20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5426 í B-deild Alþingistíðinda. (4684)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv., sem reyndar er ekki mættur til leiks, beindi fsp. til mín í ræðu sinni. Hann vildi fá að vita hvort 5. þm. Reykv. og flokkur sá sem hann er formaður fyrir væri andvígur vísitölubindingu launa. Að vísu tók hann af mér ómakið með því að svara því sjálfur hvað hann gæti hugsað sér að kæmi í staðinn fyrir gamla vísitölukerfið og fyrir utan það að vísa honum til fyrri ræðu minnar, þar sem ég svaraði þessari fsp., og til hans eigin ræðu ætti það að vera nóg.

Ástæða er til að vekja athygli á því að nýlokið er á þessum degi formannaráðstefnu Alþýðusambands Íslands og reyndar Verkamannasambands Íslands. Verkamannasamband Íslands komst ekki að niðurstöðu, en á nýloknum fundi Alþýðusambands Íslands var rætt um kjaramál og um hugmyndir um kaupmáttartryggingar. Sem kunnugt er og hefur verið upplýst í fjölmiðlum var ekki talsamband milli forseta Alþýðusambandsins og formanns Alþb., 3. þm. Reykv. Þess vegna voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að koma á stjórnmálasambandi milli þessara aðila og þ. á m. að stinga upp í flokksmálgagnið Þjóðviljann. Ekki kann ég nákvæmlega að greina frá þeim viðræðum, en ljóst er að á þessari formannaráðstefnu Alþýðusambandsins var að tillögu forseta Alþýðusambandsins engin krafa gerð um endurreisn gamla vísitölukerfisins. Reyndar var ekki sett fram krafa um neitt vísitölukerfi.

Þar var hins vegar beint ákveðnum óskum til hæstv. ríkisstj. Þær óskir snerust um að ríkisstj. reyndi að standa í stykkinu varðandi stöðugleika á gengi, ríkisstj. reyndi að standa í stykkinu að því er varðaði að koma í veg fyrir væntanlega 15–20% hækkun búvöruverðs. Þar voru gerðar kröfur um að ríkisstj. ábyrgðist fyrir sitt leyti að ekki yrði um að ræða hækkun á verðlagi á opinberri þjónustu fyrir tilstuðlan ríkisstj. og annað í þeim dúr. M. ö. o.: kröfunum var beint að gengisstjórn ríkisstj., stjórnun á verðlagi búvöruverðs, opinberrar þjónustu og öðru slíku. Engin krafa sett fram um sjálfvirkt vísitölukerfi. M. ö. o.: verkalýðshreyfingin sjálf, þegar hún lítur til baka, er búin að læra þá lexíu að gamla vísitölukerfið, sem gilti hér í 43 ár og allar ríkisstjórnir á lýðveldistímanum og reyndar lengur, frá 1939, hafa skipt sér af öll árin nema þrjú, hafði gengið sér til húðar og það rækilega. Enginn þekkir þessa lexíu betur en hv. 3. þm. Reykv. sem eyddi ráðherraárum sínum í að glíma vonlausri baráttu við þann draug, auðvitað með engum árangri.

Það vakti sérstaka athygli mína í ræðustúf hv. 1. þm. Suðurl. þegar hann komst að orði á þá leið, sem ég hygg að hafi verið réttilega sagt hjá honum, að stefna núv. ríkisstj. væri raunar rökrétt og beint framhald af stefnu fyrrv. ríkisstj., ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, og væri þar bitamunur en ekki fjár. Um þetta er ég alveg nákvæmlega sammála hv. 1. þm. Suðurl. Ég hef tekið eftir því að þá sjaldan hv. 1. þm. Suðurl. tekur til máls vekur hann athygli á því að hæstv. ríkisstj. hefur ekki náð árangri, að undirrót verðbólgutilhneigingar grassérar enn og þá aðallega vegna þess að hæstv. ríkisstj. með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar hefur ekki náð tökum á efnahagsstjórn. Hv. 1. þm. Suðurl. nefndi þar sem dæmi áframhaldandi dúndrandi viðskiptahalla, linnulaust innstreymi erlends lánsfjár sem staðfest er með lánsfjárlögum ríkisstj. og fjmrh. og hefði gjarnan mátt bæta við þriðja þættinum sem er viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs og hins opinbera geira.

Undirrót verðbólguþróunarinnar er náttúrlega þarna. Þarna er kyndirýmið. Verðbólgan er m. ö. o. ríkisfjármögnuð og fyrir því stendur hæstv. ríkisstj. Val verkalýðshreyfingarinnar við þessi skilyrði er náttúrlega æði takmarkað. Í fyrsta lagi er það takmarkað sem kemur upp á samningaborð um kaup og kjör því að verkalýðshreyfingin semur aðeins um lágmarkstaxta fyrir að vísu fjölmenna hópa starfsfólks, aðallega í þeim atvinnugreinum sem búa við skarðan hlut af hálfu ríkisstj., útflutningsgreinarnar, fiskiðnaðurinn. Af því að ég hef hér fyrir framan mig hv. 1. þm. Vestf. er ástæða til að rifja upp að nýlega var birt blaðaviðtal við einn ágætasta framkvæmdastjóra fiskverkunarhúss vestur á Ísafirði, sem heitir Norðurtanginn hf., þar sem hann vakti athygli á því að það vantaði til starfa í fiskiðju 1000–1500 manns. Fram hefur komið, einnig ættað að vestan, að ef unnt væri að halda uppi fullþjálfuðu starfsfólki í frystiiðnaðinum okkar að sumarlagi og sjá til þess að gæði framleiðslunnar yrðu ekki lakari á sumarmánuðum en ella þannig að menn næðu verðmætustu pakkningum, þá mætti hugsanlega auka verðmætasköpun um hvorki meira né minna en 1000 millj.

Hér hefur verið rætt um launamun innanlands. Það er ekki síður athyglisvert að ræða um hlut fiskvinnslufólks okkar í samanburði við starfsfélaga þess í nálægum löndum. Kona í fiskiðjuveri í Færeyjum hefur í laun á vinnustund 254 kr. íslenskar á réttu gengi. Ef saman væri tekið tímakaup og kaupaukakerfi, sem mestu geta skilað, væru samsvarandi laun á Íslandi um 120 kr. á tímann. Samanburðurinn verður enn óhagstæðari ef við leitum ögn fjær, þ. e. til Noregs eða Danmerkur. Það vefst mikið fyrir fiskvinnslufólki hvernig á því stendur að Færeyingar geta borgað þessi laun, en selja engu að síður í gegnum íslensk sölusamtök á hagstæðasta markaðinum, Bandaríkjamarkaði, og fá þar sannanlega ekki hærra verð en við. Engu að síður getur þessi atvinnugrein staðið undir tvisvar sinnum hærri launum í Færeyjum en hér.

Spurningin er: Hvað kemur þetta við vísitölukerfi? Það er út af fyrir sig alveg laukrétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að vísitölukerfið sem slíkt skapar engin verðmæti og tryggir enga verðmætasköpun. Það sem er að í íslensku efnahagslífi, sem er ótal margt, stendur auðvitað mest upp á hæstv. ríkisstj. sjálfa. Hún hefur ekki tryggt útflutningsgreinum okkar rekstrargrundvöll. Hún hefur ekki lagt í, og það er ein helsta veilan í hennar starfi, að leysa þann hrikalega skuldavanda sem hún tók við í sjávarútveginum. Hún hefur ekki skapað þær forsendur sem þarf til þess að þessi þýðingarmikli útflutningsatvinnuvegur geti greitt hærri laun og er sjálf þannig völd að því að sú leið sem helst er fær til að auka verðmæti íslenskrar þjóðarframleiðslu er ófær. Ríkisstj. kyndir elda verðbólgunnar með stefnuleysi sínu í ríkisfjármálum og með því að hún hefur engin tök á því að hemja innstreymi erlends lánsfjár, hún hefur ekki tök á gengisskráningu og hún hefur ekki tök á viðskiptahalla. Þetta hefur leitt til þess, eins og hv. 1. þm. Suðurl. viðurkenndi, að á sama tíma og framleiðsluatvinnuvegirnir búa við skarðan hlut og kaupgreiðslugeta þeirra skv. opinberum tölum er lítil og takmörkuð, fólk leitar í stórum stíl frá þeim atvinnugreinum, þá búa aðrar atvinnugreinar á Íslandi við mun betri hag, njóta þessarar gengisskráningar, græða á viðskiptahallanum. Það eru auðvitað innflutningsverslun og þjónusta og aðrir slíkir. Þetta endurspeglast í launakerfinu. Markaðslaun hjá einkageiranum valda því að það er ekki girnilegur kostur að vinna í framleiðslugreinunum. Launin sem bjóðast eru miklu betri annars staðar. En þó er kannske meginmunurinn sá, að á sama tíma og það fólk, sem hefur orðið að bera uppi afleiðingarnar af óstjórn ríkisstj. í skertum launum, hefur gert það með því að fórna verulega kaupmætti sinna launa, þá hefur einkaneysla og afkoma fólks í öðrum greinum sætt allt öðrum lögmálum. Af þessu hefur leitt verulegt þjóðfélagslegt óréttlæti sem er frumorsökin fyrir því að ríkisstj. nær ekki árangri. Haldi hún áfram á sömu braut endar allt hjá henni í sprengingu og við því verður ekkert gert.

Nú er ekki við verkalýðshreyfinguna að sakast, a. m. k. ekki við þær tillögur sem lagðar hafa verið fram á vegum Alþýðusambandsins. Þar er sanngirnin slík að það eru engar kröfur settar fram um sjálfvirkt vísitölukerfi. Það er einungis verið að fara fram á að ríkisstj. hafi fyrir sitt leyti einhver tök á því sem undir hana heyrir beint. Að vísu var þarna líka samþykkt tillaga sem kennd hefur verið við hin rauðu strik, þ. e. ef sýnt er að forsendur verðlagsþróunar breytast mjög frá því sem ríkjandi er þegar samningar eru gerðir verði beitt því aðhaldi á ríkisstj. að þessar verðhækkanir verði bættar ef það kemur á daginn að ríkisstj. nær ekki tökum á því sem ég taldi upp áðan, þ. e. í stórum dráttum verðlags- og verðbólguþróun.

M. ö. o.: Ríkisstj. hefur undan engu að kvarta að því er varðar samskipti sín við aðila vinnumarkaðarins og árangursleysi hennar verður beint rakið til hennar sjálfrar. Það endurspeglast fyrst og síðast í því að hún hefur krafið hluta þjóðfélagsþegnanna, hluta atvinnulífsins um þungbærar fórnir, en hún hefur engin tök á öðru. Þetta stafar m. a. af blindu hæstv. ráðamanna. Ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú hversu fjarlægir þeir eru orðnir lifandi lífi í landinu. Þeir virðast hugsa eins og embættismenn frekar en stjórnmálamenn og ganga út frá því sem gefnu að þau kerfi sem þeir eru að vasast í séu í lagi. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að skattakerfið á Íslandi er svo himinhrópandi ranglátt og óskilvirkt að það nær ekki nokkurri átt, að afkoma fólks fer ekki eftir einhverjum tölum á blaði úr hinu opinbera hagkerfi. Afkoma manna er fyrst og fremst tengd aðstöðu manna til að fá „prívat“ kaupaukningu á vinnumarkaðinum, þ. e. í formi launaskriðs sem menn kalla, markaðslauna eða í formi aðstöðu til að halda eftir stærri hlut af sínum launum vegna skattundandráttar og skattsvika.

Sama máli gegnir með húsnæðislánakerfið sem á að vera annað helsta tekjujöfnunar- og öryggiskerfi þjóðfélagsins. Það er að niðurlotum komið og sannanlega fengu ríkisstjórnarflokkarnir ærna aðstoð frá hv. 3. þm. Reykv. og flokki hans á upplausnarárunum 1980–1983 til að leggja það í rúst. Um það þarf ekki að deila. Lífeyrisréttindakerfið er himinhrópandi flókið og ranglátt að því leyti að fólk situr þar ekki við sama borð. Launakerfið sem slíkt er þar með líka orðið ónothæft tæki til að hafa áhrif á það að draga úr launamun. Með þessi ónýru stjórntæki nær ríkisstj. engum árangri. Miðað við það skilningsleysi sem ríkjandi er á þeim hrikalega efnahagslega aðstöðumun þjóðfélagsþegnanna sem þetta leiðir af sér mun hún ekki heldur ná árangri.

Af því að ég tek eftir því að hv. 3. þm. Reykv. er kominn í salinn vil ég árétta það sem ég hef sagt. Hann spurði um afstöðu Alþfl. til vísitölukerfis. Í ræðu minni áðan var ég að rifja upp með ótal dæmum þær afskræmilegu afleiðingar sem gamla vísitölukerfið hafði. Hv. 3. þm. Reykv. svaraði því í engu og gerði engar athugasemdir við það. Ég tek það sem þögn og samþykki við dapurlegri reynslu hans á ráðherraárum hans af að glíma við þann draug. En þá er ástæða til að vekja athygli hans á því að viðhorf Alþfl. eru ákaflega svipuð og fram komu á vegum verkalýðshreyfingarinnar nú á þessum dögum um að menn vilja ekki taka upp gamla vísitölukerfið. Spurt er um kaupmáttartryggingar. Það eru til, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði sjálfur, ýmsar aðrar leiðir, bæði að semja til skamms tíma við ríkisstj., sem menn ekki treysta, með ákvæðum um endurskoðun ef verðlagsforsendur breytast eða að semja með sjálfvirkum ákvæðum um rauð strik, þ. e. kauphækkun til að bæta upp verðhækkanir sem verða á samningstímanum. Allar hafa þessar leiðir verið reyndar í öðrum löndum og allar eru þessar leiðir betri en gamla vísitölukerfið.

Hitt er svo annað mál að það er ástæða til að spyrja: Hverjar væru mestu kjarabætur sem hægt væri að tryggja fólki sem nú býr við smánarlaun á Íslandi fyrir utan það sem gerist við samningaborðið? Ég er ekki í nokkrum vafa um hvað það er. Það er í fyrsta lagi að verja verulegum fjármunum á fjárlögum til að endurreisa húsnæðislánakerfið, ganga greiðlega til móts við þá húsbyggjendur sem nú eiga eignir sínar á uppboðum og tryggja næga fjármuni til að gerbreyta útlánastefnu húsnæðislánakerfisins þannig að þetta þýðingarmikla tryggingar- og tekjujöfnunarkerfi geti gegnt sínu hlutverki. Þetta væri vafalaust stærsta kjarabótin sem unnt væri að færa ungu kynslóðinni í landinu, kjarabót án verðbólgu og kjarabót í ósvikinni mynt.

Það er ástæða til að bæta einu við. Sérstaklega væri þetta tekjujafnandi aðgerð ef þeirra fjármuna, sem væri leitað í þessu skyni, væri fyrst og fremst leitað í verðbólgugróða neðanjarðarhagkerfisins eins og tillögur liggja fyrir um.

Hin kjarabótin væri vafalaust sú að létta skattbyrði launþeganna. Staðreyndin er sú að það fólk sem þiggur fyrir sitt vinnuframlag lúsarlaun greiðir óhæfilega stóran hlut af þessum launum til að halda uppi samneyslunni í þjóðfélaginu á sama tíma og um það bil þriðjungur þjóðfélagsins sleppur nokkurn veginn eða hefur sjálfdæmi um sinn hlut.

Þetta hvort tveggja, átak í húsnæðismálum og það að létta skattbyrði launþega ásamt því að endurskipuleggja skattakerfið með það fyrir augum að þurrka út skattsvikin. væru vafalaust stærstu og varanlegustu kjarabæturnar sem hægt væri að færa fólki. Það sem hægt er að gera við samningaborðið er takmarkað, en það á fyrst og fremst að byggjast á því að draga úr þeim óhæfilega launamun sem orðinn er í þjóðfélaginu. þ. e. einbeita á kröftunum að því að hækka laun þeirra sem sannanlega geta nú ekki framfleytt fjölskyldum af þeirri hungurlús sem þarna er um að ræða. Til þess að gera þetta er nauðsynlegt að breyta mjög skilyrðum framleiðslugreinanna á Íslandi. ekki hvað síst í sjávarútvegi. Um það liggja fyrir ótal tillögur og um margt af því getum við hv. 3. þm. Reykv. verið sammála. En karpið um gamla vísitölukerfið er liðin tíð og það karp þurfum við ekki að hefja á nýjan leik.