20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5372 í B-deild Alþingistíðinda. (4630)

99. mál, kirkjusóknir

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Í framsögu fyrir nál. gat ég um það að ég hefði vissar efasemdir varðandi mörg atriði þessa frv. og teldi að kirkjan sjálf, kirkjuþing, ætti að hafa langtum meira um innri málefni sín að segja en kemur fram í þessu frv. Ég get í sjálfu sér fallist á þau meginrök sem eru fyrir því hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að óþarft sé og rangt að hafa slík ákvæði í þessum lögum og eins og ég benti á í minni framsöguræðu, þegar ég gerði grein fyrir meðferð málsins í nefnd, væri þetta einmitt atriði sem ætti að vera í höndum kirkjunnar sjálfrar og kirkjuþings.

Hins vegar er það svo að úr því að kirkjuþing hefur ákveðið að afsala sér þessum völdum í hendur Alþingis held ég að það sé ekki okkar hv. þm. að ganga gegn því og ef kirkjan telur sér styrk að því að hafa slík ákvæði beinlínis í lögum situr það síst á okkur að neita henni um það að taka á okkur þá ábyrgð sem felst í því að samþykkja slík lög. Hins vegar hefði ég haldið að út frá sjónarmiði kirkjuþings ætti þetta og reyndar fjölmörg önnur atriði sem t. d. hv. 2. þm. Austurl. tók fram að vera í höndum kirkjunnar og mörg atriði varðandi sóknarnefndir, héraðsfundi og annað slíkt séu reglugerðarákvæði kirkjunnar sjálfrar en ekki innan verksviðs Alþingis. En þar sem kirkjuþing hefur farið fram á þetta sé ég ekki ástæðu til að greiða atkv. með brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v.