15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5345 í B-deild Alþingistíðinda. (4614)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð um þetta mál. Mér þykir það hlýða þar sem ég er sennilega búinn að sitja manna lengst í bankaráði af hv. alþm. og hlýt því að vera manna sekastur í þessu efni, a. m. k. mun sekari en þeir hv. alþm. sem komu inn í bankaráðin um síðustu áramót og bera því a. m. k. ekki mikla ábyrgð á fortíðinni í þessum efnum.

Alkunna er að það hefur lengi viðgengist hér á landi eins og víða annars staðar að ýmsir opinberir starfsmenn og embættismenn hafa notið bílahlunninda, annaðhvort ekið um á ríkisbílum eða notið einhverra bílastyrkja. Ég þykist muna að á árunum fyrir 1970 voru þeir embættismenn gagnrýndir mjög mikið sem óku um á ríkisbílum. Það var bent á að þessir menn notuðu þessa bíla ekki eingöngu í vinnunni heldur við ýmis önnur tækifæri sem ekki þótti hlýða. Ef' ég man rétt var þessi umræða alihávær fyrir 1970 og varð þess vafalaust valdandi m. a. að þessi mál öll voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar af þáv. ráðherrum og ríkisstj. Niðurstaða af þeirri endurskoðun varð svo reglugerðin frá 1970 sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði glögga grein fyrir í máli sínu hér áðan. En Búnaðarbankinn fékk þessa reglugerð senda ásamt bréfi frá 26. febr. 1970 eins og hér hefur verið bent á. Ég fæ ekki annað skilið en að í því bréfi og í þeirri reglugerð fælust bein fyrirmæli til bankaráðs Búnaðarbankans og bankastjórnar að færa þessi mál í það horf sem þar var bent á. Ég leyfi mér að hafa aftur yfir niðurlag bréfsins, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Samkvæmt þessu væntir ráðuneytið þess að bankaráðið hlutist til um að gerðar verði ráðstafanir til að koma bifreiðamálum Búnaðarbanka Íslands í það horf er samræmist ákvæðum reglugerðarinnar og eigi síðar en 1. júlí 1970.“

Það má spyrja hvort bankaráðið hafi verið skyldugt til þess að hlýða þessum fyrirmælum. Ég skal ekki segja að hlýðniskylda í íslenskum rétti sé algerlega skilyrðislaus en þó held ég að það fari ekki á milli mála að þessum fyrirmælum bar bankaráðinu að hlýða.

Við spurðumst svo iðulega hér fyrr á árum fyrir um það hvað við ættum að hafa til fordæmis þegar um þessi mál væri að ræða, þegar ákveða bæri kaup og kjör bankastjóra. Fengum við venjulega þau svör hjá ráðherra og ráðuneyti að okkur bæri að fara að fordæmi Landsbanka og Seðlabanka. Ég fullyrði að við í bankaráði Búnaðarbankans höfum aldrei öll þessi ár bætt kjör bankastjóranna meira en gert hefur verið í nefndum ríkisbönkum og sennilega á stundum þó nokkuð minna. Á hitt ber að líta að á undanförnum árum hefur Búnaðarbankinn vaxið mjög hröðum skrefum og er fyrir löngu orðinn næststærsti banki landsins. Það verður því að virða okkur það til vorkunnar þó að við gætum ekki verið þekktir fyrir að launa okkar bankastjóra mun verr en aðrir ríkisbankar gerðu.

Síðan liður tíminn og það færist ró yfir þessi mál. Þau eru lítið rædd. Það má vel vera að það megi áfellast okkur fyrir það að hafa ekki árlega krufið þessi mál til mergjar og jafnvel reynt að meta þessi hlunnindi til peninga sem ég raunar hygg að alls ekki hafi verið gert á liðnum árum sem ég nefndi. En svo er það í des. s. l. að bankaráð Landsbankans tekur þessi mál til umfjöllunar. Það hefur verið vitnað í bankaráðsfund Landsbankans frá 28. des. s. l. og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um þá bankaráðssamþykkt. En þar voru þessi hlunnindi metin til peningaverðs að fjárhæð 450 þús. kr. eins og margoft hefur verið tekið fram. Þegar þetta mál kom á daginn var að sjálfsögðu fjallað um það í Búnaðarbankanum. Ég hef ekki hér registur yfir þá bankaráðsfundi þar sem þetta mál var rætt hjá okkur, né heldur uppskrifaðar þær tillögur sem fram komu eða frásagnir af þeim umræðum sem fóru fram. Þó var það alveg sjálfsagt að fara að ósk hæstv. bankamálaráðherra og staldra við og íhuga þessi mál þegar sú ósk kom fram. En ég ætla að það sé ekki enn þá farið að skrifa neitt bréf frá Búnaðarbankanum til ráðherra um þessi ofni. Þau eru því raunverulega enn til meðferðar, ekki síst skv. ósk hæstv. ráðherra.

Hv. 5. þm. Reykv. minnist á það hér að við séum brotlegir, bankaráðsmenn, ekki síst fyrir það að sniðganga vilja Alþingis og brjóta lög landsins. Í því sambandi vitnar hann í þál. þeirra Alþfl.-manna sem hann las upp áðan og segir að Alþingi hafi samþykki í einu hljóði. Það er svo með þál. að þær eru fyrst og fremst viljayfirlýsingar Alþingis og þeim er iðulega beint til ríkisstj., ráðuneyta og ráðamanna. Við könnumst öll við þær mörgu fsp. sem gerðar eru af hv. alþm. á hverju þingi um það hvað líði framkvæmd hinnar og þessarar þál. sem gerð hefur verið og send ráðuneytum. Það má vel vera að hægt sé að áfellast okkur fyrir að sniðganga vilja Alþingis að þessu leyti. Þó hygg ég að það sé dálítið umhendis að taka svo til orða.

Hv. 5. þm. Reykv. skýrði mjög náið frá gangi mála í bankaráði Búnaðarbanka Íslands og fjallaði þar um hlut fulltrúa Alþfl. Við eigum því láni að fagna í bankaráði Búnaðarbankans að þar hefur yfirleitt verið ágæt samstaða manna í milli. Við reynum að leysa sem flest mál í góðri einingu. Ég skal gjarnan lýsa því yfir hér að fulltrúi Alþfl. í bankaráðinu er hinn mætasti maður. Ég man nú ekki hvor okkar hafði fyrst orð á þessu, við ræddum þessi mál hvað eftir annað. Hver benti fyrst á þennan hlut eða hinn í þessu efni skal ég ekkert fullyrða, en við urðum nokkuð vel ásáttir í þessu máli ef ég man rétt.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. En það er mitt álit að ef við yrðum dæmdir í þessu máli af hv. félögum okkar á Alþingi yrðum við fyrst og fremst dæmdir fyrir að hafa fylgt lögum og reglum of vel, fylgt þeim lögum sem giltu og fylgt þeim fyrirmælum sem okkur bárust og ég gat um hér áðan frá ríkisstj. og ráðamönnum — en ekki fyrir að brjóta þau.

En um þetta þýðir ekki að hafa miklu fleiri orð. Þetta mál fær vafalaust þinglega meðferð og hana af betra taginu. Það verður rannsakað vandlega af hv. alþm. og að sjálfsögðu verðum við bankaráðsmenn að bíða þeirrar niðurstöðu, þess dóms. Það gefur auga leið hversu mikilvægt það er að komast til botns í þessu máli nú á þessum björtu vordögum um leið og reynt er að leysa þá gátu hverjir eigi Ísland.