20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5455 í B-deild Alþingistíðinda. (4699)

438. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef lofað hæstv. forseta hér í deild að vera ekki mjög margorður um þetta mál enda ástæðulaust, þetta er samkomulagsmál. Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna er sammála um allar þær brtt. sem hér eru fluttar. Þær eru tæknilegs eðlis. Þær eru til þess að mæta þeirri þróun sem orðið hefur bæði í samningum og löggjöf á liðnum árum.

Eins og fram kemur í upphafi grg. er með þessu frv. verið að samræma réttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna réttindum sjóðfélaga annarra lífeyrissjóða, aðallega sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða, og lagfæra ýmis ákvæði vegna lagasetningar 1981 um ellilífeyrismál sjómanna við 60 ára aldur. Einnig vegna breytinga á lögum um eftirlaun aldraðra sem samþykktar voru á Alþingi 19. desember 1984.

Allar þessar breytingar leiða til aukinna réttinda sjóðfélaga og þær eru mjög vel útskýrðar í athugasemdum við frv. Ég tek skýrt fram, til þess að valda ekki ráðherrum okkar áhyggjum, að samþykkt þessa frv. mun ekki leiða til útgjalda fyrir ríkissjóð. Allir flm., sem eru fulltrúar allra flokka hér á þinginu, eru sammála um flutning frv. og ég treysti á að hv. fjh.- og viðskn., sem ég legg til að málinu verði vísað til að aflokinni þessari umr., taki málið fyrir og komi því áleiðis svo að það geti orðið að lögum á þessu vori. Hér er um hreint löggjafarmál að ræða og varðar ekkert innanlandsmál í Albaníu né ræðuhöld hæstv. samgrh. í Borgarnesi eða annarra höfðingja.

Ég legg til að að lokinni þessari umr., herra forseti, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.