20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5391 í B-deild Alþingistíðinda. (4664)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er ekki ætlan mín að fara að mæla gegn þessu frv. enda er hér um gott málefni að ræða. Vissulega er vandamál Öryrkjabandalagsins það sama og margra annarra góðra málefna á sviði líknar-, mannúðar- eða almennrar frjálsrar starfsemi eins og íþróttasamtaka, að þar skortir fé til þess að standa undir skipulagi í starfi og til að veita aðstoð til þeirra sem í bandalögunum eru.

Ég stend hér upp, herra forseti, til að taka undir þau orð hjá hv. 12. þm. Reykv. þar sem hann vakti athygli á því að til væri í landinu starfsemi sem héti Íslenskar getraunir og styðst við lög. Sú getraunastarfsemi gengur út á að giska á úrslit kappleikja og það orð „getraunir“ hefur unnið sér hefð. Ég held að það orki því nokkuð tvímælis að stofna til nýrra getrauna sem eru allt annars eðlis. Það kann að valda ruglingi fyrir báða aðila ef þetta frv. verður samþykkt.

Enn fremur vek ég athygli á því að hér er gert ráð fyrir því að starfrækt sé getraunastarfsemi sem fari fram með þeim hætti að á þar til gerða miða er skráð eða valin röð bókstafa. En nú vill svo til að skv. lögum hefur Íþróttasamband Íslands rétt til þess að starfrækja happdrætti eða getraunir sem ganga undir nafninu Lottó, en þar er gert ráð fyrir því að á miða sé skráð eða valin röð tölustafa. Það liggur fyrir að Íþróttasambandið og sérsamböndin á íþróttasviðinu eru búin að ákveða að hleypa þessari starfsemi af stokkunum núna á þessu ári. Ég get ekki séð annað en að það muni leiða til verulegra árekstra ef á sama tíma er farið af stað með svona hliðstæða starfsemi, annars vegar þar sem gert er ráð fyrir því að valin sé röð bókstafa og hins vegar röð tölustafa. Þessu vildi ég vekja athygli á því að ég tel eðlilegt þar sem íþróttahreyfingin hefur hér hagsmuna að gæta og til árekstra geti komið að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, leiti álits hjá íþróttahreyfingunni á þessu máli þannig að sjónarmið megi samræmast. Þessi orð eru mælt af góðum huga til þessara málefna beggja en ekki til þess að leggja stein í götu Öryrkjabandalagsins, heldur til að forða því að þarna verði óeðlilegir og óæskilegir hagsmunaárekstrar.