20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5422 í B-deild Alþingistíðinda. (4680)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þeir sem talað hafa á undan mér hafa lagt áherslu á að þeir vilji greiða fyrir þessu máli og Kvennalistinn hefur ekki uppi nein áform um að tefja það þótt okkur væri sannarlega að meinalausu þótt 1. júní rynni upp án þess að til lagasetningar kæmi varðandi þessi mál. En sé svo í raun og veru að valið hafi staðið á milli þess að framlengja bannið við verðtryggingu launa eða þeirrar leiðar sem farin er með þessu frv., þá er hér vitanlega um betri kostinn að ræða.

Lögin sem sett voru vorið 1983 um bann við verðtryggingu launa voru stórslys, eins og viðurkennt hefur verið, fyrst og fremst þar sem engar þær hliðarráðstafanir voru gerðar sem komið gátu í veg fyrir eða a. m. k. dregið úr því neyðarástandi sem skapast hefur á fjölmörgum heimilum. Ég legg áherslu á að þar er ekki aðeins um húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur að ræða. Það hefur vitaskuld ekki aðeins orðið misgengi milli kauptaxta og lánakjara. Framfærslan hefur þyngst langt umfram það sem almennt launafólk þolir. Þessi stefna stjórnvalda. að halda niðri kauptöxtum, hefur valdið því að launabil hefur aukist alveg gríðarlega í landinu, ekki bara vegna launaskriðs á almennum vinnumarkaði, eins og sumir vilja vera láta, heldur líka hjá ríkinu. Ég hef það fyrir satt að færst hafi í vöxt óunnin yfirvinna hjá opinberum stofnunum. Það er talað um allt upp í 20–50 tíma óunna yfirvinnu. Þetta eru m. a. afleiðingarnar af þessari stefnu.

Í rauninni er viðurkennt að launin eru almennt allt of lág. Taxtar eru ekki í neinu samræmi við þörf og tilkostnað við venjulegt heimilishald. Þeir sem betri aðstöðu hafa hafa getað þrýst upp sínum launum á ýmsan máta og viðhaldið eða jafnvel aukið kaupgetu meðan flest láglaunafólk situr eftir og gengur verr að lifa af launum sínum. Þannig hafa hinir sterkari tekið til sín stærri bita af kökunni frægu og haldið uppi innflutningi og þenslu. Þess vegna m. a.. hv. 1. þm. Suðurl., er viðskiptahallinn við útlönd slíkt vandamál sem hann er nú. Það gleymdist nefnilega að banna allt annað en hækkun kauptaxta skv. vísitölu. Það var enginn áhugi á því að halda niðri verðlaginu.

Þessi stefna hefur m. a. leitt berlega í ljós aðstöðumun kynjanna á vinnumarkaðnum. Það eru láglaunahóparnir, þar sem konurnar eru í meiri hluta, sem sitja eftir. Kvennalistinn hefur engin áform uppi um að standa í vegi fyrir að þetta frv. nái fram að ganga, en ég legg áherslu á að um það verði fjallað rækilega í n. þrátt fyrir skamman tíma og leitað umsagna allra sem málið snertir.