21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5470 í B-deild Alþingistíðinda. (4722)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það er nú einmitt ástæða til að spyrja þeirra spurninga sem hér hefur verið spurt vegna þess, eins og fram kom í máli hæstv. forsrh., að þrátt fyrir það að Íslendingar séu með tekjuhæstu þjóðum vinna þeir 25% meira fyrir fjórum sinnum lægri launum en menn í nágrannalöndum okkar. Ég sé ekki að ástæða sé til að víkja frekar að hans máli. Ég held að það sé ljóst að ríkisstj. hefur ekki í huga að hækka verulega laun landsmanna til þess að hindra flótta m. a. háskólamenntaðra manna frá landinu. Það gæti ríkisstj. gert með því að flytja aftur það fé, sem tekið hefur verið af launþegum og flutt yfir í milliliðina, til baka. En það er greinilegt að það stendur ekki til.

Ég hlýt að víkja aðeins að orðum hv. þm. Karvels Pálmasonar. Hann gerði ekki annað en sanna það sem ég sagði hér fyrr í máli mínu að þegar talið berst að háskólamenntuðum mönnum kemur alltaf fram þessi gamla hugmynd um þann algera aðskilnað sem hlýtur að vera milli verkafólks í landinu og háskólamenntaðra manna. Þetta minnir mig á að þegar einhver vogar sér að tala um Bandaríkin á Íslandi þá fer ævinlega einhver að tala um Rússa. Ég hélt að svona umr. ætti ekki heima hér. Ég get upplýst hv. þm. um að fyrir örskömmu síðan var ég á vinnustaðafundi í Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi og þar kom í ljós að starfsmenn þar hafa mjög svipuð laun og prófessor við Háskóla Íslands hefur í byrjunarlaun. Það er því rétt sem ég hélt hér fram áðan. Þetta eru láglaunahóparnir í þjóðfélaginu, launþegar, háskólamenntaðir menn, opinberir starfsmenn og verkafólk í landinu.

Ef þm. hafa litið í nýleg Hagtíðindi eru þar meðaltalsyfirlit yfir laun landsmanna. Þar kemur í ljós að munurinn meðal launþega er ótrúlega lítill. Sem betur fer, hv. þm. Karvel Pálmason, sker ein stétt manna sig algerlega úr eins og vera ber og það eru sjómenn. Þetta getur hv. þm. kynnt sér með því að lesa, að ég hygg, síðasta hefti Hagtíðinda. (Forseti hringir.)