20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5377 í B-deild Alþingistíðinda. (4645)

502. mál, dýralæknar

Flm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 936 frv. til l. um breytingar á lögum nr. 77 frá 1. okt. 1981, um dýralækna, sbr. lög nr. 77 18. maí 1982, um breytingu á þeim lögum. Meðflm. mínir eru þeir virðulegu þm. Davíð Aðalsteinsson, Helgi Seljan og Salome Þorkelsdóttir.

Alþingi hefur fyrr á þessu þingi fjallað um málefni er varða fisksjúkdóma í ríkara mæli en oftast áður. Þar má þá fyrst nefna að við afgreiðslu fjárlaga var veitt heimild til eins stöðugildis við tilraunastöðina á Keldum. Vigfús B. Jónsson varaþm. úr Norðurl. e. flutti ásamt fleiri alþm. till. til þál. um varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og vötnum og hefur sú tillaga nú hlotið jákvæða afgreiðslu Alþingis. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga frá Kjartani Jóhannssyni og fleiri hv. þm. þar sem lagt er til að þegar á þessu ári verði veitt heimild fyrir tveimur nýjum stöðugildum við Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum. Þannig hefur á fleiri sviðum verið fjallað um mál af svipuðum toga og þessum þótt þau hafi hvorki verið í frumvarpsformi né snert lögin um dýralækna.

Fiskirækt er viðkvæm og vandasöm atvinnugrein sem krefst bæði vísindalegrar þekkingar og reynslu. Þar sem fisksjúkdómar gerast nú æ ágengari er brýn nauðsyn á að hafa kerfisbundið eftirlit með fiskeldisstöðvum í landinu og fyrirbyggja að sýktum fiskum sé dreift milli stöðva og út í hina villtu náttúru landsins. Öllum ætti að vera ljóst að slík slys geta verið með öllu óbætanleg. Það er því ótrúlega mikið undir því komið að fisksjúkdómar finnist á byrjunarstigi svo að takast megi að einangra þá og eyða þeim áður en stórtjón hlýst þar af.

Síðan framangreindar till. voru fluttar um þetta efni hafa gerst á sviði fiskeldis og fisksjúkdóma atburðir sem tafarlaust verður að gefa gaum. Síðustu mánuðina hefur berlega komið í ljós hversu sjúkdómar í fiskum geta leikið einstakar eldisstöðvar grátt jafnframt því að stefna ótöldum öðrum stöðvum í hættu. Ef fiskeldi hér á landi á að þróast með eðlilegum hætti er nauðsynlegt að taka fisksjúkdómamál föstum tökum til þess að hindra að hér komi upp áður óþekktir sjúkdómar og halda í skefjum þeim sem þegar eru til staðar.

Til þess að þetta megi takast þarf að halda uppi öflugu eftirliti, greiningar-, varnar- og rannsóknastarfi. Með frv. er lagt til að stofnuð verði sérstök staða dýralæknis með sérþekkingu á fisksjúkdómum og með því stefnt að auknu eftirliti og greiningarstarfi í fiskeldisstöðvum er tengist þeirri rannsóknar- og sjúkdómavarnarstarfsemi sem þegar er fyrir hendi. Með frv. er og ætlað að styrkja það starf á þessu sviði sem farið hefur fram innan héraðsdýralæknakerfisins og tengja það rannsóknarstarfinu sem farið hefur fram á Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum.

Fisksjúkdómadýralæknir á að vera aðili sem eldisstöðvar geta leitað til til að vera héraðsdýralæknum til ráðuneytis um mál sem tengjast fisksjúkdómum jafnframt því að hafa forgöngu um samræmdar aðgerðir í samráði við fisksjúkdómanefnd. Undir stjórn yfirdýralæknis á dýralæknir fisksjúkdóma að sjá um framkvæmd eftirlits- og varnaraðgerða. Í svo víðfeðmu landi er nauðsynlegt á frumstigi íslensks fiskeldis að nýta héraðsdýralæknakerfið í fisksjúkdómamálum. Þessu frv. er ætlað að tryggja, að innan þess kerfis starfi aðili sem hefur menntun og aðstöðu til þess að það megi nýtast til fulls.

Þá eru í þessu frv. einnig ákvæði um dýralækni án fastrar búsetu, svo og dýralækna sem starfa við Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum. Þegar lög nr. 77 frá 1. okt. 1981 voru samþykkt féll niður úr dýralæknalögunum ákvæði um dýralækni án fastrar búsetu, svo og dýralækna þá sem starfa við Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum. Á fjárlögum hafa engu að síður verið fjárveitingar til þessara starfa enda ekki áformað að þau féllu niður. Það er því eðlilegt að ákvæði séu í frv. því til staðfestingar.

Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umr. gera till. um að málinu verði vísað til landbn. og 2. umr.