20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5415 í B-deild Alþingistíðinda. (4677)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði hvers vegna frv. væri þetta seint fram komið. Ég vil upplýsa að í viðræðum við ASÍ hefur verið fjallað um ýmis önnur atriði efnahags- og launamála og allt fram á síðustu stundu hefur m. a. verið rætt um hugsanlega breytingu á grundvelli lánskjaravísitölu. Niðurstaðan varð sú að ekki var talið rétt eða fært að ljúka þeim umræðum nú og því er þetta frv. lagt fram í þeirri einföldu mynd sem það er í hér.

Auk þess var mér ljóst að þetta frv. mundi ekki mæta umtalsverðri andstöðu hér á hinu háa Alþingi, eins og reyndar hefur komið fram.

Af því að ég stend hér vil ég leiðrétta það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég sagði aldrei að það hefðu verið mistök við myndun þessarar ríkisstj. að leiðrétta ekki misgengi. Ég tel að það hafi verið mistök að gera ekki ráðstafanir til þess þegar það hófst um mitt árið 1982. Um það bil helmingur og jafnvel rúmlega það var komið fram þegar þessi ríkisstjórn var mynduð.