15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5340 í B-deild Alþingistíðinda. (4613)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Öll efnisatriði þessa máls hafa verið rædd áður hér á hinu háa Alþingi. Þó sýnist vera nauðsynlegt að rifja þau upp einu sinni enn. Í fyrsta lagi: Skv. ályktun Alþingis, samþykktri einróma 22. maí 1984, lýsti Alþingi þeim vilja sínum að fella niður bifreiðahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna. Aðdragandi þess var sá að þm. Alþfl. höfðu flutt slíka þáltill. og hún var samþykki mótatkvæðalaust eftir því sem upplýst er, einróma. Þar með hafði Alþingi Íslendinga lýst vilja sínum. Hann var skýr og afdráttarlaus, að fella niður bifreiðahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna og reyndar ríkisforstjóra annarra.

Þegar Alþingi hefur samþykki slíka stefnu er það hlutverk hæstv. ráðherra, handhafa framkvæmdavaldsins, að framfylgja stefnu Alþingis. Það er m. ö. o. skylduverk hæstv. forsrh. og honum til fulltingis hefur hann hæstv. bankamálaráðherra. Af einhverjum ástæðum mun það hafa dregist, eins og fleiri fordæmi munu vera fyrir, að hæstv. ráðherrar framfylgdu vilja Alþingis.

Hvað gerist svo? Síðan gerist það að fjölmiðlar, reyndar blað sem stundum er kallað málgagn hæstv. forsrh. en ritstjórar og blaðamenn þess blaðs mega ekki til þess hugsa — (SV: Voru kratar þar inni í?) — og skiljanlegt — já, jafnvel svo slæmt að það væru jafnaðarmenn þar inni á ritstjórn, hræðilegt til afspurnar. Það er von að þeir hafi sagt upp eða verið reknir. Blað þetta upplýsti að fyrir áramót hefði í bankaráði Landsbankans verið ákveðið að breyta umræddum bifreiðahlunnindum í stað þess að fella þau niður. Þessi ályktun, ef ég má treysta minni mínu, eða samþykki í bankaráði Landsbankans var gerð 28. des., þ. e. af þeim bankaráðsmönnum sem voru þá að ljúka sínu kjörtímabili. (Gripið fram í: Samhljóða?) Í bankaráði Landsbankans? Ekki er mér kunnugt um annað. (Gripið fram í: Þar er krati.) Einmitt. Af því að hv. þm. er að spyrja er rétt að rifja upp að þetta gerðist í bankaráði Landsbankans undir formennsku fyrrv. formanns flokks verkalýðshreyfingar, þjóðfrelsis og sósíalisma sem hv. þm. mun eiga enn aðild að.

Allt þetta mál vakti nokkra athygli. Sérstaklega stöldruðu menn nú við það að viðmiðunin hafði dálítið breyst í meðförunum. Skv, þeim reglum, sem komið var á í fjármálaráðherratíð Magnúsar Jónssonar frá Mel um þessi efni, skyldu bankastjórar þessir njóta þessara hlunninda þriðja hvert ár, þ. e. fá felld niður aðflutningsgjöld af bifreiðum þriðja hvert ár. Einhvers staðar voru birtar í blöðum þær upplýsingar að miðað væri við meðaltalsbankastjórabíl sem ætti að kosta 1100 þús. kr. og kom mönnum þá saman um að þetta ættu að vera 600 þús. kr. þriðja hvert ár. Hins vegar virtist ljóst að upphæðin á ári hverju, sem þarna var samþykki, var af einhverjum ástæðum 450 þús. kr.. þ. e. 1350 þús. kr. á þremur árum.

Smám saman kom það á daginn að bankaráðin höfðu líka samþykki að það yrði að bæta bankastjórunum þá hlunnindaskerðingu sem þeir hefðu orðið fyrir með því að greiða fyrir þá líka áætlaðar skattgreiðslur.

Það er síðan upplýst að kveikjan að þessu öllu saman hafi verið athugasemd eins af endurskoðendum ríkisbankanna sem hefði neitað að skrifa undir ársreikninga bankans ef þessu fyrra kerfi yrði haldið áfram vegna þess að að hans mati jafngilti það skattsvikum. Þessi hlunnindi væru að skattalögum skattskyld eins og þau voru áður. Það var líka upplýst samt sem áður að af þeim höfðu ekki verið greiddir skattar.

M. ö. o., hlunnindunum var breytt í peningagreiðslur vegna kröfu endurskoðanda um það að fyrra kerfið stæðist ekki lög, fæli í sér skattsvik. En í stað þess að fara eftir þeirri niðurstöðu var ákveðið að það þyrfti líka að létta undir með hinum hart keyrðu og illa launuðu bankastjórum með því að greiða fyrir þá áætlaða skatta. Í þessari samþykki bankaráðs Landsbankans var líka ákvæði um það að þessi hlunnindi skyldu verðtryggð skv. lánskjaravísitölu. Þegar þetta mál var til umræðu í marsmánuði voru jafnvel nefndar tölur um það að 450 þúsundkallinn á ári væri kominn talsvert á sjötta hundrað þúsund.

Það hefur stundum verið sagt — og ég hygg að það sé sannleikanum samkvæmt — að hv. 3. þm. Norðurl. e. sé framsóknarmennskan holdi klædd og auðvitað er það honum ekki til lasts. Ræða hans hér áðan bendir til þess að þetta sé réttmæt umsögn. Ég er hv. þm. ákaflega þakklátur fyrir að flytja þessa ræðu og mundi jafnvel hafa í hyggju að leita eftir samkomulagi við hann um útgáfurétt á ræðunni því að hún er þess eðlis að með viðeigandi skýringum er ég ekki í vafa um það að vinstri sinnaðir framsóknarmenn víða um landið mundu gjarnan þiggja sérprentun og jafnvel greiða nokkuð fyrir. (SV: Viltu ekki mæta mér bara á fundum?) Hvenær sem væri, minn kæri. (SV: Með þinn rógburð og annað.) Þá er það það, minn kæri. Úr ræðustól Alþingis er ekki farið með rógburð. Við erum að ræða hér á málefnalegan hátt um ákvörðun trúnaðarmanna Alþingis, þ. e. bankaráðsmanna, sem sumir hverjir eru þm. eins og reyndar hv. 3. þm. Norðurl. e.

Nú er mér ekki að öllu leyti kunnugt eða hef ekki við hendina nákvæmar dagsetningar í þessu máli. En eftir því sem ég er upplýstur mun það hafa gerst um mjög líki leyti að bankaráð Landsbankans og Seðlabankans tóku þessar ákvarðanir, og það er fullljóst hvað í þeim felst, í stað þess að framfylgja yfirlýstum vilja Alþingis, og er þó ekki vitað annað en að allir þeir þm., sem jafnframt eiga sæti fyrir hönd flokka sinna í bankaráðum. hafi samþykkt umrædda þáltill. Í stað þess að framfylgja viljayfirlýsingu Alþingis, stefnu Alþingis, um að fella þessi hlunnindi niður stóðu umræddir bankaráðsmenn að því í fyrsta lagi að breyta óbeinum hlunnindum í peningagreiðslur vegna kröfu endurskoðanda um að þær skyldu skattskyldar. Í annan stað, þrátt fyrir þennan upphaflega tilgang um skattskyldu skyldu af almannafé greiddir áætlaðir skattar. Í þriðja lagi, þrátt fyrir lög í landinu skyldu þessi hlunnindi vísitölutryggð — ekki skv. kaupgjaldsvísitölu heldur skv. lánskjaravísitölu. (HBl: Hvar var það í samþykkt Seðlabankans?) Þetta er sú upphaflega tillaga sem samþykkt var í Landsbankanum þann 28. des. Ég hef ekki sjálfur barið augum samþykkt Seðlabankans en var sagt af ábyrgum mönnum að ályktanirnar væru samhljóða og hefðu verið samþykktar sama daginn. (SV: Þetta er alrangt.) Þá leiðrétti menn það. En samþykki bankaráðs Landsbankans hef ég séð og það fer ekkert á milli mála um það hver hún er. (HBl: Hvernig væri að formaður Alþfl. bæði afsökunar ef hann fer rangt með?) Hann er ævinlega tilbúinn til þess ef það er ljóst að upplýsingar hans reynast rangar enda hefur á það reynt.

En við skulum halda okkur hér við kjarna málsins. Kjarni málsins er þessi ef hv. þm. hafa ekki náð þessum staðreyndum:

1. Þeir bankaráðsmenn, sem að þessu stóðu. sniðgengu og brutu í bága við samþykktan og yfirlýstan vilja Alþingis.

2. Þeir stóðu að mjög svo hæpinni ákvörðun um það að greiða af — ég kalla það almannafé, þegar um ríkisbankana er að ræða, áætlaða skattgreiðslu einstaklinga í þeirra þjónustu.

3. Þeir stóðu að samþykkt sem að mati hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. var lagabrot.

Það var ein fyrsta aðgerð núv. hæstv. ríkisstj. að setja brbl. þess efnis að nema úr gildi heimild laga til að vísitölutryggja laun. Að mati hæstv. forsrh.. sem berlega kom fram í viðtölum við hann í umræddu blaði. Nútímanum, var hér um að ræða ótvírætt lagabrot. Í umræðum á Alþingi segir hæstv. viðskrh. orðrétt, með leyfi forseta:

„Varðandi skoðun mína á vísitölubindingu umræddra launagreiðslna, þá er hún sú að vísitölubindingin sé andstæð lögum.“

Um þetta geta þeir hv. samþm. úr Norðurl. e., Stefán Valgeirsson og Halldór Blöndal, deilt ef þeir vilja við þá hæstv. ráðherra og flokksbræður sína.

Það hefur enginn vefengt að það væru lög í landi, samþykki af þessum sama þingmeirihluta hér, að vísitölubinding launa væri lögbrot. Hvað er það þá sem hv. þm. eru að fjargviðrast yfir út af þessari tillögu? Það er m. ö. o. upplýst að menn, sem kosnir eru í umboði Alþingis, hundsa vilja Alþingis og brjóta lög. Málið er þá í höndum Alþingis. Og hvernig ætlar Alþingi að bregðast við? Það er verið að fara heldur nöturlegum orðum um fjölmiðla fyrir að upplýsa málið. Það er jafnvel til þess vitnað að það sé svo slæmt ástand á fjölmiðlum. jafnvel flokksblöðum Framsfl., að þar séu jafnvel ekki flokksbundnir menn skrifandi. En hver er staða Alþingis? Hvernig bregst Alþingi við þegar því er stillt upp við vegg með þessum hætti? Mín skoðun er sú að í slíkum málum dugi það ekki, þó að fjölmiðlar reynist stundum vera samviska þjóðarinnar, að láta málið bara deyja út og gleymast. Mín skoðun er sú að Alþingi beri skylda til að sjá til þess að þingviljanum sé framfylgt. Þess vegna á Alþingi að ganga eftir því við hæstv. ráðherra að þeir framfylgi meirihlutasamþykktum Alþingis því að eitt af hlutverkum þess er eftirlit með framkvæmdavaldinu, sérlega þegar um er að ræða þess eigin umboðsmenn, að lög í landinu séu ekki brotin af þessum umboðsmönnum.

Viðbrögð okkar þm. Alþfl. við þessum staðreyndum voru þau að við skoruðum á hæstv. ríkisstj. og einkum og sér í lagi forsrh. og viðskrh. að framfylgja þegar í stað vilja Alþingis með því að koma því til skila til bankaráðanna að vilji Alþingis væri sá að þessi hlunnindi væru felld niður.

Í annan stað skoruðum við á þá bankaráðsmenn, sem að þessari ákvörðun hefðu staðið, að segja af sér. (SV: Hvaða ákvörðun?) Þeirri ákvörðun að sniðganga vilja Alþingis og brjóta lög í landinu. Því næst fylgdum við því eftir með því að flytja hér frv. til l. um að fella niður umboð núv. bankaráða ríkisbankanna og kjósa ný bankaráð.

Mér skilst á máli hv. 3. þm. Norðurl. e. og reyndar félaga hans líka úr sama kjördæmi og sama bankaráði að þeir telji að hér sé ómaklega vegið að bankaráði Búnaðarbankans. Skv. mínum upplýsingum var á bankaráðsfundi í Búnaðarbankanum lögð fram tillaga, sem er efnislega samhljóða hinni upphaflegu bankaráðstillögu Landsbankans, þ. e. um að þessum hlunnindum skyldi breytt í peningagreiðslur. Viðmiðunarupphæðin var hin sama, 450 þús. kr., þ. e. í því fólst að áætlaðar skattgreiðslur skyldu greiddar og í hinni upphaflegu tillögu var einnig ákvæði um vísitölutryggingu launa.

Skv. mínum upplýsingum gerðist það að bankaráðsfulltrúi Alþfl. í bankaráðinu gerði af því tilefni sérstaka bókun. Þá bókun hef ég séð en hef hana ekki við höndina. En efnislega var hún á þá leið að hann vakti athygli bankaráðsmanna á því að vísitölutrygging þessara hlunninda væri lagabrot. Umræddur bankaráðsmaður er einn af forvígismönnum launþega í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þaulkunnugur kjarasamningum og hafði fengið á það að reyna fyrir hönd umbjóðenda sinna að vísitölubinding launa er lagabrot. Í þessari bókun, sem ég get ekki vitnað í orðrétt af því að ég hef hana ekki við höndina, voru síðar settar fram ákveðnar efasemdir um viðmiðunina, þessar 450 þús. kr., en alveg tvímælalaust andmælt lagabrotinu, þ. e. vísitölubindingunni.

Skv. mínum upplýsingum gerðist það síðan að tillagan var dregin til baka en flutt ný tillaga og þá var hún án vísitölubindingar launa. Það þurfti m. ö. o. atfylgi bankaráðsmanns Alþfl. til þess að benda hv. bankaráðsmönnum á það — þó að þarna væru allmargir alþm. vel kunnugir lagasetningu af langri reynslu - að hér væri um lagabrot að ræða. Ég hygg að þetta sé nokkurn veginn það sem máli skiptir, þau aðalatriði sem varða þetta mál. Síðan er bara spurningin um það hvernig Alþingi og einstakir þingflokkar bregðast við.

Að því er varðar þingflokk Alþfl. þá gerði hann ákveðna ályktun um þetta mál sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í tilefni af þeirri ákvörðun bankaráða ríkisbankanna að greiða bankastjórunum vísitölutryggðan launaauka sem ígildi bifreiðahlunninda að upphæð 450 þús. kr. á ári vill þingflokkur Alþfl. taka fram eftirfarandi:

Í maí 1984 samþykkti Alþingi þáltill. frá Alþfl. þar sem ríkisstj. var falið að fella niður bifreiðahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna og annarra yfirmanna ríkisstofnana. Þar sem fyrir liggur að núv. ríkisstj. hefur brugðist þeirri skyldu sinni að framfylgja þessum fyrirmælum Alþingis, að samþykkt bankaráðanna brýtur í bága við samþykkt Alþingis og að vísitölutrygging kaupauka bankastjóranna er lögbrot, skorar þingflokkur Alþfl. á ríkisstjórn Íslands að framfylgja þegar í stað samþykki Alþingis í málinu, bankaráðsmenn. sem stóðu að þessari löglausu ákvörðun, að segja af sér þegar í stað og Alþingi Íslendinga að samþykkja þegar í stað fyrirliggjandi lagafrv. þeirra þm. Eiðs Guðnasonar og Karls Steinars Guðnasonar um að afnema bifreiðahlunnindi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Í framhaldi af því hefur síðan þingflokkur Alþfl. ritað bankaráðsmönnum bréf þar sem mælst er til þess að þeir verði við þessari stefnumörkun þingflokksins.

Nú er það svo að bankaráðsmenn eru kosnir á Alþingi, ekki tilnefndir af þingflokkum, og umboð þeirra verður að sjálfsögðu ekki afturkallað nema af Alþingi sjálfu. Það sem hv. þm. þyrftu að meta er þetta:

Það er rétt sem fram hefur komið, enda aldrei verið vefengt af okkur, að fyrir atbeina bankaráðsmanns Alþfl. í Búnaðarbankanum var komið í veg fyrir að umræddur kaupauki væri vísitölutryggður. Bankaráðið beygði sig fyrir þeirri ábendingu og þeim rökum að hér væri um lögbrot að ræða. Bankaráð Búnaðarbankans slapp því við þá skömm.

Eftir stendur hins vegar að bankaráðin sniðgengu og brutu í bága við yfirlýstan einróma vilja Alþingis. Mín skoðun er sú að bankaráðsmenn þurfi ekki að brjóta lög til þess að það komi til álita að endurnýja þeirra umboð ef þeir breyta í andstöðu við yfirlýstan vilja Alþingis. Ég tel það vera nægilegt tilefni.

Hvers vegna er Alþingi að lýsa yfir stefnu í einhverjum málum? Sú hin sama stofnun og kýs umrædda menn samþykkir síðan stefnuyfirlýsingu um aðgerðir í einhverjum tilteknum málum, felur framkvæmdavaldinu framkvæmd málsins og auðvitað um leið umboðsmönnum sínum í framkvæmdavaldinu. En við því er ekki orðið, vilji Alþingis er hundsaður. Hvernig á Alþingi að bregðast við því? Alþingi á að sjálfsögðu að árétta það að það fer með löggjafarvald, það mótar stefnu og það á ekki að láta neina aðila bjóða sér það að þeir sniðgangi yfirlýstan vilja Alþingis. Hitt kann að vera að menn geti haft skiptar skoðanir um það nákvæmlega hvernig Alþingi skuli tryggja það að fyrirmælum þess sé fylgt.

Það er reginmisskilningur hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að hér hafi verið farið með einhverjum dylgjum eða getsökum að mönnum. Fjarri því. (SV: Það er nú ekkert nýtt.) Fjarri fer því. Það er mikill misskilningur að ætla að líkja því saman þegar einn hv. þm. ber samþm. sína sökum úr ræðustól um mútuþægni eða fjárhagslega hagsmuni af tilteknu má!; en þverneitar því hins vegar aðspurður að færa rök fyrir máli sínu eða nefna það við hverja hann á. Það sem af því hlýst er það að allur þingheimur liggur undir grun og reyndar flm. ákveðins máls. Um þetta mál höfum við fjallað og þar er engu við að bæta. Hér er ekki um neinar dylgjur að ræða. Við getum haft ólíkar skoðanir á þessum hlutum en staðreyndir málsins liggja nokkuð ljósar fyrir og málflutningur Alþfl. er allur fyrir opnum tjöldum, þingfestur á þskj. Við erum reiðubúnir hvenær sem er og hvar sem er að færa rök fyrir okkar máli. Þetta á ekkert skylt við neinn óheiðarlegan málflutning af neinu tagi.

Reyndar er það að hafa endaskipti á hlutunum þegar hv. 3. þm. Norðurl. e. getur ekki leynt geðsmunum sínum úfnum heldur þegar honum finnst ómaklega vegið að einstökum bankaráðsmönnum í þessu máli. Ég held að það sé orðið helst til langt á milli hv. þm. og kjósenda hans almennra í hans eigin kjördæmi og reyndar um land allt. Mál af þessu tagi, sem skyndilega er afhjúpað í blöðum, er tvímælalaust þess eðlis að allur þorri almennings er réttilega hneykslaður á þessu framferði bankaráðsmanna. (SV: Hann er fyrst og fremst blekktur.) Hann er ekki blekktur. Það er ekkert nýtt um staðreyndir þessa máls, þær hafa legið fyrir. Engum af þessum staðreyndum hefur verið hnekki. Viðbrögð almenningsálitsins eru fyrst og fremst þau að fólki hreinlega ofbýður.

Á sama tíma og misskipting tekna og eigna í þessu þjóðfélagi fer vaxandi, á sama tíma og ríkisstj. og þingmeirihluti telja það styðjast við nauðsynleg rök að afnema réttinn til þess að verðtryggja laun, þá heldur þessi sami þingmeirihluti fast við það að eftirstöðvar skulda skuli verðtryggðar skv. þeirri sömu ránskjaravísitölu sem nota skyldi til að verðbæta hlunnindi toppembættismanna og hæst launuðu manna kerfisins. Á sama tíma og viðskiptavinir þessara banka og þessara bankastjóra eru í hrönnum komnir undir hamarinn og eru á uppboðum vegna þess að þeim hefur verið gert að borga reikning sem nemur nokkrum hundruðum milljóna kr. umfram það sem átti að vera, þegar þeir tóku þessi lán, þá láta þessir sömu menn sér það sæma að brjóta lög í landinu með því að verðtryggja. ekki bara með kaupgjaldsvísitölu, heldur ránskjaravísitölu ósæmileg hlunnindi til forréttindahópa. (SV: Hvaða rugl er í þér?) Og þeir sem ættu að fara sér hagt í þessu máli eru þeir hinir sömu sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga, hafa jafnvel tekið þátt í því að samþykkja þar stefnuyfirlýsinguna um að afnema þennan ósóma. en láta sér það svo sæma að styðja slíkar tillögur og slíkar ákvarðanir bak við byrgðar dyr í lokuðum herbergjum kerfisins.

En að lokum, herra forseti, af því að hv. þm. var svo elskulegur hér úr sæti sínu að bjóða mér að mæta sér einhvers staðar á opinberum fundi þar sem almenningur fengi heyrt mál okkar um þessi mál skal það tekið fram að ég tek því boði með þökkum og ánægju.