20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5369 í B-deild Alþingistíðinda. (4625)

99. mál, kirkjusóknir

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Í 8. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Sóknarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og þátttöku í almennu safnaðarstarfi.“

Þessi ákvæði eiga að sjálfsögðu fyllsta rétt á sér. En síðan er hnykkt á í næstu grein á eftir, 9. gr., með svofelldum orðum:

„Sóknarmenn eiga rétt á guðsþjónustum í sóknum sínum er skal að jafnaði miða við eftirfarandi tilhögun:“ Síðan koma ákvæði um hversu oft skuli haldnar guðsþjónustur miðað við það hversu margir sóknarmenn eru. Í A.-lið er t. d. kveðið á um það að ef sóknarmenn eru 600 hið fæsta skal almenn guðsþjónusta haldin hvern helgan dag. Þetta þýðir það að á fámennum stöðum, þar sem eru kannske 600 til 1000 íbúar og aðeins ein kirkja er, þá ber t. d. um næstu helgi að halda tvær guðsþjónustur, í fyrsta lagi á hvítasunnudag og í öðru lagi á annan í hvítasunnu, og það verða býsna margar messur sem skylt er lögum samkvæmt eftir þessu ákvæði að halda á slíkum stöðum um jól, svo annað dæmi sé nefnt. Ég hygg að þótt sóknarmenn séu allra góðra gjalda verðir megi keyra nokkuð úr hófi lagasetningu um atriði af þessu tagi og að hér sé engum gagn gert.

Ég hef ekki trú á því að ræður presta úr stóli fari batnandi eftir því sem þeim fjölgar og það kannske með aðeins dags millibili. Ég held að áhrif þeirra verði ekki í réttu hlutfalli við tíðnina og að ræður þeirra muni hafa djúptækari áhrif ef tíðni á messum sé í hófi. Orð má ofnota. Það þekkja alþm. betur en margir aðrir. Með þetta í huga legg ég til að 9. gr. sé felld niður. Ef kirkjan óskar eftir því að leggja á herðar prestum sínum kvöð af því tagi sem hér um ræðir gerir hún um það samþykkt og felur embættismönnum sínum og yfirmönnum að framkvæma hana. En að setja það í lög hversu oft skuli messað í hverjum söfnuði tel ég fráleitt með öllu.