20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5401 í B-deild Alþingistíðinda. (4669)

493. mál, sparisjóðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. viðskrh. gat um er hér um að ræða frv. sem á sér langan aðdraganda sem má rekja allt aftur til ársins 1972 þegar Lúðvík Jósepsson þáverandi viðskrh. skipaði bankamálanefnd til þess að endurskoða allt bankakerfið. Í framhaldi af skipun þessarar nefndar hefur frv. um sparisjóði oft verið flutt á Alþingi — m. a. var lagt hér fram frv. árið 1978 og ég hygg einnig 1979 — en þau hafa ekki náð að verða útrædd, m. a. vafalaust vegna þess að þingið hafði ekki á sama tíma tök á því að fjalla um frv. um viðskiptabankana og frv. um Seðlabanka sem er óhjákvæmilegt að tengja afgreiðslu frv. um sparisjóði.

Ég vil taka það fram að þar sem ég á sæti í þeirri n. sem mun fjalla um þetta mál ætla ég að gera hér aðeins örfáar athugasemdir og benda um leið á að það er ljóst að það hlýtur að taka nokkurn tíma að fara yfir þetta frv. Þetta er viðamikið frv. með um 80 gr. þegar ákvæði til bráðabirgða eru talin þar með. Það er því ljóst að það verður mjög erfitt fyrir þingnefndir að ná niðurstöðu við afgreiðslu á þessu máli á því þingi sem nú situr nema það verði tekin um það ákvörðun að þingið standi fram í júlímánuð eða svo, en það kann að vera að svo fari miðað við þann gang sem er á því hjá ríkisstj. að koma málum frá sér hér.

Ég vil taka það fram að ég tel að þetta frv. sé að mörgu leyti betur lagt fram en frv. um viðskiptabankana. Í grg. frv. eru ítarlegar upplýsingar um þróun sparisjóðanna á Íslandi og ég vil sérstaklega þakka fyrir þann vísi að sagnfræði sem er á síðum 18, 19 og 20 í þessu frv. Ég vil benda á að það væri vafalaust til bóta ef það væri tíðkað með stjfrv. hér yfirleitt að gerð væri grein fyrir hinum sögulega aðdraganda málsins með þeim hætti að menn geti betur glöggvað sig á þjóðfélagslegri stöðu þeirra mála sem verið er að fjalla um. Sparisjóðirnir hafa gegnt hér mjög þýðingarmiklu hlutverki á undanförnum árum og áratugum og eru elstu íslensku peningastofnanir sem til eru. Þess vegna er nauðsynlegt að fólk fái að skoða þetta í sögulegu samhengi eins og hér er gerð grein fyrir í frv.

Varðandi efnisatriði frv. vil ég taka fram að í því eru sömu frjálshyggjukreddurnar og í frv. um viðskiptabanka, m. a. varðandi fjölgun útibúa, að það er hægt að gera það nokkuð eftir hendinni. Eins er vaxtaákvörðunum hér vísað út í blinda samkeppni. Ég held að það geti orðið litlum sparisjóðum ákaflega hættulegt að lenda í trylltu kapphlaupi um vexti. Hagsmunir innstæðueigenda yrðu í verulegri hættu ef litlir sparisjóðir lenda út í slíkri samkeppni. Þess vegna er rétt að fara fram á það við þá menn sem bera ábyrgð á þessu frv. að það verði skoðað hvort ekki er hægt að taka nokkuð öðruvísi á þessum vaxtaákvörðunarmálum hér í sparisjóðafrv. en gert er í viðskiptabankafrv. Þó verður að geta þess að í þessu frv. eru ákvæði um sérstakan tryggingarsjóð sparisjóða og það ákvæði er til verulegra bóta frá því sem nú er. Sjóðurinn yrði mjög sterkur í rauninni ef ákvæði þessa frv. ná fram að ganga. Ég geri ráð fyrir því að margir sparisjóðir muni jafnvel kveinka sér undan þessum ákvæðum, þeir telji þetta vera fullmikið. Ég held að það sé þó ekki. Hérna er um að ræða skynsamlegar till. sem ég fyrir mitt leyti fagna og spyr um leið að því hvort ekki sé hugsanlegt að tekin verði upp hliðstæð regla varðandi viðskiptabankana, þar verði um að ræða einhvern tryggingarsjóð sparifjáreigenda þannig að þeir geti verið öruggir með sínar innstæður. Að mörgu leyti er það eðlilegra fyrirkomulag að allir bankarnir, hvort sem þeir eru í eigu ríkis, einkaaðila eða hlutafélaga, greiði hlutfallslega jafnt í einhvern tryggingarsjóð í stað þess að mismununin sé með þeim hætti sem við þekkjum, að sumir bankar, eins og ríkisbankarnir, séu með tryggingu á sínum innstæðum hjá ríkinu en einkabankar ekki með neinar slíkar tryggingar. Þ. a. l. er ljóst að samkeppnisstaða þeirra um sparifé er talsvert önnur en ríkisbankanna eins og málum er nú háttað.

Ég vil í tilefni af framlagningu þessa frv. spyrja hæstv. viðskrh. um aðeins eitt atriði: Hvenær er þess að vænta að frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, heildarlög um Seðlabanka Íslands, komi hér inn í þingið? Því að þegar það frv. er komið er unnt að mynda sér heildarskoðun á þessum málum peningastjórnunarinnar, sparisjóðum, viðskiptabönkum og Seðlabanka. Í rauninni er seðlabankafrv. alger forsenda þess að hægt sé að ná utan um þetta mál í heild.

Nauðsynlegt er að ítreka það svo að lokum, herra forseti, að hér er um að ræða mjög flókna og mjög þýðingarmikla löggjöf þar sem bankarnir og sparisjóðirnir eru. Það er mjög nauðsynlegt að Alþingi og þingnefndir kasti ekki höndum til þessara frv., þau verði lesin samviskusamlega yfir í þingnefndum, farið rækilega yfir forsendur allra greinanna og þau skoðuð eins nákvæmlega og mögulegt er, því að það getur haft afdrifaríkar og hættulegar afleiðingar fyrir alla peningamálastjórn í landinu ef löggjafinn kastar höndunum til mikilvægra mála eins og þeirra sem hér eru nú á dagskrá.