21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5486 í B-deild Alþingistíðinda. (4732)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þann dagskrárlið sem hér er nú til umr. Ég get tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns, í fyrri hluta ræðu hans fyrst og fremst. Ég sleppi því að þessu sinni að taka undir það sem kom fram í síðari hluta ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar hér áðan, geymi mér til síðari tíma að gera það að umræðuefni. En ég get tekið undir það sem hann gerði að umræðuefni í fyrri hluta sinnar ræðu og skal ekki hafa fleiri orð þar um.

Eins og hér hefur komið fram skrifar minni hl. fjvn. undir nál. með fyrirvara. Það mun hafa gerst nokkuð lengi að menn færu þannig að. Ástæðan er auðvitað sú að þm. almennt taka þátt í skiptingu þess fjármagns sem meiri hl. hverju sinni ákvarðar að til hlutanna eigi að fara og bera þannig að hluta til ábyrgð á þeirri skiptingu sem hér um ræðir. Mér heyrðist hv. þm. Pálmi Jónsson, formaður fjvn., segja hér áðan að fjvn. stæði öll að þessu áliti. Nú sýnist mér vanta eitt nafn á að þetta standist og mér er spurn: Standa allir hv. fulltrúar stjórnarflokkanna í fjvn. að því áliti sem hér er lagt fram? Ég vil gjarnan fá svör við þeirri spurningu. Ég er ekkert að krefjast svara af hv. þm. Pálma Jónssyni. Hv. þm. Egill Jónsson, sem hér á að vera, ætti að sjálfsögðu að geta svarað þessu. En gjarnan vil ég fá að vita hvort einhver brestur hefur komið í stjórnarliðið við afgreiðslu þessa máls.

Eins og hér hefur komið fram fyrr er það auðvitað alveg ljóst að við afgreiðslu vegáætlunar fyrir árið í ár er um að ræða fráhvarf frá sameiginlegri samþykkt allra þm. á sínum tíma um langtímaáætlun í vegamálum. Það ber auðvitað að harma. Menn hafa um það mismunandi röksemdir vegna hvers slíkt á sér stað og ég skal ekki fara út í að ræða það hér. En það er staðreynd, sem blasir við, að það er fráhvarf frá þeirri stefnu sem mörkuð var hér á sínum tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir því að við hana verði staðið bæði á árinu 1986 og 1987 og við skulum vona að það takist. Minn hugur er sá að fremur þurfi þar við að bæta en úr að draga því að ég hef þá skoðun, eins og margoft hefur komið fram, að vegaframkvæmdir séu hinar arðbærustu sem við getum farið í miðað við þær kringumstæður sem við höfum búið við og búum við enn þann dag í dag. Þar á því lítið til að spara til þess að hægt sé af fullum krafti að vinna að framkvæmdum að þessu leytinu til.

Ég geri ráð fyrir því að ýmsir hefðu viljað fá meiri fjármuni en hér er um að ræða til framkvæmda til að láta í brýrnar og mjög svo nauðsynlegar framkvæmdir á hinum ýmsu svæðum. Ég hygg þó að almennt hafi menn verið nokkuð sammála um þá skiptingu sem hér er um að ræða, þá skiptingu sem hefur átt sér stað milli kjördæma og hefur verið í gildi nokkurn tíma. Það er spurning hversu lengi sú skipting eigi að vara. Það er vel hugsanlegt að henni þurfi að breyta áður en langt um líður. Ég er þó ekki að tala hér á þann veg að henni eigi að breyta verulega í þá átt sem hv. þm. Geir Gunnarsson var að tala um áðan. Mér hefur a. m. k. fundist þann tíma sem ég hef verið á þessu svæði æðimikill munur á að aka hér á þessum „teppalögðu“ götum en þeim malarholugötum sem ég hef þurft að aka á í minni heimabyggð. En kannske eru „teppin“ farin að bila eitthvað hér á þessu svæði þannig að þau þurfi endurnýjunar við.

Ég vil, herra forseti, að það komi fram að það er vissulega harmsefni að hér hefur verið horfið frá markaðri stefnu. Nauðsyn hefði verið að henni hefði verið haldið. Ég skal ekki hefja hér umr. um það efnislega hvers vegna það er gert. Það liggur fyrir. Það er auðvitað meiri hl. hverju sinni sem ræður ferðinni í þeim efnum. Hann hefur valið þennan kostinn að draga saman seglin í ár en er jafnframt með fyrirheit um að haldið verði við markaða stefnu árin 1986, 1987, þ. e. ef sá meiri hl. fær einhverju um það ráðið, ef ekki verður búið að fallast á skoðun hæstv. iðnrh., efna til kosninga í haust og skipta um meiri hl. En við skulum vona, hverjir sem um stjórnvölinn halda næstu árin, að haldist sú samheldni sem hér myndaðist á þeim tíma sem þm. réttu upp hendi við langtímaáætlun í vegagerð og voru allir sammála um það að verja þeirri prósentu, sem þar um samdist, til vegaframkvæmda — a. m. k. verði ekki úr henni dregið. Meiri þörf er á því að bæta þar við en að minnka.

Ég vil í lokin þakka bæði meðnm. mínum í fjvn., formanni sérstaklega, og vegagerðarmönnum fyrir ánægjulegt og gott samstarf eins og venjulega. En ég vænti þess að þessari umr. ljúki ekki áður en hægt er að fá um það svör frá einum af hv. þm. í fjvn. hver afstaða hans er til þessa máls.