21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5456 í B-deild Alþingistíðinda. (4702)

445. mál, kísilmálmverksmiðja á Grundartanga

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 756 hef ég flutt eftirfarandi fsp. til iðnrh. um viðræður um kísilmálmverksmiðju á Grundartanga:

1. Hefur stóriðjunefnd átt viðræður við norska fyrirtækið Elkem um þátttöku þess í að reisa kísilmálmverksmiðju á Grundartanga í stað slíkrar verksmiðju á Reyðarfirði?

2. Sé svo, á hvaða stigi eru þær viðræður og hver gaf stóriðjunefnd fyrirmæli um að hefja þær?

Tilefni þessarar fsp. er frétt sem birtist í Morgunblaðinu fyrir réttum mánuði síðan. Segir þar, með leyfi forseta:

„Könnun fer nú fram á því hver kostnaður væri af því að byggja kísilmálmverksmiðju á Grundartanga og þá jafnvel í samvinnu við Elkem í stað þeirrar verksmiðju sem fyrirhugað er að reisa á Reyðarfirði. Viðræður þar að lútandi eru að hefjast milli stóriðjunefndar og Elkem.“

Ég ber þessa fsp. fram vegna þess að það eru engin lög til í landinu sem heimila byggingu kísilmálmverksmiðju á Grundartanga. Alþingi samþykkti lög þann 17. maí 1982 um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og þeirri löggjöf var fylgt eftir með þál. 22. maí 1984, í lok síðasta þings, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Með vísun til laga nr. 70 frá 17. maí 1982, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, samþykkir Alþingi niðurstöður skýrslu stjórnar Kísilmálmverksmiðjunnar hf., dags. 7. janúar 1983, ásamt viðbót frá 5. apríl s. l. og ályktar að veita ríkisstj. heimild til að taka ákvörðun um að reisa og reka kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð og leita samvinnu við innlenda og erlenda aðila um eignaraðild.“

Ég tel að í þessari lagasetningu og í þessari þál. hafi falist ákveðin stefnumörkun um að dreifa fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði frekar um landið en verið hefur og tel því nauðsynlegt að iðnrh. upplýsi Alþingi um hvort frá þeirri stefnumörkun eigi að hverfa og hvort viðræður um að reisa kísilmálmverksmiðju á Grundartanga séu í gangi enn og á hvaða stigi þær eru og af hvaða tilefni þær voru hafnar. Það er nauðsynlegt að Alþingi og þjóðin öll fái sem gleggstar upplýsingar um þetta mál. Ég hygg að afdrif þess muni skipta sköpum um hver stefnan verður í byggingu orkufrekra fyrirtækja í framtíðinni, hvort sú stefna verður ofan á að stefna þeim öllum á eitt landshorn með öllum þeim hliðaráhrifum sem þessi rekstur hefur eða hvort á að brjótast út úr þeim hring og dreifa þeim fyrirtækjum um landið frekar en verið hefur.