20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5371 í B-deild Alþingistíðinda. (4629)

99. mál, kirkjusóknir

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það vill oft verða svo um mál sem ekki láta mikið yfir sér að um þau verða talsverðar umræður hér í hv. Ed. og menn skella jafnvel á skeið um þau málefni sem mönnum dettur ekki í hug að verði tilefni mikilla umræðna.

Þetta mál sá ég fyrst í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar þar sem það var kynnt af þeim kirkjunnar mönnum. Þetta mál er í heild sinni eitt stórt spurningarmerki, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð kom réttilega inn á áðan, hversu nákvæmlega er hér tiltekið í öllum lagatexta um starfshætti og verkefni sóknarnefnda, safnaðarfulltrúa og fleira því um líkt, um héraðsfundi og héraðsnefndir og hversu allt þetta er mjög njörvað niður í lagatexta.

Ég gerði athugasemdir við þetta á sínum tíma í þessari nefnd, alveg sérstaklega þó varðandi 9. gr. Ég varð var við það í þessari nefnd — ég vona að ég brjóti engan trúnað með að segja frá því — að mér þótti sem kirkjunnar menn allir þar væru ekki allt of sannfærðir um hversu þessu skyldi hagað í 9. gr. Þarna væri sem sagt álitamál í fyrsta lagi hvort lögfesta ætti á annað borð þennan lágmarksrétt, þessa „mismunun á þörf“ manna, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð kom réttilega inn á, til þess að fá að njóta guðsþjónustu og nema góða og kristna siði af presti sínum, hvort það væri ekki gagnályktað einmitt um þetta, ekki að þetta yrði of mikið þar sem sóknarmenn væru 600 eða fleiri, heldur spurning um hvort réttur hinna væri ekki allt of lítill sem væru í fámennustu sóknunum. Ég held að það sé aðalatriði þessa máls hvort eigi að lögfesta ákvæði af þessu tagi eða ekki. Ég get ekki stutt það út af fyrir sig að það sé gert.

Ég gerði athugasemd við þetta þegar á fyrsta stigi. Mismunun af þessu tagi, svo undarleg sem hún er, á ekki heima í þessum texta, hún á ekki heima í þessum lögum. Ég hefði miklu frekar viljað sjá 9. gr. eitthvað á þann veg að próföstum væri gert að skyldu að sinna því hlutverki að sjá til þess að sóknarmenn ættu lágmarksrétt á guðsþjónustu og endurskoða það eftir þörfum. Lagaákvæði af því tagi væri fullkomlega nóg í framhaldi af 8. gr. Kirkjunnar mönnum, yfirboðurum í hverju héraði, væri sem sagt skylt að kanna það og fara yfir það hvaða reglur þeir vildu um þetta setja og það væri nóg fyrir okkur að lögfesta það en ekki það hlálega ákvæði sem menn hafa fallist á þrátt fyrir að þeir segja í aths.: Vissulega getur orkað tvímælis hvar mörkin verða sett. Það er nefnilega ekki nóg með það að mörkin orki tvímælis, heldur orkar greinin öll tvímælis að mínum dómi. Ég vona að kirkjunnar menn fari óskemmdir með öllu út úr samskiptum sínum við Alþingi þó að við breytum þessari grein á þann veg sem hv. þm. Ragnar Arnalds leggur til.