20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5389 í B-deild Alþingistíðinda. (4662)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef áður sagt þegar um þetta frv. var rætt við mig að ég sæi enga ástæðu til að leggjast gegn því og geri það ekki þótt ég hins vegar geri mér fulla grein fyrir því að eitt happdrætti í viðbót í þessu þjóðfélagi, sem verður lögbundið, gerir ekki annað í dag en að draga frá hinum happdrættunum. Það er því verið að þynna út það sem litið var fyrir vegna þess að við erum með nær tvo tugi annarra happdrætta, sem eru reglulega í gangi, frá hinum og þessum félögum og samtökum sem ég held að hv. alþm. séu allir sammála um að nauðsynlegt sé að afli sér fjármuna til sinnar starfsemi.

Varðandi þá upptalningu sem kom fram hjá hæstv. ráðh. um Öryrkjabandalagið og aðildarfélög vil ég benda á að eitt stærsta aðildarfélag að þessu sambandi hefur lögbundið happdrætti á sínum vegum, þ. e. happdrætti SÍBS. Ég hefði talið að það atriði ætti að líta á í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar jafnframt því hvernig ákvæði 3. gr. samræmast ákvæðum laga um önnur happdrætti. Ég man ekki betur en að sú prósenta, sem þar komi til skipta, sé nokkru hærri fyrir neytendur en í þessu happdrætti. Ég tel nauðsynlegt að þar sé samræmi á, ekki síst vegna þess að hér er um peningahappdrætti að ræða. Happdrætti Háskólans þarf að borga snöggtum meira til neytenda en hér er gert ráð fyrir.

Vegna þess að það eru afskaplega litlar skýringar með þessu frv. og engar skýringar með þeim greinum sem hér eru lagðar fram fyrir hv. deild tel ég nauðsynlegt að n. komi með nákvæmar. efnislegar skýringar við hverja grein. Ég tel t. d. að það þurfi að gera frekari grein fyrir því hvað felst í orðinu „öryrki“ varðandi íbúðarhúsnæði á vegum Öryrkjabandalags Íslands. Það er fyrir eitt lögbundið happdrætti, þ. e. Happdrætti DAS, þar sem öllum ágóða er varið til bygginga fyrir aldraða. Það hefur verið látið spanna yfir aldraða og öryrkja, en að sjálfsögðu geta aldraðir verið öryrkjar. Því ber að athuga hvort Öryrkjabandalaginu ber ekki að sjá um húsnæði til frambúðar fyrir öryrkja jafnvel þótt þeir væru aldraðir, en það vandamál sé ekki sett á aðra aðila. Ég tel t. d. að það mætti ráða fram úr miklu vandamáli hér á höfuðborgarsvæðinu í dag í sambandi við hjúkrunarþörf og umönnunarþörf aldraðra með því að gera lítils háttar breytingar á þeim húsum sem Öryrkjabandalagið á og ræður yfir þannig að það geti létt nokkuð á því neyðarástandi sem ríkir í þessum málum hér á höfuðborgarsvæðinu nú. Ég vildi aðeins geta um þessi atriði.

Hér er talað um getraunastarfsemi en þetta er bæði happdrætti og getraunastarfsemi og mun að sjálfsögðu hafa áhrif á aðra getraunastarfsemi sem er í gangi hér í þjóðfélaginu og talin er nauðsynleg fyrir þá aðila sem þar eiga hlut að máli. Mitt erindi hingað, herra forseti, var að vekja athygli á þessum málum og óska eftir því að hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar. skoði þessi atriði.