20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5407 í B-deild Alþingistíðinda. (4672)

493. mál, sparisjóðir

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. sem hér hafa talað undirtektir þeirra við það frv. sem hér er lagt fram. Það er rétt, sem ég vakti athygli á í minni frumræðu og hér hafa hv. þm. bent á, að undirbúningsvinna að þessu frv. er æðimikil og ég held vönduð. Það kemur fram mjög ítarleg saga þessara stofnana og er gerð grein fyrir því hversu þýðingarmiklar þessar stofnanir hafa verið fyrir þjóðfélagsþegnana.

Hv. 3. þm. Reykv. spurðist fyrir um frv. til l. um Seðlabanka Íslands. Ég get svarað því til að ég á von á því að það ætti að geta legið fyrir þingi strax að lokinni hvítasunnu.

Hv. 5. þm. Vestf. vék að ákvæðum í 4. gr. frv. þar sem um er að ræða umsagnaraðila. Ég vek athygli á því að hér er aðeins um að ræða umsagnaraðila, ekki aðila sem taka ákvörðun. Í fyrsta lagi er bankaeftirlitið starfandi og er deild í Seðlabanka Íslands og á meðan því er ekki breytt sýnist mér ekki óeðlilegt að leitað sé umsagnar þess áður en ráðh. tekur ákvörðun. Ég held að það sé ekki nema til góðs að þeir aðilar, sem eiga síðar að hafa eftirlit með stofnun, fái tækifæri á því að meta það, þegar leitað er eftir samþykki til stofnunar sparisjóðs, hvernig að hlutunum er staðið og ráðh. fái um það vitneskju. Það sé svo ráðh. að taka ákvörðun um það, þegar umsögn hefur borist, hvort hann tekur tillit til ábendinga ef ábendingar koma um einhverjar breytingar varðandi stofnun sparisjóðs.

Það er sama að segja um Tryggingarsjóð sparisjóða. Eins og gert er ráð fyrir honum í þessu frv. er um að ræða stofnun sem ætlað er það hlutverk að tryggja innistæður sparifjáreigenda og aðstoða, ef til þess þyrfti að koma, sparisjóði varðandi það. Mér sýnist ekki úr vegi heldur að þessi stofnun fái tækifæri til þess að segja skoðanir sínar og koma þá fram með tillögur til úrbóta ef í einhverju þykir ábótavant við stofnun eða aðdraganda að stofnun eins sparisjóðs.

Að fá heimild til að stofna sparisjóð. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að það sé á einum og sama stað fylgst með því. Ég á ekki von á, ef öll skilyrði eru fyrir hendi, að nokkur ráðh. komi til með að neita um heimild til stofnunar sparisjóðs, en mér finnst ekki óeðlilegt að leitað sé samþykkis ráðuneytis. Þannig hefur það verið og með þeim hætti er eðlilegt og best að hafa eftirlit með að farið sé að þeim lögum sem um sparisjóðina gilda.

Hv. 5. þm. Vestf. vék að ákvæði í 6. gr. þar sem sett er fram ákvæði um lágmarksfjárhæð — 3 millj. kr. — sem stofnfé. Hins vegar er gerð sú aths. að hér er hægt að víkja frá bæði til lækkunar og til hækkunar. Taldi hv. þm. að eðlilegast væri að um fasta og eina ákveðna upphæð væri að ræða. Ég held að það sem hv. 1. þm. Vestf. vék að áðan í ræðu sinni varðandi þetta sé hugmynd sem sjálfsagt væri að móta úr till. og koma inn í frv. í meðferð þingsins. Allar góðar ábendingar eru vel þegnar. Ég tel að það sé einmitt hlutverk nefnda þingsins að taka tölur til meðferðar og lagfæra því að ekki er óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á því hversu ákveðnar tölur eigi að vera þegar um slíkt er að ræða.

Hv. 5. þm. Vestf. spurðist fyrir um hversu margir sparisjóðir gætu fullnægt þessu ákvæði um eiginfjárstöðu. Ég hef það ekki á takteinum, en mun að sjálfsögðu láta fjh.- og viðskn. fá þær upplýsingar og gera þá grein fyrir því við 2. umr. málsins. En mér finnst eðlilegt að það ákvæði sem um er að ræða í 71. gr. sé sett til þess að tryggt sé að allar þessar stofnanir, allir sparisjóðirnir tryggi eiginfjárstöðu sína nákvæmlega og með sama hætti og gert er ráð fyrir í frv. um viðskiptabankana.

Þegar þetta frv. er skoðað vil ég taka undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði. Hér er um að ræða frv. sem á að efla sparisjóðina, styrkja stöðu þeirra fyrir fólkið í landinu.