21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5463 í B-deild Alþingistíðinda. (4714)

462. mál, lán Fiskveiðasjóðs Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Ég vil minna hv. fyrirspyrjanda á það að öllum atvinnurekstri fylgir áhætta og það verður aldrei svo gengið frá tryggingum að menn geti verið 100% vissir. Ég var ekki að leggja nokkurt mat á í þessu sambandi, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði. Ég var einungis að rifja upp almennar og einfaldar staðreyndir um hvað það væri sem skipti máli. Það væru tekjumöguleikarnir almennt en ekki byggingarkostnaður eða vátryggingarvirði. Ég var á engan hátt að leggja neitt mat þar á og ég mótmæli því, sem kom hér fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það séu einhverjar geðþóttahugsanir sem þarna ráða. Fiskveiðasjóður fór að lögum í upphafi og um það fjalla skilyrðin í lögunum. Hins vegar hefur þróunin orðið sú sem raun ber vitni og menn hafa staðið frammi fyrir þessu vandamáli um alllangan tíma og hafa verið að taka á því á undanförnum tveimur árum. Það er alrangt hjá hv. fyrirspyrjanda að hér hafi verið brotin lög. Það er allstór fullyrðing, en sem betur fer er hún röng.