01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls um þetta mál, en ég sá mig tilknúinn að koma hér í ræðustól þó ekki væri nema til að leiðrétta þann misskilning sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. Ég vil kalla það misskilning en ekki rógburð að rugla saman einhverju einfaldasta atriði í málefnagrundvelli BJ og þokukenndri pólitík Framsfl. Sú þingnefnd sem hér er lagt til að sett verði á laggirnar er sjálfsagður hlutur. Hún er sjálfsögð bæði í því ástandi sem nú ríkir og hún er líka sjálfsögð út frá hlutverkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Hæstv. sjútvrh. kom hér í stól og lýsti tillögum sem hann hafði lagt fram á þingi fyrir nokkrum þingum síðan, þar sem greinilega kom fram að skilningur hans á aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds hafði, a.m.k. á þeim tíma, verið mjög ámóta og skilningur BJ eða skilningur minn. En skilningur hans nú á dögum á því hvernig skuli starfa að því að kanna og leysa vanda sjávarútvegsins virðist vera orðinn þó nokkuð annar ef skoðaðar eru þær hugmyndir hans að setja á laggirnar nefnd þar sem starfi saman annars vegar fulltrúar þingnefnda og hins vegar fulltrúar framkvæmdavalds og úr atvinnulífi. Því að þar er náttúrlega verið að rugla saman reytum framkvæmdavalds, atvinnulífs og löggjafarvalds með eins rækilegum hætti og hægt er að hugsa sér.

Sú þingnefnd sem hv. þm. Alþb. leggja til að mynduð verði er að mínu mati fullkomlega eðlileg. Hennar hlutverk er að leggja fram gögn og tillögur og að því loknu takist menn hér á Alþingi á um lausnir. Ég er ekkert viss um að hugmyndir mínar um lausnir fari saman við hugmyndir hv. 3. þm. Reykv. eða annarra, en þykir þó nauðsynlegt að lýsa því hér að ég styð þessa till. Auðvitað er það skiljanlegt að hv. 3. þm. Reykv. verði þessi misskilningur á því að í alræði öreiganna er náttúrlega ekki gert ráð fyrir þeim aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds sem BJ hefur verið að reyna að berjast fyrir.

Menn hafa talað hér mjög mikið um ábyrgð og nauðsyn afskipta ríkisvalds af þeim vanda sem nú er hér fyrir dyrum og nefnt til ýmis dæmi þar sem vandanum er lýst. Nú er það auðvitað þannig að ábyrgðin af þessum vanda getur aldrei endanlega eingöngu hvílt á ríkisvaldinu. Hún hlýtur að einhverju leyti að dreifast á alla þátttakendur þessa vandamáls. Flokkarnir hafa á undanförnum árum og áratugum kappkostað að tengja eða flækja saman sína hagsmuni og hagsmuni þessarar atvinnugreinar, einkum og sér í lagi vegna þess að þetta er svo mikilvæg atvinnugrein í okkar þjóðlífi. En afskipti þeirra af þessari atvinnugrein hafa. ef þróunin er skoðuð. leitt til þess glundroða og ömurlega ástands sem við búum við nú.

Við getum þó ekki hafnað því algjörlega að þeir einstaklingar eða félög sem að þessari starfsemi standa beri sjálf að einhverju leyti ábyrgð á því hvernig ástandið er orðið. Auðvitað hafa hin síauknu afskipti flokka og ríkisvalds gert þessa aðila hægt og sígandi nánast ábyrgðarlausa á sinni eigin afkomu. Samt sem áður er ekki hægt að bera á borð fyrir okkur dæmi eins og hv. 4. þm. Norðurl, e. nefndi hér áðan um lántökur í amerískum dollurum og beinlínis horfa fram hjá því að þeir einstaklingar sem að slíkri lántöku standa hefðu ekkert getað gert á þessum tíma til þess að bæta þar um. Ríkisvaldið hefði auðvitað getað gert eitthvað. t.d. að skrá gengið rétt. Ef gengið væri skráð núna rétt væri staða þessara aðila ekki eins slæm og hún er í dag. En þeir eiga þess náttúrlega kost, ef áhugi er fyrir hendi og framtak, að breyta svona láni. Lánamarkaður er þannig í dag að hægt er að færa lán frá einum aðila yfir til annars og bæta þar að sumu leyti kjör sín. Eins er það með flutningskostnað sem nefndur var hér og talað um að ríkisvaldið eigi að hlutast til um að bæta úr eða breyta. Auðvitað eiga útgerðaraðilar kost á því að semja við þá aðila sem flytja framleiðslu þeirra til útlanda. Það sýnir sig glöggt núna, þegar allt í einu, eftir áratuga hefð með öðru móti, er farið að bjóða út þennan flutning. Sama gildir náttúrlega um aðra kostnaðarliði, eins og umbúðakostnað o.fl. Og við vitum líka að ef gengið væri skráð rétt ættu fyrirtækin a.m.k. þau sem sæmilega standa, auðveldara með að þola þær launahækkanir sem þau eiga í vændum.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um félagslega leið til úrbóta eftir að hafa lýst leið fjármagnsins, eins og hann kallaði það. En félagslega leiðin fólst reyndar í því að safna fjármagni til þess að greiða götu þeirra sem verst eru staddir í útgerð og fiskvinnslu í dag, til að tryggja, eins og hann sagði, afkomu sjávarútvegs á þeim stöðum þar sem hann stendur illa.

Það má kannske að lokum spyrja með tilliti til hugsanlegra afskipta ríkisvalds af þessum málum eða öðrum, hvort ekki kæmi til greina að nota þá fjármuni sem þannig söfnuðust til að skapa aðra og þá e.t.v. tryggari atvinnu á þeim stöðum sem verst eru farnir í dag.