15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5368 í B-deild Alþingistíðinda. (4623)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vék að því áðan að það hefði verið svo í lögum um Búnaðarbanka Íslands að launakjör bankastjóra hans skyldu ekki vera betri en launakjör bankastjóra Landsbankans. Í samræmi við þessi lög og þá hefð sem þessi lög mótuðu var að sjálfsögðu eðlilegt að formaður bankaráðs Búnaðarbankans legði fram til umræðu í bankaráði Búnaðarbankans þá samþykkt sem gerð hafði verið í bankaráði Landsbankans. Það var að sjálfsögðu eðlilegt. Og það er jafneðlilegt að bankaráðsmenn skiptist á skoðunum um hvað eina sem snertir bankann eins og er gert á þingflokksfundum hér.

Ég vil aðeins segja það aftur, herra forseti, að ég harma það þegar formenn Alþfl. eru að draga hér inn í umr. einhverjar fullyrðingar hafðar eftir bankaráðsmanni Alþfl. í Búnaðarbanka Íslands sem við hinir bankaráðsmennirnir trúum ekki að hann hafi látið sér um munn fara á þann hátt sem hér hefur verið lýst. En að sjálfsögðu hlaut sú spurning að vakna í bankaráði Búnaðarbankans hvort við ættum að leggja til að þessum bifreiðahlunnindum yrði breytt eins og gert var í hinum ríkisbönkunum.

Herra forseti. Það er gefið hér í skyn með þeirri setningu sem ég vísaði til áðan að sá væri vilji og sé vilji bankaráðs Búnaðarbankans að þau hlunnindi sem hér eru rakin, 450 þús. kr. á ári, renni til bankastjóra Búnaðarbanka Íslands. Þetta er rangt. Það liggur fyrir í bankaráði Búnaðarbankans í fyrsta lagi að bankastjórar Búnaðarbankans hafa afþakkað hlunnindi af þessu tagi og í öðru lagi liggur það fyrir að bankaráðið mun ekki fara fram á að slík hlunnindi verði þeim greidd.