20.05.1985
Efri deild: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5386 í B-deild Alþingistíðinda. (4653)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun á ræðum þeirra hv. Alþb.-manna sem hér töluðu og vísa öllum fullyrðingum um rugl heim til föðurhúsanna. Það sem ég gerði var ekki annað en að greina frá því sem stendur í grg. um aðdraganda þessa máls, um samþykkt stjórnarflokkanna. Að sjálfsögðu byggjast öll stjfrv. á ákvörðunum stjórnarflokkanna og svo gerði það einnig í fyrri ríkisstjórnum. Ég rakti hins vegar þær meginbreytingar sem ráðgerðar eru með þessu frv.

Ég er sannfærður um að virðulegur forseti tekur til greina óskir stjórnarandstæðinga um að fá að skoða málið. Ég efast ekki um það. Ég óskaði ekki eftir að umræðu um málið yrði lokið endilega á þessum fundi, ég sagði ekki orð um það.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel þetta mál mjög mikilvægt og mjög til bóta fyrir starfsemi sjóðanna. Ég tel ákaflega mikilvægt að samræma starfsemi þeirra. Hv. þm. Helgi Seljan sagðist efast um að þetta leiddi til nokkurrar samræmingar. Vel má vera að stjórnir einstakra sjóða, sem fá með þessum lögum mjög mikið sjálfsákvörðunarvald, kjósi að hafa ekki á fullt samræmi. En með frv. er a. m. k. stuðlað að því að svo geti orðið, en hin ýmsu lög sem nú gilda um ýmsa sjóði atvinnuveganna verka aftur á móti sem hindrun á það. Þau verka gegn því að samræmi geti orðið. Ég er þeirrar skoðunar að sneplatog á milli atvinnuveganna sé mjög vafasamt. Reyndar get ég sagt það að ég hefði helst viljað hafa aðeins einn stofnlánasjóð atvinnuveganna. Ég teldi það vera skynsamlegasta skipun. En menn töldu það of róttæka breytingu, a. m. k. á þessu stigi.

Hv. þm. Helgi Seljan taldi að hér væri fyrst og fremst um skrautbúning að ræða utan um litlar breytingar. Að sjálfsögðu er hann frjáls að hafa það álit. Ég fullyrði hins vegar að hér er um mjög mikilvægar breytingar að ræða. Ég leyfi mér að fullyrða að á engan máta sé í þessu frv. dregið úr þýðingu og getu sjóðanna til að aðstoða viðkomandi atvinnuveg, alls ekki, ekki á nokkurn máta. Ég lít svo á að fyrst og fremst sé verið að fela viðkomandi atvinnuvegum forsjá sinna sjóða.

Út af því sem hv. þm. Egill Jónsson sagði hér áðan, sem eru efnislegar athugasemdir er vitanlega þarf að athuga mjög vandlega, þá finnst mér það þó nokkuð undarlegt ef Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda er ekki treystandi til þess að veita fjármagn til nýsköpunar í sínu atvinnulífi. Mér finnst það undarlegt. Ég get ómögulega tekið undir það. Ég treysti þessum stofnunum miklu betur en bankastjórum eða öðrum, sem eru fjarri viðkomandi atvinnuvegi, til að ráðstafa því fjármagni, sem til ráðstöfunar er, á skynsamlegan máta. (EgJ: Þeir hafa verið í stjórn Stofnlánadeildar.) Þeir hafa verið í stjórn Stofnlánadeildar. Þeir verða það ekki skv. þessu. Þeir fara út og ég tel það gott. Ég tel að atvinnuvegurinn sjálfur eigi að hafa ákvörðunarvaldið.

Hv. þm. Skúli Alexandersson spurði um þá nefnd sem sjútvrh. mun hafa skipað. Því miður á ég erfitt með að svara hans spurningu að óathuguðu máli. Það er rétt að þessi nefnd var skipuð áður en ákvörðun var tekin um að taka alla sjóðina til slíkrar endurskoðunar eins og hér er um að ræða. Ég hygg að það hljóti að vera skýringin á því að fundir hafa ekki verið haldnir í þeirri nefnd. Sjálfsagt er að leita nánari upplýsinga um það.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta að þessu sinni. Ég þykist sannfærður um að umræðu um málið verði frestað og þá gefst stjórnarandstæðingum tækifæri til að lesa frv. Reyndar var gert ráð fyrir að því yrði dreift hér á föstudaginn var, en þá var ekki fundur og því ekki hægt að dreifa því fyrr en nú. Þegar hv. þm. hafa kynnt sér efni frv. geta menn rætt málið af meiri þekkingu.