15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5338 í B-deild Alþingistíðinda. (4612)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í umræðum um bjórmál hér fyrir nokkrum dögum hafði formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, sérstakt orð á því að hv. alþm. ættu ekki að hafa dylgjur uppi í garð annarra alþm. og brigsla þeim um mútuþægni. lögbrot eða annað því um líkt. Í frv. sem hér er til umræðu og hann er meðflutningsmaður að, formaður Alþfl., ásamt varaformanni Alþfl.. hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, segir svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Þrjú af fjórum bankaráðum ríkisbankanna ákváðu einnig vísitölubindingu launaaukans sem þó er andstæð lögum.“

Nú óska ég eftir því að annaðhvort formaður Alþfl. eða varaformaður Alþfl. hafi yfir hér í þessum sal þau þrjú bankaráð ríkisbankanna sem höfðu þessa vísitölutengingu uppi. Að öðrum kosti verð ég að halda að þau séu ekki menn fyrir sínum orðum.

Herra forseti. Ég óska einnig eftir að fá að hafa eftir aðra setningu úr þessari grg. sem er svohljóðandi: „Eins og fram hefur komið samþykktu bankaráð ríkisbankanna nýlega að greiða bankastjórum árlegan launaauka að upphæð 450 þús. kr. í stað bilreiðahlunninda.“

Nú verð ég enn að óska eftir því að þessir tveir hv. þm., formaður Alþfl. og varaformaður Alþfl., geri grein fyrir því hvort og hvenær þá bankaráð Búnaðarbankans skrifaði hæstv. viðskrh. bréf þar að lútandi að bankaráð Búnaðarbankans óskaði eftir því að þessi háttur yrði upp tekinn. Það stendur svo á um Búnaðarbankann að áskilið er í lögum að óheimilt sé að breyta hlunnindum bankastjóra án samþykkis hæstv. viðskrh. Nú vil ég spyrja þessa tvo hv. þm., formann Alþfl. og varaformann Alþfl. hvort þeir hafi séð slíkt bréf, hvenær það hafi þá verið skrifað, hverjar séu heimildir þeirra fyrir því að slíkt bréf hafi verið skrifað og hvort yfirleitt Búnaðarbankinn hafi leitað eftir því að slík hlunnindi yrðu tekin upp í stað þess sem áður var.

Það er svo um Búnaðarbankann að þau bifreiðahlunnindi eru þar í gildi enn sem ákveðin voru meðan formaður Alþfl. var bankamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, fyrrv. formaður Alþfl. Ég skora nú á þessa tvo fulltrúa siðprýðinnar að sýna hæstv. Alþingi þá virðingu að gera grein fyrir því hvenær Búnaðarbankinn fór fram á að bifreiðahlunnindum bankastjóra yrði breytt í þessa veru, hvað þeir hafi fyrir sér í því.

Ég vil enn fremur taka það fram í sambandi við bifreiðahlunnindi bankastjóra Búnaðarbankans að gert var hlé á bankaráðsfundi í Búnaðarbankanum varðandi þetta mál til þess að fulltrúa Alþfl. í bankaráði gæfist kostur á því að bera þessi mál undir þingflokk og formann Alþfl. Allar samþykktir í bankaráði Búnaðarbankans varðandi þessi bifreiðahlunnindi hafa verið með fullu fulltingi — (JS: Þetta er rangt.) — fulltrúa Alþfl. Þetta er rétt. Hvort þessi fulltrúi Alþfl. hefur borið þessi atriði undir Alþfl., veit ég ekki. En það er ljóst að beiðnin var þessi og það var orðið við þeirri beiðni. Við spurðum aldrei að því í bankaráði Búnaðarbankans hvort fulltrúi Alþfl. hefði borið þessi mál undir Alþfl. En ég held, eins og málið er vaxið, að alveg sé ástæðulaust að draga fjöður yfir það að þessu máli var frestað á fundi bankaráðs Búnaðarbankans til þess að fulltrúi Alþfl. gæti gert formanni og varaformanni Alþfl. eða þingflokki eða sínum mönnum sem veittu honum sitt umboð — við gengum ekki í skrokk á honum — en einhverjum þá, grein fyrir þessu máli og það hefur ekki ein einasta ákvörðun verið tekin í þessu máli í Búnaðarbankanum án fulltingis fulltrúa Alþfl.

Þingflokkur Alþfl. skoraði á bankaráðsmenn að segja af sér. Ég segi á móti: Ef Alþfl. hefur þá siðfræði að fulltrúar Alþingis í bankaráðum eigi að segja af sér og enginn bankaráðsmanna hlýðir því kalli Alþfl. þá hefur Alþfl. annað ráð, hann getur vikið sínum fulltrúum úr Alþfl. Getur það verið rétt að einhver sá maður, sem Alþfl. studdi í bankaráð, hafi greitt atkvæði með því í bankaráði að tengja launaaukann vísitölu? Það er talið af Alþfl. í dag svo alvarlegt mál að frv. er lagt fram hér um það að öllum bankaráðunum skuli vikið frá með atbeina Alþingis þegar í stað. En Alþfl. þarf enga hjálp manna úr öðrum flokkum til að sýna sína siðprýði, hann getur einfaldlega vikið þeim manni úr Alþfl. sem brást svo trausti hans ef Alþfl. meinar eitthvað með allri sinni siðprýði.

En ég verð að segja það, herra forseti, með fullri virðingu fyrir móral formanns og varaformanns Alþfl., að ég er sannfærður um að þetta ár muni liða á enda án þess að þeir geri það að tillögu sinni að fulltrúum þeirra í bankaráðum verði vikið úr Alþfl. Svo langt nær ekki þeirra siðprýði að koma megi við Alþfl. enda kannske ekki svo margir flokksbundnir menn í þeim flokki að rétt sé að grisja. Ég veit ekki um það.

Þetta er eiginlega kjarni þessa máls. Ef Alþfl. vill sýna meiri siðprýði en aðrir flokkar í þessu máli þá getur hann vikið sínum bankaráðsmönnum úr sínum röðum. Ef formaður og varaformaður Alþfl. vilja láta taka mark á sér þá gera þeir grein fyrir því hvaða þrjú bankaráð ríkisbanka það voru sem tengdu launaaukann vísitölubindingu. Ef þeir ætlast til þess, formaður og varaformaður Alþfl., að við í bankaráði Búnaðarbankans tökum þessa grg. til okkar þá skýra þeir frá því hvenær það bréf var dagsett, hvert var innihald þess og hvernig það mál er yfirleitt vaxið að Búnaðarbankinn hafi farið fram á það sem hér er sagt að hann hafi farið fram á. Ég kannast ekki við það. Ég held að það sé kominn tími til þess að hv. þingheimur átti sig á því að málafylgja þessara tveggja hv. þm. hefur verið með þeim endemum oft og tíðum nú í vetur að þeir hafa einungis komið upp með hávaða af því að þeim hefur ekki verið svarað eins og þeir eiga skilið.