01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Vegna þess að hæstv. sjútvrh. virtist hér áðan reisa andstöðu sína við þessa till. fyrst og fremst á ákveðnum setningum í grg. með till., en tók að öðru leyti ekki sérstaklega afstöðu til hennar efnislega nema þá á þann hátt að telja flutning hennar óþarfan í flestum greinum, þá vil ég sem 1. flm. lýsa þeim skilningi mínum yfir á þeim setningum í grg. sem hæstv. ráðh. vitnaði til, að við höldum því þar að sjálfsögðu ekki fram að ekkert hafi verið gert í neinum tilfellum í þessum málum, heldur höldum við hinu fram, að þær ráðstafanir og þær leiðir sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. hafa fram að þessu verið að reyna að feta sig til úrlausnar á þessum vandamálum dugi ekki til. Þær ráðstafanir gangi of skammt og þær leiðir séu ekki færar til úrlausnar á þessum miklu vandamálum.

Ég bendi á það að ef andstaða hæstv. ráðh. við till. er fyrst og fremst af þessum toga, þá er auðvelt mál að mínu mati í nefnd að breyta því þannig að við getum allir sameinast um að standa að henni, ef menn eru á annað borð sammála um að þörfin á slíkri vinnu sé fyrir hendi og að rétt sé að hv. Alþingi taki á því máli með þessum hætti. Það er í raun og veru það sem málið snýst fyrst og fremst um. Ef menn eru þeirrar skoðunar að hér sé þörf á að taka til hendi og að réttlætanlegt sé að Alþingi geri það sjálft með þessum hætti, þá ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu að menn nái saman um breytingar á orðalagi í grg.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka þær umr. og eftir atvikum undirtektir sem þessi till. hefur hér fengið. Margir hv. þm. hafa lýst efnislegum stuðningi við innihald till. Að lokum legg ég á það höfuðáherslu að hv. atvmn., sem ég legg til að fái till. til meðferðar að lokinni þessari umr., hraði störfum vegna þess að úrlausn ýmissa þeirra vandamála sem hér er fjallað um þolir alls enga bið.