20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5447 í B-deild Alþingistíðinda. (4693)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Við kynntumst því í stjórnarsamstarfi með Alþb. að þeir vildu hafa verðtryggð laun og óverðtryggð lán og töldu að sú stefna gengi upp. Sem sagt, verðbólgan átti að vera kjarabót. Nú höfum við aftur á móti reynt það í stjórnarsamstarfi við sjálfstæðismenn að þeir vilja hafa óverðtryggð laun en verðtryggð lán. Þetta gengur heldur ekki upp.

Ég varpaði hér fram spurningu til hv. 1. þm. Vestf. og mat það rétt að hann mundi gera tilraun til að svara henni. Spurningin var ofur einföld. Hún var á þann veg að skv. upplýsingum um söluverð fasteigna í Reykjavík hefur verð á fasteignum á þessu svæði lækkað um 6% frá áramótum. Ég vakti athygli á því hverjir vextirnir væru með verðbótum í landinu og spurði: Ef við lítum á þessar fasteignir sem grundvöll að verðlagi í landinu, hverjir eru þá raunvextirnir? Skv. mínum skilningi eru þeir um 30%. Hv. 1. þm. Vestf. komst ekki að neinni niðurstöðu vegna þess að hann talaði um að duttlungar fasteignamarkaðarins gætu ekki ráðið. Fari það nú í hoppandi. Eru nú orðnir duttlungar í markaðinum líka? Er ekki hægt að treysta markaðinum og markaðshyggjunni? Dugar ekki markaðskenningin? Eru duttlungar í fasteignamarkaðinum sem koma í veg fyrir allt saman? Hvernig duttlungar? Það er ekkert skrýtið þó að maður verði hissa, eftir að hafa hlustað á þessar kenningar um markaðinn ef það kemur nú allt í einu í ljós að sá markaður sem við höfum nú fyrir augunum, fasteignamarkaðurinn, þar sem mjög margir aðilar standa að verðmynduninni, ekki einn eða tveir, hann er svo duttlungafullur að það er ekki hægt að nota hann. Ætli það sé betra að byggja verðtryggingu lánanna á barnafatamarkaðinum sem hv. 10. landsk. þm. var að tala um og ég gat ekki betur heyrt en henni fyndist hálfskrýtinn? En við erum að byggja þetta á barnafatamarkaðinum eins og við göngum frá þessu í dag. Fasteignamarkaðurinn er talinn ónothæfur, hann er svo duttlungafullur, og ákveðið að byggja á barnafatamarkaðinum eins og gert hefur verið.

Hv. 3. þm. Vestf. er nú í þeirri aðstöðu að maður hefur samvisku af að skamma hann þessa stundina og ber þar tvennt til. Í fyrsta lagi á hann óvenju erfitt með að komast hér í ræðustól og í annan stað vill maður ógjarnan hleypa honum upp þessa dagana. En hver skyldi nú vera guðfaðirinn að vísitölukenningunum öllum? Hver skyldi vera guðfaðirinn? Ætli það sé ekki sami hagfræðingurinn og kom flestum eignum Alþfl. til — ja, við skulum ekki nefna nein stór orð, flestum eignunum — (Gripið fram í: Fyrir ætternisstapa.) Svo tók rekstrarhagfræðingur við og skánaði ekkert eignastaðan enda þótt þeir hefðu fengið sérstaka fyrirgreiðslu frá Noregi skömmu áður.

Nei, við höfum um tvennt að velja. Annaðhvort byggjum við á gjaldmiðli í landinu eins og aðrar þjóðir gera eða við byggjum á vísitölukerfunum og fjölgum þeim um minnst eitt vísitölukerfi á ári. Það verður vísitölukerfi barnafatanna, vísitölukerfi fasteignamarkaðarins, sem er að vísu orðið duttlungafullt, það yrði erfitt að reikna það út. Og hv. 1. þm. Vestf. komst að því að þá yrði bara 6% rýrnun á hverju ári á sparifénu ef byggt yrði á duttlungum fasteignamarkaðarins. Ég verð nú að segja það að stundum finnst mér menn fara hér eins og kettir í kringum heitan graut. Hvaða eignir í landinu er hægt að miða við sem traustari grundvöll fyrir verðmæti sparifjár en fasteignamarkaðinn í Reykjavík? Ef kenning hv. 1. þm. Vestf. er rétt, að hann sé svona duttlungafullur, þá þýðir ekki að taka veð í nokkru húsi, það liggur alveg ljóst fyrir. Húsið heldur áfram að lækka um 6% á ári og lánið áfram að hækka samkvæmt vísitölukerfinu. Hvar gengur þetta upp? Nei, það verður að ætlast til þess að þeir sem hafa sungið hér um markaðinn fram og til baka, markaðshyggjuna sem leysi öll vandamál, taki ekki upp á því að fara að tala illa um fasteignamarkaðinn og segja að hann sé duttlungafullur, það sé ekki hægt að miða við hann þess vegna.

Mér sýnist að sú tilraunastarfsemi sem felst í því að ætla að viðhalda því vísitölukerfi sem Alþfl. er guðfaðir að og ákveðinn hagfræðingur, aðalsérfræðingur Alþfl. í efnahagsmálum um langt skeið, hafði mikið dálæti á, sú stefna að ætla að viðhalda þessu vísitölukerfi á sumum sviðum, taka það af á öðrum og fara í kringum það eins og heitan graut hvort menn ætli að hafa vísitölutryggð laun eða kauptryggingu á launum, hver er munurinn? Er þetta ekki bara spurning um hvaða formúlu á að nota? Er það spurning um nokkuð annað en hvaða formúlu á að nota, reikningsaðferð? Ætli Seðlabankinn verði fenginn til að reikna út nýju kauptryggingaraðferðina? Hv. 1. þm. Vestf. er fullkunnugt um það að vel rekin fyrirtæki vestur á fjörðum eru að sækja um lán til að breyta vanskilum í lengri lán. Hvers vegna? M. a. vegna vaxtabyrði. Hv. 1. þm. Vestf. sagði að peningarnir kæmu frá Wall Street. Þegar ég var staddur úti í Noregi nú í vetur sagði norskur þm. að þeir væru farnir að lána Reagan peninga, koma þeim fyrir í bönkum þar. Hvert stefnir í fjármálalífi Bandaríkjanna í dag, hvert stefnir? Það er búið að fara út í þá furðulegustu tilraunastarfsemi sem framkvæmd hefur verið í þessu ríka þjóðfélagi, að reka ríkissjóð með glórulausum halla. Hér ætlar allt vitlaust að verða ef hæstv. fjmrh. talar um erfiðleika og að það sé hugsandi að það geti orðið halli. Það ætlar allt vitlaust að verða í þessu þjóðfélagi, það finnst mörgum óábyrgt, en þar reka menn ríkissjóð með glórulausum halla. Hvert stefnir með sama áframhaldi? Verði haldið áfram að reka ríkissjóð Bandaríkjanna með sama halla þá komast Bandaríkin yfir í hóp þeirra landa sem skulda, að vísu í bandarískum dollurum, eigin fé, þannig að þeir geta út af fyrir sig haft áhrif á það með því að fella dollarann hve mikið þeir endurgreiða. Og hæstv. fjmrh. Íslands getur þess, sem rétt er, að þetta er hvorki að hans ráðum né á hans ábyrgð. En hvað er að gerast þarna fyrir vestan haf núna? Það eru demókratar sem eru farnir að samþykkja, eða ráða því réttara sagt, hvernig fjárlögin fara í gegn. Þeir eru farnir að hafa meiri hluta í þeim efnum vegna þess að hin stefnan er glórulaus ævintýramennska. En hvernig sem menn setja þetta dæmi upp þá er verðtrygging á sparifé á Íslandi meiri en í allri Vestur-Evrópu í dag.

Ég hygg að hv. 1. þm. Vestf. sé það umhugsunarefni að þeir kjarasamningar sem voru ógiltir og undirritaðir af formanni Sjálfstfl. voru ógiltir vegna þess að talið var að þeir væru svo vitlausir að ekki væri hægt að fara eftir þeim. Ég hygg að honum sé ljóst að sá hrunadans sem vísitölukerfið var búið að koma hér á gekk ekki upp. En engu að síður virðist núna vera haldið svo fast um þá spaða að halda uppi háum vöxtum í landinu að hættan við að hrunadansinn fari af stað aftur er gífurleg. Sú hætta er gífurleg. Munu launþegar una því að sjá efnahagsreikning fyrirtækja í þessu landi þar sem vaxtagreiðslur eru hærri en launakostnaður? Munu launþegar una því? Trúir 1. þm. Vestf. því að atvinnurekendavaldið sé svo sterkt að það ráði ferðinni þegar til slíkra átaka kemur?

Hæstv. forsrh. sagði að það væri ekki verið að tala um neikvæða vexti. Það er rétt, menn hafa ekki lagt til neikvæða vexti. En spurningin er viðmiðunin. Eru vextir ekki jákvæðir í þessu landi ef þeir eru hærri en fasteignamarkaðurinn? Eru þá ekki jákvæðir vextir? Ætli það hefðu ekki einhvern tíma þótt tíðindi hér á landi ef hægt væri að treysta því að sá maður sem legði peninga inn í banka væri nær því að eiga fyrir íbúð á næsta ári en hann var þegar hann hóf sparnaðinn? Ætli það væru ekki taldir jákvæðir vextir ef þannig væri ástatt? Núna eru raunvextirnir um 30%.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki hellt sér út í þá umræðu sem hér fer fram, en ég hef grun um að hann sé ekkert of sáttur við þá vaxtastefnu sem rekin er, hvort sem hún hefur nú verið samþykkt á flokksþingi Sjálfstfl. eða ekki.

Ég hygg að hv. 10. landsk. þm., sem minntist hér á barnafötin, hafi sem góður Alþb.-maður farið og verslað í KRON þegar hann keypti þessi barnaföt sem voru fjórum sinnum dýrari en á Norðurlöndum. Og ég get náttúrlega ekki annað en hvatt hv. 10. landsk. þm. til að mæta á næsta aðalfundi hjá KRON og fá upp hver gróðinn hefur verið. Því að ekki dettur mér önnur verslun fyrr í hug við Laugaveg, utanbæjarmanninum, en þessi myndarlega verslun Domus. En það er ekki í fyrsta skipti sem umræður sem ættu að fara fram innan Alþb. fara fram hér í þingsölum.

Það gerðist hér áðan í ræðustólnum að hv. 3. þm. Vestf. þótti ég ekki lesa nógu skýrt og greinilega upp ákveðin atriði úr grg. með frv. sem hér er til umræðu og hann endurtók lesturinn. Nú er þetta virðingarvert fyrir þá sem sjá um að vélrita ræður að hafa það alveg á hreinu hvað sagt var — og hann bætti við vissum ákvæðum varðandi verðtrygginguna. Ég hygg að þó að hv. 3. þm. Vestf. sitji nú í forsetastól þá muni hann halda geðró sinni og fara varlega í að nota kólfinn þó ég veki athygli hans á því að setningin, sem ég vitnaði í, var fortakslaus og sjálfstæð setning og fól ekki í sér neinn fyrirvara. Þess vegna var nóg lesið.

Mér þykir það aftur á móti skaði í þeirri umræðu sem hér fer fram að menn hafa ekki fengist til að ræða mjög efnislega um þá hluti hvort það gangi upp til lengdar að halda áfram vísitöluútreikningum á hinu og þessu í þjóðfélaginu, breyta um nafn á sumu og tala um kauptryggingu, og ætla svo að hafa stöðugt verðlag. Trúa menn því virkilega að þetta gangi upp? Og nú er skaði að hv. 4. þm. Norðurl. e. er horfinn úr salnum. Hann sagði að það væri víða sem svona kerfi væru til staðar eins og hér var vísitölukerfi. Ég var eindregið þeirrar skoðunar í seinustu kosningum að þetta vísítölukerfi ætti að gera að útflutningsvöru í þessari umræddu þekkingarsölu til útlendinga ef það væri svona fullkomið, en það hefur engri þjóð dottið í hug að koma sér upp svona kerfi eins og við vorum komnir með. Það sem ég óttast núna er að í staðinn fyrir það að stjórnarflokkarnir snúi sér að því að brjóta niður vísitölukerfið endanlega og taka upp gjaldmiðil í landinu, eins og aðrar þjóðir hafa, og hafa hér eðlilega hagstjórn, þá stefni menn núna í það að koma með nýjar reiknireglur og nýtt kerfi og nýja verðbólgu í landinu.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. er nú kominn í sjónfæri þó ekki sé hann kominn í salinn. Það væri vel ef hann kæmi hér upp í ræðustól og gerði grein fyrir því í hvaða löndum jafnfullkomið vísitölukerfi hefur verið í gildi eins og hér á landi og hver verðbólgan hefur verið. (SvH: Það er í Albaníu.) Það er í Albaníu. Hæstv. iðnrh. hefur leyst úr mörgum vanda hér í salnum og merkilegt hvað hans þekking á mörgum sviðum er yfirgripsmikil. Ég verð að segja eins og er að það hvarflaði augnablik að mér að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði átt við Ísrael. En það hefur verið á misskilningi byggt. Albanía er auðvitað fyrirmyndarríkið í þessum efnum. En hann getur trúlega staðfest það hér á eftir hvernig kerfi það er sem menn notast við í Albaníu.

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að forseti ASÍ vill viðhalda lánskjaravísitölunni. Þetta kvað hann ríkisstj. hafa skriflega undir höndum. Hagfræðimenntunin segir til sín. Ég hygg að í þeirri umræðu sem farið hefur fram um vísitölukerfi sé forseti ASÍ með þessu fyrst og fremst að tryggja sér áróðursstöðu í umræðum um það að viðhalda kaupmáttartryggingarkerfi í landinu. Hann getur með góðri samvisku sagt með réttu: Meðan við höldum áfram að hafa lánskjaravísitöluna í gildi, þá þurfum við líka að hafa kaupmáttartryggingu. Kannske er sá hópur enn nokkuð stór í þessu landi sem vill fá verðbólguna upp, vill fá nýjan hrunadans og nýja möguleika til að veiða í gruggugu vatni. En sem lokaumhugsunarefni fyrir hv. 3. þm. Vestf. vil ég minna á að formaður Alþfl. hefur verið mjög harður andstæðingur vísitölubindingar launa og skorið sig úr í atkvgr. hér í þinginu þegar tekist hefur verið á um þessa hluti. Og þó að ég hvetji nú hv. 3. þm. Vestf. til að fara varlega í að hafa hann sem fyrirmynd á öllum sviðum, þá hygg ég að það væri þarft fyrir hann að fara í smiðju til hans hvað þetta snertir svo sem eina kvöldstund og fá upplýsingar um hina nýju stefnu og hinn nýja stíl, sem upp er tekinn á þeim bæ, svo að hann stígi nú í takt við foringjann þegar og þá sjaldan að hann hefur rétt fyrir sér.