21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5463 í B-deild Alþingistíðinda. (4713)

462. mál, lán Fiskveiðasjóðs Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það kom fram í máli ráðh. að tryggingar hefðu verið nægar í upphafi. Það er alls ekki nóg. Lögin kveða ekki á um það sérstaklega að þess skuli einungis gætt að tryggingar séu nægar í upphafi. Það er ekki hægt að skilja lögin öðruvísi en svo að þess skuli ávallt gætt.

Síðan ræddi hæstv. ráðh. um að vátryggingarverð skipti litlu máli, tekjumöguleikar skipa eða söltunarstöðva skiptu máli í sambandi við verð. Það er alls ekki ráðh. að meta. Það eru lög sem eiga að gilda í þessu sambandi og lögin eru ekki til geðþóttatúlkunar ráðh. eða einstakra sjóðsstjóra. Menn verða þá einfaldlega að breyta lögum um Fiskveiðasjóð. Eins og málið stendur núna hafa þessi lög augljóslega verið brotin.

Ég endurtek að það er ekki hlutverk ráðh. eða sjóðsstjórna í einstökum málaflokkum, hvort sem það eru sjávarútvegsmál eða iðnaðarmál eða annað, að meta eftir geðþótta sínum hugsanlega tekjumöguleika eða líkur á því að úr rætist. Menn hafa lög sem þeir eiga að fara eftir og ef þeir treysta sér ekki til að fara eftir þeim ættu þeir að reyna að breyta þeim.