21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5467 í B-deild Alþingistíðinda. (4718)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú þróun sem verið hefur í gangi í kjaramálum í tíð núverandi ríkisstj. hefur vissulega bitnað á mörgum, jafnt þeim sem skár voru settir launalega séð og ekki síst á láglaunafólki. Ríkisstarfsmenn og einnig háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn voru ekki of sælir af launum sínum fyrir áður en til þeirrar gífurlegu kjaraskerðingar kom sem ríkisstj. hefur staðið fyrir. Ég held að það sé fátt alvarlegra í rauninni sem verið hefur að gerast, sem tengist hinu opinbera kerfi, en sá atgervisflótti sem þegar er brostinn á og ljóst er að á eftir að verða enn alvarlegri í náinni framtíð ef svo fer sem horfir.

Hver hefði trúað því að barátta t. d. háskólamenntaðra kennara hefði gefið þá uppskeru eina sem raun ber vitni í Kjaradómi, að laun þeirra sem eru að byrja störf með full réttindi og menntun eru aðeins leiðrétt um tæplega 3000 kr. eftir alla svardaga og yfirlýsingar ríkisstj.? Nú hefur ríkisstj. látið svo í orði sem henni sé annt um stefnubreytingu í atvinnulífi landsmanna, að þar verði byggt á aukinni þekkingu, en allir hljóta að sjá hversu holt er undir slíku tali þegar litið er á þá kjaraþróun sem varðar það fólk sem á að vera undirstaðan undir þeim breytingum sem þarna er verið að tala um.

Við hljótum að hafa af því miklar áhyggjur hér á Alþingi sem þarna er að gerast, allir þeir sem hugsa til þess hversu nauðsynlegt það er að ná fram nýjum áherslum í atvinnuþróun í landinu og viðhalda hér lífskjörum til lengri tíma eitthvað til jafns við það eða nálægt því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Því er þessi fsp. fyllilega tímabær og ástæða til að taka undir hana.