21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5473 í B-deild Alþingistíðinda. (4730)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú lokið athugun sinni á till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1985–1988. Við störf sín naut nefndin mikillar aðstoðar Snæbjarnar Jónassonar vegamálastjóra og nokkurra annarra starfsmanna Vegagerðar ríkisins. Vil ég fyrir hönd fjvn. flytja þessum mönnum bestu þakkir fyrir. Innan nefndarinnar var einnig ágætt samstarf um meðferð og afgreiðslu þessa máls. Tel ég ástæðu til þess að flytja samstarfsmönnum mínum í fjvn. þakkir fyrir lipurð í störfum og góða samvinnu.

Nefndin leggur til að þáltill. verði samþykkt með þeim breytingum sem fluttar eru till. um á þskj. 940. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna skrifa þó undir nál. með fyrirvara þar sem þeir áskilja sér eftir venju rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Sú vegáætlun sem hér kemur til afgreiðslu Alþingis tekur mið af langtímaáætlun í vegagerð, en eins og kunnugt er var till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð lögð fyrir Alþingi vorið 1983. Sú langtímaáætlun skiptist í þrjú fjögurra ára tímabil og tekur sú vegáætlun sem hér er til umr. til tveggja síðari ára fyrsta tímabils langtímaáætlunar og tveggja fyrri ára annars tímabils, 1987–1988. Niðurstöðutölur vegáætlunar á þessu ári, 1985, eru í samræmi við fjárlög eða 1650 millj. kr. sem eru um 1.9% af vergri þjóðarframleiðslu.

Þegar markmið langtímaáætlunar voru ákveðin var tiltekið það hlutfall þjóðarframleiðslu sem renna skyldi til vegáætlunar, þ. e. 2.2% 1983, 2.3% 1984 og 2.4% frá og með 1985. Vegna efnahagslegra þrenginga skortir nokkuð á að þessum markmiðum hafi verið náð til þessa. Hefur sú fjárvöntun komið fram í öllum liðum vegáætlunar. Þannig er talið að skorti um 14% af fjármagni til nýrra framkvæmda til að ná markmiðum langtímaáætlunar á fyrsta tímabili hennar, þ. e. til og með ársins 1986, og á sama tíma vanti um 9% á fjármagn sumarviðhalds. Þetta gerist þrátt fyrir það að á næsta ári, árinu 1986, er áætlað að markmiðum langtímaáætlunar sé náð og framlög til vegagerðar verði þá um 2.4% af þjóðarframleiðslu.

Þó þannig hafi skort á að staðið væri að fullu við markmið langtímaáætlunar um fjármagn er munurinn minni þegar litið er til framkvæmda. Þannig er talið að framkvæmdir hafi að mestu fylgt eftir þessum markmiðum og jafnvel í einstökum tilvikum farið fram úr. Skýringanna er m. a. að leita í því að verk hafa reynst ódýrari en ætlað var vegna hagstæðra tilboða við útboð. Tilboðum hefur verið hagað þannig að hægt hefur verið að vinna allt árið. Hagræðing hefur orðið í rekstri hjá Vegagerð ríkisins. Aukin hagkvæmni hefur verið tekin upp við lausn á tilteknum verkefnum og niðurskurður hefur orðið á einstökum liðum áætlunar, svo sem áður sagði um viðhald.

Í framsöguræðu sinni við fyrri umr. þessa máls lagði hæstv. samgrh. sterka áherslu á að við fjármögnun vegáætlunar skv. langtímaáætlun verði staðið. Óhætt er að fullyrða að hæstv. samgrh. hefur reynst þróttmikill baráttumaður fyrir framkvæmdum á sviði vegagerðar því skv. þeirri till. til vegáætlunar sem hér er til umr. verður markmiðum langtímaáætlunar náð um fjármögnun til vegagerðar þegar á næsta ári þrátt fyrir að flestir þættir opinberra framkvæmda séu verulega skornir niður.

Fjvn. gerir ekki tillögur um breytingar á verðlagsforsendum vegáætlunar. Reiknað er með 27% hækkun á milli áranna 1984 og 1985. Skv. því verður vísitala vegagerðar 1480 á miðju ári 1985. Hækkun frá 1985 til 1986 er síðan áætluð 15% og er vísitalan þá 1700 stig. Skv. venju eru tölur seinni ára allar á því sama verðlagi.

Vegáætlun er að meginhluta til fjármögnuð með mörkuðum tekjum. Lögbundnir markaðir tekjustofnar vegáætlunar eru bensíngjald og þungaskattur. En auk þess hefur ríkisstj. ákveðið að 50% af heildartekjum ríkissjóðs af bensínsölu skuli að lágmarki renna til vegamála. Til viðbótar bensíngjaldinu koma því aðrar tekjur af bensíni uns 50% markinu er náð. Áætlun um innheimtu markaðra tekna er unnin í sameiningu af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og Vegagerðar ríkisins og er í samræmi við fjárlög.

Tekjur af bensíngjaldi eru áætlaðar 845 millj. kr. árið 1985. Er þá miðað við að bensínsala aukist um 2.2 millj. lítra og að bensíngjald verði hækkað á árinu í samræmi við heimild. Hin þrjú árin er gert ráð fyrir 2% árlegri aukningu tekna mælt á föstu verðlagi. Aðrar tekjur af bensíni til þess að ná fyrrgreindu 50% markmiði eru á þessu ári áætlaðar 130 millj. kr. Tekjur af þungaskatti eru tvenns konar. Annars vegar er kílómetragjald, greitt af bílum sem eru yfir þrjú tonn að heildarþyngd, og hins vegar fast árlegt gjald sem greitt er af minni bílum.

Ég sé ástæðu til að taka undir ummæli hæstv. samgrh. varðandi breytingu á innheimtu þungaskattsins. Núverandi kerfi er sannarlega bæði dýrt fyrir þá sem greiða gjaldið og eins eyðist mikið í kostnaðinn fyrir þá sem gjaldsins eiga að njóta. Áætlunartekjur af þungaskatti gera ráð fyrir óbreyttu magni árið 1985, en aukningu um 2% á ári úr því. Taxtar eru hækkaðir einu sinni á ári í samræmi við verðlagsforsendur árið 1985, nema árið 1985 en þá er gert ráð fyrir aukalegri hækkun í júnímánuði. Heildartekjur af þungaskatti árið 1985 verða skv. þessum forsendum 410 millj. kr.

Auk tekna af framangreindum mörkuðum tekjustofnum veitir ríkissjóður beint framlag til vegáætlunar. Áður var þessu framlagi skipt í beint ríkisframlag og lánsfjárframlag. Nú er slíkri skiptingu hætt í fjárlögum. Á þessu ári er framlag ríkissjóðs skv. fjárlögum áætlað 265 millj. kr. eða um 16% af heildarfjármögnun vegáætlunar. Markaðir tekjustofnar standa því undir 84% af heildarfjárlögum vegamála á þessu ári og er sú hlutfallstala hærri en verið hefur um langt skeið.

Svo sem áður segir eru tekjur af mörkuðum tekjustofnum áætlaðar í vegáætlun. Engin vissa er fyrir því að sú áætlun standist nákvæmlega og getur þar ýmist orðið of eða van. Vegagerð ríkisins ber skv. lögum að fá tekjur af mörkuðum tekjustofnum jafnvel þótt þær fari fram úr áætlun. Á hinn bóginn kemur það Vegagerðinni illa ef skortir á að markaðir tekjustofnar nái þeim fjárhæðum sem ætlað hefur verið og afar erfitt getur verið fyrir Vegagerðina að vita ekki með vissu hvaða fjármagni hún hefur úr að spila á hverju ári fyrir sig.

Við meðferð þessara mála nú hef ég beitt mér fyrir því samkomulagi, sem tekist hefur um hvernig þessu skuli hagað framvegis, að fjárhæð sú sem ákveðin er með fjárlögum hverju sinni til Vegagerðar ríkisins skuli gilda. Ef markaðir tekjustofnar fara fram úr áætlun fær Vegagerðin þá skv. lögum, en þá dragi að sama skapi úr lánsfjáröflun ríkissjóðs til vegagerðar. Á sama hátt gerist það að ef markaðir tekjustofnar ná ekki þeim fjárhæðum sem áætlað er hleypur ríkissjóður undir bagga og fyllir í skarðið þannig að tölur fjárlaga gildi.

Það má enda segja að ríkisstj. á hverjum tíma geti haft veruleg áhrif á það hvernig spá um markaða tekjustofna stenst. Við undirbúning langtímaáætlunar var stofnbrautafé hvers tímabils skipt eftir tilteknum hlutföllum milli kjördæma þannig að ætla mætti að dygði fyrir verkefnum sem átti að ljúka á tímabilinu. Við skiptingu fjár milli kjördæma í vegáætlun nú hefur fjvn. haldið þessum hlutföllum með þeirri einu undantekningu að fjármagn sem sparaðist á fyrsta Ó-veginum sem lokið er við,p. e. Ólafsvíkurenni, flyst yfir í næsta Ó-veg, í Óshlíð. Á sama hátt verður áætlaður sparnaður í Óshlíð fluttur í Ólafsfjarðarmúla. Hefur þetta þótt eðlilegt vegna sérstöðu þessara verkefna.

Í þjóðbrautum liggur nú fyrir af hálfu Vegagerðar ríkisins í fyrsta sinn samræmd úttekt á ástandi og kostnaði við úrbætur á þeim vegum. Er sú úttekt að mestu sambærileg við þá sem gerð var á stofnbrautum við undirbúning langtímaáætlunar. Þegar þessi nýi grunnur lá fyrir þótti eðlilegt að taka upp svipaða skiptireglu og notuð var í stofnbrautum. Er hin nýja regla notuð til að skipta þjóðbrautarfé á árunum 1986 og 1987. Breytingar á hlutföllum einstakra kjördæma sem af þessu leiða eru ekki veigamiklar. Við endurskoðun vegáætlunar veturinn 1986 til 1987, en þá er lokið fyrsta tímabili langtímaáætlunar, er gert ráð fyrir að þessi hlutföll fyrir stofnbrautir og þjóðbrautir verði endurmetin og miðað við ástand vegakerfisins eins og það verður þá og eftir því hvernig þokað hefur fram verkum til samræmis við það sem langtímaáætlun greinir.

Auk þess að skipta fé milli kjördæma hefur fjvn. fjallað um skiptingu fjár til sérstakra verkefna og Ó- vega. Að venju hefur verið haldið eftir óskiptu fé í öllum verkefnaflokkum nýrra framkvæmda. Nemur sá hluti 20% fjárveitinga árið 1986 og 25% árið 1987. Er þetta hærra hlutfall en áður. Þessu óskipta fé er haldið eftir til þess að mæta óvæntum verkefnum eða óvæntum áföllum, eins og t. a. m. því ef verðlagsforsendur vegáætlunar standast ekki svo sem oft hefur gerst.

Á síðasta ári var í fyrsta sinn veitt fé til þjóðvega í Reykjavík. Er lagt til að því verði haldið áfram á næstu árum. Eru fjárveitingar á liðnum Sérstök verkefni og eru þær utan hlutfallsskiptingar á milli kjördæma. Að undanförnu hefur verið unnið að úttekt á framkvæmdaþörf þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir og leiða þær í ljós að á næstu árum þarf mikið fjármagn til að samgöngur á þessu svæði geti verið með eðlilegum hætti. Er hér um að ræða verkefni í vega- og brúagerð á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu. Augljóst er að ef um verulega búseturöskun verður að ræða á landinu á næstu árum, þannig að fólki fjölgi verulega á höfuðborgarsvæðinu umfram það sem gerist annars staðar á landinu, þá þarf að leggja í gífurlega fjárfrekar framkvæmdir í samgöngumannvirkjum höfuðborgarsvæðisins svo að samgöngukerfið nái að bera umferðina. Hér er ein hættan og ekki sú kostnaðarminnsta við það ef fólksflutningar verða utan af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Alþingi og sveitarfélög þurfa að athuga þessi mál gaumgæfilega og átta sig á því hvernig skuli standa að málum til þess að hér verði ekki um lítt viðráðanlegt vandamál að ræða.

Þegar hæstv. samgrh. flutti sína framsöguræðu við fyrri umr. þessa máls beindi hann því sérstaklega til fjvn. að taka til athugunar greiðslur ríkissjóðs af afborgunum og vöxtum af lánum sem tekin voru til vegagerðarframkvæmda á árunum 1980 og 1981. Þegar þessi mál voru athuguð þótti lítill vafi á því að ríkissjóði bæri að standa undir greiðslum af þessum lánum miðað við fyrri yfirlýsingar. Mál þetta er því leyst á þann máta að ákveðið hefur verið að ríkissjóður yfirtaki þessi lán og standi undir öllum greiðslum þeirra vegna.

Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á varanlega vegagerð í vegáætlun og að lengja þá vegkafla sem eru með bundnu slitlagi. Árið 1984 bættust við 163 km af nýju bundnu slitlagi á þjóðvegi landsins. Er þetta mesta viðbót sem orðið hefur á einu ári. Í árslok 1984 var bundið slitlag á þjóðvegum alls orðið um 920 km. Í þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir er haldið áfram á þessari braut. Á næstu tveimur árum ætti viðbót á bundnu slitlagi að verða 330 til 350 km og yrði þá slitlag alls á þjóðvegum landsins um 1240 til 1270 km í árslok 1986. Langmest af bundnu slitlagi er á stofnbrautum, en þó er það einnig nokkuð á fjölfarnari þjóðbrautum. Skv. langtímaáætlun var gert ráð fyrir að bundið slitlag á stofnbrautum yrði í lok fyrsta tímabils, þ. e. í lok 1986, um 1140 km. Af þessu er ljóst að heildarlengd bundins slitlags á þjóðvegum landsins verður í árslok 1986 nokkru meiri en langtímaáætlun gerði ráð fyrir þrátt fyrir þá vöntun á fjármagni sem áður er vikið að. Til viðbótar þeim skýringum sem þá var getið um má nefna að ódýrari útfærsla á bundnu slittagi með lögn 4 m akreinar á umferðarminni vegi hefur hjálpað verulega til.

Loks má geta þess að í nokkrum tilvikum hefur verið vikið frá framkvæmdaröð langtímaáætlunar á þann veg að þeir kaflar sem lítils undirbúnings þurftu við undir bundið slittag hafa verið færðir fram, en aðrir dýrari kaflar hafa þá færst aftar í röðinni. Slíkar tilfærslur hafa verið ákveðnar af þm. hlutaðeigandi kjördæma.

Stundum heyrist það sagt að of mikil áhersla sé lögð á vegi með bundnu slitlagi sem valdi því að þjóðbrautir sitji um of á hakanum. Víst er að þeim er vorkunn sem bíða eftir vegabótum og búa við lélegt vegakerfi. Á það ber þó að líta að seint verða allir hlutir gerðir í senn. Að minni hyggju er það þýðingarmest af viðfangsefnum í vegamálum að byggja upp með bundnu slitlagi hringveginn umhverfis landið og tengiveg út frá honum til helstu byggðarlaga og þéttbýlisstaða. Sem röksemdir fyrir þessari stefnu er nægilegt að nefna ótvíræða arðsemi þessara framkvæmda sem var mjög rækilega skýrð í framsöguræðu hæstv. ráðh. er hann mælti fyrir þessari till.

Stofnbrautir fá að þessu sinni sem áður mest í sinn hlut af fjármagni til nýbygginga. Þannig fara til þeirra 547 millj. kr. árið 1985 og samtals 2654 millj. kr. árið 1986 til 1988. Til framkvæmda í þjóðbrautum fara á þessu ári 105 millj. kr., en á árunum 1986 og 1987 samtals 268 millj. kr. og er þá óráðstafað fé ekki talið með.

Skv. till. fjvn. á þskj. 940 er þar einnig að finna stærstu verkefnin við framkvæmdir á stofnbrautum.

Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til sumarviðhalds vega verið mjög takmarkaðar miðað við þarfir. Gerð var úttekt á fjárþörf þessa viðfangsefnis árið 1978. Miðað við þessa úttekt hafa fjárveitingar til sumarviðhalds á árunum 1979–1984 verið 59–79% af áætlaðri þörf. Í till. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að bæta verulega úr á þessu sviði. Er gert ráð fyrir að fjárveiting 1985 verði 77% af þörf og hækki í 86% árið 1986. Er þá tekið tillit til vaxandi umferðarþunga. Rétt er að vekja athygli á því að með brtt. fjvn. er lagt til að um nokkra tilfærslu verði að ræða á viðhaldsliðum áætlunarinnar þannig að hækkaður verði liðurinn Viðhald vega með bundnu slitlagi.

Af stærri verkefnum sem verulega miðar fram á vegáætlunartímabilinu má nefna nokkur.

Lokið verður við Suðurlandsveg um Mýrdal allt vestur að Skógum. Framkvæmdir við Eyrarbakkaveg um Ölfusárós hefjast árið 1986 og er gert ráð fyrir að árið 1988 verði lokið byggingu brúar, en vegagerð þá ólokið vestan óssins. Mörgum er kunnugt um að um þessa framkvæmd hafa verið nokkuð skiptar skoðanir. Ákvörðun um hana var þó tekin síðast þegar vegáætlun var afgreidd á Alþingi þannig að í þessari vegáætlun er einungis um staðfestingu þeirrar ákvörðunar að ræða.

Á árunum 1985–1987 verður lokið Þingvallavegi um Mosfellsheiði til Þingvalla með bundnu slitlagi. Reykjanesbraut milli Vífilsstaða og Breiðholts verður opnuð til umferðar árið 1986. Á árunum 1987 og 1988 er gert ráð fyrir að lokið verði við Arnarnesveg milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbrautar.

Byrjað verður á Vesturlandsvegi í Kjós að nýju eftir nokkurra ára hlé sem þar hefur orðið á framkvæmdum. Lokið verður við Vesturlandsveg í Skilmannahreppi og um Akranesvegamót. Á næsta ári verður lokið með bundnu slitlagi kafla á Vesturlandsvegi frá Fornahvammi um Norðurárdal og Holtavörðuheiði til Miklagils.

Djúpvegur um Steingrímsfjarðarheiði var tengdur til bráðabirgða s. l. haust. Á tímabilinu verður byggður upp vegur um Langadal og tengt á Snæfjallastrandarveg nálægt Rauðamýri. Er þar með lokið hinni eiginlegu Steingrímsfjarðarheiði, en eftir er allmikil vegagerð í Steingrímsfirði innanverðum og um Langadal við Djúp. Lokið verður vegagerð um Óshlíð á tímabilinu með byggingu tveggja vegþekja af fjórum alls sem þar gætu komið í framtíðinni. Er það í samræmi við upphaflegar áætlanir um að fresta tveimur vegþekjum uns reynsla fæst af þessum mannvirkjum.

Lokið verður á tímabilinu uppbyggingu Norðurlandsvegar í Línakradal, en þó verður framkvæmdum með bundið slitlag þar ekki að fullu lokið. Enn fremur verður byrjað á Norðurlandsvegi um Vatnsskarð og verður 58 millj. kr. varið til þessa verkefnis á áætlunartímabilinu. Þá verður lokið við Sauðárkróksbraut milli Varmahlíðar og Sauðárkróks með bundnu slitlagi á næsta ári. Nýr vegur, Leiruvegur, fyrir botni Eyjafjarðar verður tekinn í notkun á tímabilinu og lokið verður við veg um Svalbarðsströnd og Víkurskarð. Byrjað verður á Norðurlandsvegi um Hörgárdal og Öxnadal og í lok tímabilsins verður hafist handa við jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla.

Á Austurlandi verður m. a. lokið við Norðfjarðarveg milli Egilsstaða og Eskifjarðar á þessu tímabili. Sömu sögu er að segja um Austurlandsveg um Hvalnesskriður.

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkra helstu framkvæmdaþætti af þeim fjölmörgu framkvæmdaliðum sem er að finna í brtt. fjvn. á þskj. 940.

Svo sem kunnugt er barst ríkisstj. tilboð frá Hagvirki um að ljúka gerð vegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar á skömmum tíma. Rétt er að vekja athygli á því að þetta tilboð rúmast ekki innan brtt. fjvn. Tilboðið var að ýmsu leyti álitlegt, en hafði þó sína vankanta. Það gekk t. d. þvert á langtímaáætlun og þess vegna er tæknilegur undirbúningur vega sums staðar ónógur og ákvörðun um vegstæði ekki fyrir hendi. Vaxtagreiðslur af lánsfé og fyrirkomulag lána hefðu a. m. k. þurft athugunar við. Ef ríkisstj. og Alþingi kysu að verja fjármagni til að ljúka þessu verki á umræddum tíma hefði að sjálfsögðu legið fyrir að bjóða það verk út á frjálsum markaði.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð var sýnt að stefna yrði að verulegri aðhaldssemi og niðurskurði í opinberum framkvæmdum og öðrum umsvifum á vegum ríkisins. Tveir framkvæmdaflokkar voru þó undanskildir og samstaða var um að verja þá fyrir niðurskurðarhnífnum eftir því sem föng væru á. Hér var um að ræða húsnæðismál og vegamál. Við þetta hefur verið staðið. Til húsnæðismála hefur verið varið miklum fjármunum og mun meira en áður af ríkisfé. Hvernig til hefur tekist í þeim málaflokki skal ekki rætt hér. Um vegamálin má segja að nokkur niðurskurður hafi orðið til þessa miðað við fyrri áætlanir Alþingis. En sú till. sem hér er til umr. ber það með sér að hún stefnir að því að standa fyllilega við ákvæði langtímaáætlunar.

Ég vil taka það fram hér að þrátt fyrir miklar þrengingar í fjármálum ríkisins og verulegan niðurskurð verklegra framkvæmda í fjölmörgum greinum tel ég afar mikilvægt að þessari stefnu í vegamálum verði fram haldið. Fátt er mikilvægara fyrir nútímalífshætti en greiðar samgöngur og fátt er nauðsynlegra til þess að byggð geti haldist í landinu með eðlilegum hætti en miklar framkvæmdir í vegamálum. Sú till. sem hér er til umræðu um nýja vegáætlun markar þýðingarmikil spor á þessari framfarabraut. Samtals gerir hún ráð fyrir því að á fjórum árum verði varið rúmlega 9 milljörðum kr. til vegamála. En þótt háar tölur geti verið góðar kosta þær sitt. Einhvers staðar verður að taka fjármagnið. Þess vegna er nýting fjármagnsins enn þá mikilvægari en háar tölur. Því ber að fagna að meðferð vegamála hefur verið með þeim hætti síðustu árin að nýting fjármagnsins hefur farið batnandi. Fyrir það eiga Vegagerð ríkisins og önnur yfirstjórn vegamála gott skilið. Auðvitað er það svo að ýmsir vankantar og jafnvel sárindi geta fylgt þeirri aðferð, sem nú er viðhöfð af hálfu Vegagerðar ríkisins, að bjóða út svo mörg verk sem raun ber vitni um. Því ber að hafa það sterklega í huga og verður auðvitað fylgst með því að nokkurt jafnræði sé á milli landshluta varðandi útboð og aðra tilhögun verka hjá Vegagerð ríkisins.

Því verður á hinn bóginn ekki neitað að með þessum hætti hafa verk reynst það miklu ódýrari en með fyrri tilhögun að það hefur stórlega flýtt framkvæmdum og nýtt betur það fé sem til ráðstöfunar hefur verið. Því er óhjákvæmilegt að halda þeirri stefnu áfram. Hagræðing í rekstri er eðlileg afleiðing og nauðsynleg samhliða aukinni verktakastarfsemi Vegagerðar ríkisins.

Á síðustu árum hefur starfsmönnum Vegagerðar ríkisins farið fækkandi svo sem sjá má af töflu í aths. með till. eins og hún liggur fyrir. Skýringar á þessum reglum komu einnig fram í framsöguræðu hæstv. ráðh. Útlit er fyrir að framhald geti orðið á fækkun starfsliðs og samdrætti í tækjakosti og lausum mannafla hjá Vegagerð ríkisins við þá þróun sem orðið hefur í tilhögun verka. Að þessu er nauðsynlegt að hyggja á komandi tíð svo sem verið hefur á síðustu árum.

Stundum er sagt að Ísland sé frumstætt land í vegamálum. Að sumu leyti er þetta rétt ef vegakerfi okkar er borið saman við það sem gerist í nálægum löndum. Á hitt ber að líta að við erum fámenn þjóð sem býr í stóru og býsna erfiðu landi. Mér verður stundum á að undrast hverju þessi fámenna þjóð kom í verk með lagningu malarveganna á sínum tíma. Á sama tíma er það stórvirki, sem við störfum nú að, að koma varanlegum vegum með bundnu slitlagi umhverfis landið allt og til helstu þéttbýlisstaða utan hringvegarins. Þessu stórverki miðar vel áfram og ég hygg að ég sé ekki einn um það að gleðjast yfir hverjum nýjum kafla sem tekinn er í notkun.

Ég hygg einnig að ég sé ekki einn um það að færa þeim þakkir sem að þessum málum hafa starfað allt frá hæstv. samgrh., sem reynst hefur ótrauður og dugmikill baráttumaður fyrir vegagerð á Íslandi, og til þeirra sem verkin vinna. Er þá frumkvöðlum varanlegrar vegagerðar hér á landi ekki gleymt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að skýra brtt. fjvn. frekar en orðið er. Þær birtast á þskj. 940. Ég legg til fyrir hönd n.till. verði samþykktar með þeim brtt. sem birtast á nefndu þskj.