20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5423 í B-deild Alþingistíðinda. (4681)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aths. mínar við frv. sem hér liggur fyrir eru að nokkru leyti tæknilegs eðlis og ég mun gera þær aths. í spurnarformi því það virðist vera háttur ríkisstjórna að öll lög um efnahagsmál séu svo tætingsleg að það er ákaflega erfitt að henda reiður á hvort samræmi sé í hinum ýmsu lögum.

Það þarf ekki að segja það hér einu sinni enn að efnislega er þetta ákaflega undarlegt frv. Það er ljóst að mikill urgur hefur verið í landsmönnum þegar þeir hafa horft til þess að bannið við verðbótum á laun yrði framlengt og ríkisstj. hefur eflaust orðið vör við það. En hún þorir ekki að aflétta því banni og hreinlega setja verðbætur á laun að nýju, heldur vísar því máli til aðila vinnumarkaðarins. Það fer varla fram hjá neinum að það hlýtur að vera í trausti þess að þar sé séð um að sú vá sé ekki fyrir dyrum að laun landsmanna hækki.

Ég verð hins vegar að lýsa því yfir að ég treysti ekki aðilum vinnumarkaðarins fyrir því að semja um þessi mál. Maður gæti þá a. m. k. spurt jafnframt: Hvers vegna er ekki aðilum vinnumarkaðarins falið að taka líka að sér VII. kafla laga nr. 13 frá 1979, sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár? Þá væri orðin einhver merking í þessu öllu saman. Þá er því hreinlega vísað til aðila vinnumarkaðarins að stjórna landinu. Þá þurfum við hér á hinu háa Alþingi ekki að vera að hafa frekari áhyggjur af því.

Auðvitað er gert ráð fyrir að það ástand haldi áfram, sem viðgengist hefur, að launin séu í sífellu skert og haldið verðbótalausum, en skuldir landsmanna við að koma yfir sig þaki aukast í sífellu.

En það var raunar ekki aðeins vegna þessa sem ég kom hér í ræðustól, heldur langar mig að spyrja — og þar verð ég að játa að kemur hreinlega til fáfræði mín — um eitt atriði: Ég vænti þess að öllum hv. þm. sé ljóst hvað það þýðir að heill kafli fellur úr lögum nr. 13 frá 1979 og þar með ýmis ákvæði sem eru í öðrum lögum sem ekkert segir frá í aths. um þetta frv. Þar á ég við, herra forseti, ákvæði í lögum um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu nr. 10 frá 1981. Ég vil leyfa mér að lesa 5. gr. þeirra laga og vil biðja hv. félaga mína og þm. að virða það við mig ef ég er að gera mig að kjána, en það er betra að vita en vita ekki. Í 5. gr. laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu frá 1981 nr. 10 segir svo, með leyfi forseta:

„1. mars til 31. maí 1981 skal greiða verðbætur á laun eins og þau eru í ársbyrjun í hlutfalli við breytingu vísitölu framfærslukostnaðar frá grunntölu hennar í janúarbyrjun til febrúarbyrjunar 1981. Þó skulu verðbætur á laun 1. mars 1981 ekki vera meira en 7% lægri en orðið hefði skv. ákvæðum laga nr. 13 1979.“

Nú kann að vera að þessi lög séu hreinlega úr gildi fallin, en þó hef ég ástæðu til að halda að svo sé ekki þar sem þau eru í lagasafni sem út er gefið 1983. En þetta er satt að segja ákaflega þvælingslegt. E. t. v. er einfaldast fyrir mig að spyrja: Hafa lög um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu nr. 10 frá 1981 einhver áhrif varðandi þetta frv. eða engin? Ég hreinlega veit þetta ekki.

Ég vil líka spyrja um lög um efnahagsgerðir nr. 2 frá 1983. Okkur hefur gefist lítill tími til að kanna þetta þannig að ég átta mig ekki á hvers vegna ekki er í grg., til að létta þm. þennan róður, reynt að skýra á einhvern hátt hvaða lög eru í gildi um þessi mál. Það er satt að segja, með þeirri aðstoð sem hægt er að fá hér á hinu háa Alþingi, hreint enginn leikur að finna sér fótfestu í þessum frumskógi laga um efnahagsmál. En það eru sérstaklega lögin frá 1981 sem ég skil ekki af hverju eru þá ekki felld úr gildi ef þau hafa ekki neina þýðingu lengur.

Um verðbótavísitölu, og ég vil benda á það líka, verða engin lög til, verði þetta nýja frv. að lögum, því að ég veit ekki til þess að um hana sé neitt að finna í lagasafni. A. m. k. fann ég það ekki í öðrum lögum. Eftir að þetta frv. yrði samþykkt þykir mér þessi mál því vægast sagt öll í lausu lofti, eða þau eru það fyrir mér.

Ég vænti þess að það geti kannske einhver hv. þm. leitt mig í sannleikann um þetta því að ég verð að segja það alveg eins og er að mér gengur ekki vel að átta mig á hvort það að fella niður allan VIII. kafla laga nr. 13 frá 1979 hefur ekki víðtækari áhrif en að fela aðilum vinnumarkaðarins að semja um verðbætur á laun. Nú er sá ráðh. sem mælti fyrir frv. víðs fjarri svo að ég veit ekki hver ætti að svara. Ég mundi þó beina máli mínu til hv. 1. þm. Suðurl. og formanns Sjálfstfl. ef hann gæti leitt mig í sannleikann um þetta. Ég held að það sé hér eina leiðin til að fá að glöggva mig eitthvað á því sem hér liggur frammi áður en ég get tekið til þess afstöðu þó að mér sé ljós hinn efnislegi tilgangur frv.