21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5467 í B-deild Alþingistíðinda. (4719)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans, en ég verð að segja sem er að mér þótti það heldur innihaldslítið. Ég held að hér láti ríkisstj. reka á reiðanum og geri sér ekki grein fyrir að hvaða ástandi getur komið ef hér yrði alvarlegur fólksflótti úr hópi háskólamenntaðra manna. Eins og hv. þm. Gunnar G. Schram sagði áðan er hverjum manni ljóst að þau launakjör sem í boði eru t. d. við Háskóla Íslands eru auðvitað fyrir neðan allt sem sæmilegt er. Eins og hann gat um munu byrjunarlaun prófessors vera 34 500 kr: Þá skulu menn gera sér grein fyrir því að þessi sami prófessor hefur auðvitað rannsóknarskyldu. En það er gömul og ný saga að þrátt fyrir allt tal Íslendinga um sjálfa sig sem bókaþjóð og menningarþjóð, þá hefur alltaf verið einhver klofningur í hugum manna milli þess starfs sem unnið er á hinu svokallaða andlega sviði og hinu verklega. Það er mál til komið að stjórnvöld sem og þjóðin öll fari að gera sér grein fyrir því að því aðeins verður nútímaþjóðfélag rekið svo einhver mynd sé á að þessir tveir hópar haldist í hendur og vinni saman því að báðir þurfa á hinum að halda. Ég held ekki að ég geti tekið undir, eins og mér skildist á hæstv. forsrh., að þetta bjargist e. t. v. og fullyrðingu hans um að búið sé að samþykkja að háskólamenntaðir menn hjá ríkinu skuli hafa sömu laun og hjá einkafyrirtækjum, held ég að orki tvímælis, því að vitaskuld leitast einkafyrirtækin við að halda slíku fólki. Við vitum öll mætavel að til þess er neytt ýmissa bragða með hvers kyns aukagreiðslum og öðru slíku sem jafnvel koma hvergi fram. Starfsmenn ríkisins eiga hins vegar enga kosti. Þeir verða að sæta þeim launum sem um er samið á hverjum tíma og greiða að sjálfsögðu fullan skatt af hverri krónu. Það hljómar því óneitanlega hjáróma að heyra stjórnvöld og fulltrúa þeirra tala um íslenska framtíð með aukinni framleiðni, aukinni þekkingu, nýjum atvinnugreinum á nýrri öld, þegar ástandið er orðið slíkt meðal háskólamenntaðra manna.

Því miður heyrast þær raddir einnig oft frá verkalýðshreyfingu og launamannasamtökum innan annarra samtaka að síst sitji á háskólamenntuðum mönnum að vera að krefjast hærri launa. Ég held að þessar fullyrðingar byggi á gömlum tíma þegar vissulega var mikill munur á launum opinberra starfsmanna og verkamanna innan verkalýðshreyfingarinnar. En þessi munur er í afskaplega mörgum tilvikum horfinn. Það er orðinn miklu minni munur en var á launakjörum þessara tveggja hópa og við því skal ég svo sannarlega ekki amast. Sannleikurinn er nefnilega sá að þessir tveir hópar eiga það sameiginlegt að það eru þeir sem eru láglaunahópurinn í þessu landi. Þessu held ég að samtök launamanna og launþegahreyfingin í heild ættu að gera sér grein fyrir, því að vitaskuld verða hér engar framfarir nema við höfum á að skipa vel menntuðu háskólafólki og vel menntuðum verkalýð. Og það verður verkalýðurinn að sjálfsögðu ekki nema við höfum á að skipa vel menntuðu fólki til kennslu og starfa í þess þágu.

Ég skal ekki tefja tímann lengur, en ég tel að við fsp. minni hafi ég sáralítil svör fengið. Ég held að það sé alveg ljóst að hér verður verulegur flótti manna úr þessum stéttum. Menn ráða hreinlega ekki við að koma heim, oft komnir nálægt þrítugu, eigandi ekki þak yfir höfuðið né neitt annað en námsskuldir, til þess að fara svo að vinna á þeim launakjörum sem þeim eru boðin. Ég vil því biðja hæstv. forsrh. að íhuga það mjög vandlega hvort hér verður ekki að snúa allri þróun við. Ég held að hér sé raunar ekki um afmarkað vandamál að ræða, heldur allt það vandamál sem láglaunastefna ríkisstj. hefur í för með sér og ekki er fyrir endann séð hverjar afleiðingar hún kann að hafa.