20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5453 í B-deild Alþingistíðinda. (4697)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur margt merkilegt borið hér á góma. T. d. hefur smáríkið Albanía við Adríahafið dregist á fróðlegan hátt inn í þessa umræðu og upplýst er að sérfræðingur sé á meðal vor, hæstv. iðnrh., sem geti skorið úr ágreiningsmálum sem snerta það ríki og er það gott og vel. Reyndar eru miklar breytingar þar á döfinni, að mér er tjáð, því að sú fregn flaug eins og eldur í sinu um norðanverðar Adríahafsstrendur í sumar að fiskibátur frá Albaníu hefði í fyrsta sinn í 25 ár selt fisk í ítalskri höfn og þóttu einhver merkustu tíðindi sem snertu samskipti þess ríkis við aðrar þjóðir sem menn höfðu lengi heyrt. En hvernig það kemur nú inn í umræður um vaxtamál á Íslandi, það er svo önnur saga.

Ég vil taka alveg sérstaklega undir orð hv. síðasta ræðumanns, um það að menn kjafta auðvitað ekkert niður vexti, það er alveg rétt. Menn geta kjaftað alveg hreint endalaust, hvort sem það er heldur hér á hv. Alþingi eða t. d. uppi í Borgarnesi, það hefur nefnilega sýnt sig að ræðuhöld í Borgarnesi hafa engin minnstu áhrif á vextina í landinu. Þegar upp er staðið breytast vextirnir ekkert við það þó einhverjir menn lýsi óánægju sinni með vaxtastigið uppi í Borgarnesi. Það hefur hins vegar komið í ljós að hinn íslenski peningamarkaður, íslenskt efnahagskerfi var á engan hátt undir þessa vaxtakollsteypu búið og hin merka tímamótabreyting, sem formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl. gumaði sem mest af er auðvitað kollhnís og magalending og eiginlega lenda þeir þar á rófubeininu ef svo má að orði komast. Það er hins vegar upplýst og meira að segja seðlabankastjóri. sjálfur æðstipresturinn, viðurkennir það að þetta gangi ekki upp, þetta hafi allt farið úr böndunum, það verði að grípa í taumana. Hann telur sig að sjálfsögðu rétta manninn til þess, en ég er þeirrar skoðunar að það eigi að taka vaxtaákvörðunarvaldið úr höndum hans og vextir eigi að ákvarðast hér á hinu háa Alþingi og hvergi annars staðar. Það séu, þegar allt kemur til alls, stjórnmálamennirnir sem eru að reyna að móta vaxtastefnuna, sem móta efnahagsstefnuna, sem eigi einnig að taka á vöxtunum, og það sé engra annarra en þeirra að snúa nú frá þessari endileysu, sem hér hefur verið í vaxtamálunum, og koma á einhverju skikkanlegu raunvaxtastigi í landinu. Þetta hefur nógu lengi gengið svona til og er mál að linni. Máttleysi einstakra ráðherra til þess að ná fram þeirri stefnu sinni að vextirnir séu ekki of háir í landinu, það er hins vegar umhugsunarefni. Það er mikið umhugsunarefni þegar hæstv. félmrh. lýsir því yfir á fundum, hvort sem það er nú uppi í Borgarnesi eða hér, að hann telji vextina allt of háa, að eitt af þeim mestu vandamálum sem hann glími við í stjórnun sinna málaflokka séu vextirnir, það séu of háir vextir og þeir séu honum nánast fjötur um fót við að leysa vanda húsbyggjenda og húsnæðismálin almennt, og að hann skuli síðan engu ná fram. Ég man ekki betur en ég hafi einhvern tíma heyrt svipaðan tón frá hæstv. forsrh. meira að segja um vextina. Hvernig stendur þá á því að ríkisstjórnin, eða a. m. k. sá hluti hennar sem er þessarar skoðunar, skuli ekki ná þessari stefnu sinni fram, þegar meira að segja Jóhannes Nordal er búinn að viðurkenna það að þetta gangi ekki svona? Það er umhugsunarefni. Og það held ég að hv. Alþingi ætti að hugleiða áður en það fer nú í frí, hvenær sem það verður, hvort það getur látið þetta ganga svona til lengur, hvort það er ekki einmitt Alþingis að grípa hér í taumana, koma einhverju skikki á þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar.