20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5372 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

99. mál, kirkjusóknir

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur eiginlega tekið af mér ómakið. En ég kvaddi mér hljóðs þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði af því að ég var honum svo sammála um það sjónarmið sem hann lýsti, þ. e. að kirkjan eigi að hafa sem mest að gera með sín eigin mál. Ég held að það sé raunar löngu orðið tímabært að breyta ýmsu í skipan þessara mála út frá þessu sjónarmiði.

Ég undirstrika það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði um réttmæti þess að kirkjan færi sjálf með sín eigin mál. En ég kemst að þveröfugri niðurstöðu. Ég dreg þveröfuga ályktun af þessu sjónarmiði við það sem hv. þm. gerði. Einmitt vegna þess að kirkjan á að ráða sem mestu í eigin málum, þá tel ég ekki rétt og eiginlega alveg fráleitt að ganga fram hjá ákveðnum óskum kirkjunnar um sérstakt atriði sem þetta. Við eigum að undirstrika afstöðu hv. 4. þm. Norðurl. v. til kirkjunnar mála með því að fella brtt.