluráð landbúnaðarins og sláturleyfishafar gera samkomulag um verkaskiptingu á milli sláturleyfishafa vegna slátrunar og verkunar sauðfjár- og stórgripaafurða. Skal í samkomulaginu taka tillit til mismunandi heimilda sláturleyfishafa til slátrunar og verkunar á þessum búvörum til útflutnings og þess að sala hvers sláturleyfishafa á innlendum markaði miðist skv. 30. gr. við hlutfall heimilaðrar framleiðslu þeirra framleiðenda sem eru í viðskiptum hjá sláturleyfishafa. Þessi ákvæði ættu að tryggja að haldið sé uppi hagkvæmu skipulagi á vinnslu og heildsöludreifingu þessara búvara.

Fimm manna nefndin skal gera tillögur um verðmiðlunargjöld í samráði við Framleiðsluráð landbúnaðarins þar sem m. a. er lagt til grundvallar fyrrnefnt samkomulag eða ákvörðun um verkaskiptingu. Um ákvörðun smásöluverðs þeirra búvara sem verðlagðar eru í heildsölu skal hins vegar fara eftir lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. og fjallar verðlagsráð því um þau mál. En sjálfsagt virðist að hámarksverð sé ákveðið a. m. k. á þeim vörutegundum sem greiddar eru niður úr ríkissjóði.

Í gildandi lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. er kveðið á um grundvallarverð til bænda. Í 18. gr. þessa frv. eru sambærileg ákvæði um að enginn megi kaupa eða selja búvöru innanlands á öðru verði en ákveðið hefur verið skv. ákvæðum þessara laga.

Í 29. gr. frv. eru hins vegar nánari ákvæði um hvenær bændur fái þetta verð greitt fyrir það magn sem samið er um við ríkið en að öðru leyti kveður þessi grein ekki á um breytingu á verslun með landbúnaðarvörur. Þessi ákvæði um fulla greiðslu afurðaverðs eru byggð á samkomulagi núv. stjórnarflokka frá s. l. hausti um hækkun afurðalána sem gerir slíkar greiðslur mögulegar og ríkisstj. staðfesti í marsmánuði s. l. að þetta skuli koma til framkvæmda á þessu ári. Hefur viðskrh. skipað nefnd til að gera endanlegar tillögur um á hvern hátt afurðastöðvum verði gert þetta kleift og er nauðsynlegt að niðurstöður þeirrar nefndar liggi fyrir áður en þetta frv. verður afgreitt.

Þá er í 29. gr. ákvæði um að þær ársfjórðungslegu breytingar á verðlagsgrundvelli sem kunna að verða skuli koma fram á óseldum birgðum og greiðast síðan til framleiðenda á sama hátt og gert hefur verið. Fyrir þær afurðir, sem framleiðandi kann að leggja inn umfram það framleiðslumagn sem samið hefur verið um við ríkið, er hins vegar ekki unnt að greiða fyrr en sala hefur farið fram þar sem fyrr liggur ekki fyrir hvaða verð fæst fyrir þær á erlendum markaði.

Eins og áður sagði er í VIII kafla frv. fjallað um aðlögun búvöruframleiðslunnar þar sem gert er ráð fyrir að hlutfall greiðslna af hálfu ríkissjóðs til útflutningsbúvara fari lækkandi næstu fimm árin en á sama tíma verði vaxandi hlutfalli af verðmæti heildarbúvöruframleiðslunnar varið til þess að efla nýjar búgreinar. enn fremur til markaðsöflunar og fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs á lögbýlum. Þetta ákvæði er eitt af höfuðatriðum frv.

Með þessum hætti er ætlast til að mætt sé áhrifum þess samdráttar, sem orðið hefur í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða, með nýrri uppbyggingu og aukinni framleiðslu á þessum sviðum, að við vinnum okkur á þann hátt úr þeim vanda sem við erum nú stödd í. og virðist vera mikill áhugi hjá bændum að vinna að slíku. Þar virðist loðdýraræktin gefa okkur bestar vonir.

Að svo miklu leyti sem þessu fjármagni verður ekki varið til fjárhagslegrar endurskipulagningar á búrekstri þeim sem nú er fyrir á lögbýlum mun það að mestu leyti ganga til fjárfestingar í þessu skyni, að byggja upp nýja atvinnu. Þrátt fyrir að það gangi til fjárfestingar er vafasamt að minni hluti af því fari til greiðslu vinnulauna en nú er með greiðslu þess til útflutningsbóta vegna þess hve vinnulaun eru orðin lítill hluti af framleiðslukostnaði búvörunnar og fjárfestingin fer síðan fljótt að skila afurðum sem gefa gjaldeyristekjur í þjóðarbúið. Augljóst er að hér skiptir miklu máli að vel takist til, ekki aðeins fyrir íslenskan landbúnað heldur samfélagið allt.

Í frv. er gert ráð fyrir að rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins verði hætt en heimilt sé að leigja samtökum framleiðenda kartaflna og grænmetis fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins til reksturs dreifingar- og sölufyrirtækis með kartöflur og grænmeti. Kartöfluverslun hefur verið mjög til umræðu s. l. ár og nokkrar tilraunir gerðar með breytingar á þeim verslunarháttum. Eru margir kartöfluframleiðendur uggandi um hver áhrif slíkt kann að hafa á afkomuöryggi þessarar búgreinar og er því þörf á að íhuga vel framvindu mála á því sviði og hvað kleift er að gera til að koma í veg fyrir alvarleg áföll í þessari búgrein.

Gagnrýni hefur komið fram um það að með þessu frv. sé verið að færa völd frá bændasamtökunum til landbrh. En það er einkum tvennt sem veldur þessu og hægt er að benda á. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að bændur semji við ríkisvaldið um ákveðið framleiðslumagn sem ábyrgst er fullt verð fyrir og hljóta slíkir samningar að hafa þau áhrif, að ríkisvaldið kemur þar meira við sögu.

Í öðru lagi er kveðið á um að landbrh. skuli staðfesta ýmsar stjórnunaraðgerðir sem eru svo umfangsmiklar að sjálfsagt virðist að þær séu teknar á ábyrgð ríkisvaldsins enda hefur verið dregið í efa að núgildandi ákvæði styðjist við nægilegar lagaheimildir.

Í þessu frv. felast margvíslegar breytingar frá ákvæðum gildandi laga og er því vissulega eðlilegt að ýmsar spurningar vakni í sambandi við framkvæmd þeirra ákvarðana. En ég ítreka það að með frv. er mörkuð stefna sem mikilvægt er að framfylgt sé með samræmdum hætti. Það er því mikilvægt að hægt sé að afgreiða þetta frv. á þessu þingi þó að nauðsynlegt sé að sú nefnd, sem fær frv. til meðferðar, fái til viðræðna þá aðila sem frv. varðar og taki til athugunar ábendingar um það sem betur má fara.

Ég legg til að að lokinni þessari umr., herra forseti, verði málinu vísað til hv. landbn. og 2. umr.