20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5435 í B-deild Alþingistíðinda. (4688)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður flutti skörulega ræðu hér áðan og talaði m. a. um að fólk þyrði ekki enn að ávaxta sparifé sitt í bönkum þar sem það óttaðist að misvitrir stjórnmálamenn kæmu með krumlu sína og slæmdu henni í þetta fé. Það fólk treysti fremur á ávöxtun fjár síns í steypu ef ég skildi hann rétt. Hv. þm. hefur kannske ekki fylgst með umræðum um vanda húsnæðiskaupenda að undanförnu sem treystu sannarlega loforðum stjórnvalda og eru þess vegna núna að drukkna í skuldafeni. Krumlan seilist víða til og hverjir stjórnuðu þeirri krumlu, sem hækkaði vextina og tók kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi, þannig að kaupið fylgdi ekki eftir lánskjaravísitölunni?

Hv. þm. Halldór Blöndal og Þorsteinn Pálsson hafa báðir andmælt fullyrðingu minni um aukningu launabils í landinu. Ég er nú ekkert tilbúin að snúa aftur með það þótt ég veifi hér ekki neinum töflum og útreikningum. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því að þegar ég tala um aukið launabil, þá á ég auðvitað alls ekki við að það hafi gerst í launatöxtum, en eins og hv. þm. vita er í mörgum tilvikum um reginmun að ræða á launatöxtum og launagreiðslum. Ég held að þeir sem eitthvað hafa fylgst með þróuninni undanfarna mánuði viti fullvel að launabil hefur aukist með yfirborgunum og launaaukum í ýmsu formi, sem þeir hafa einmitt náð fram sem höfðu betri aðstöðu til að ná slíku fram. Ég nefndi t. d. hér áðan að það færðist í vöxt að opinberir starfsmenn fengju greitt fyrir allt að 20–50 stunda óunna yfirvinnu. Það undrar náttúrlega engan þótt eitthvað verði að gera til að halda í opinbera starfsmenn, en það má líka ljóst vera að kerfið virðist misjafnlega sveigjanlegt í þessum efnum. Það er t. d. áreiðanlega ekki algengt að skrifstofustúlkur, hjúkrunarfræðingar, almennir kennarar, fóstrur eða aðrir fulltrúar dæmigerðra kvennastétta sæki slíka kjarabót í greipar kerfisins, þrátt fyrir skort starfsfólks í þessum greinum. Og við vitum öll hvað hefur gerst á almennum vinnumarkaði, a. m. k. á höfuðborgarsvæðinu.

En mig undrar sannarlega að menn skuli andmæla fullyrðingu minni um aukið launabil og snúa í raun og veru út úr máli mínu. Ég sagði náttúrlega aldrei að verðbólga væri launafólki til góðs, eins og skilja mátti af máli hv. þm: Halldórs Blöndal, og ég var ekki að tala um launataxta heldur launagreiðslur. Og ég endurtek að sú stefna ríkisstj. að halda launatöxtunum niðri hefur orðið til þess að auka launabil í landinu vegna þess að hinir sterkari hafa í krafti aðstöðu sinnar getað fengið kjör sín bætt meðan hinir hafa setið eftir á lágu töxtunum. Ég skil ekki hvernig hægt er að mótmæla þessu. Við sjáum dæmin allt í kringum okkur. Eða hvernig ætti þjóðin að hafa haft efni og aðstöðu til að eyða jafnmiklu og áður og lifa jafnhátt og áður, eyða í utanlandsferðir, veitingahúsasetur, myndbandstæki, laxveiðar o. s. frv.? Vilja menn virkilega halda því fram að byrðunum hafi verið dreift jafnt?