21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5489 í B-deild Alþingistíðinda. (4734)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Við 1. umr. um vegáætlun 26. mars s. l. flutti hæstv. samgrh. ítarlega ræðu. Þar kom margt fram um stöðu og framkvæmd vegagerðar á landinu. Ég vil með leyfi forseta lesa hér stuttar tilvitnanir úr ræðu hæstv. ráðh. Í fyrsta lagi vil ég lesa þetta:

„Ef landið á að haldast í byggð verður að búa íbúum þess félagslegt og athafnalegt öryggi. Það verður ekki gert nema með öruggum samgöngum og ekki síst á landi.“

Í öðru lagi vil ég lofa hv. þm. að heyra þessa aðvörun ráðh.: „Ekki verður þó öllu lengur hægt að bjarga langtímaáætlunum með hliðarráðstöfunum. Skv. henni ætti í ár og næstu ár að verja 2.4% þjóðarframleiðslunnar til vegamála, en í ár er sú tala um 1.9%. Því er nauðsynlegt þegar á næsta ári að ná upprunalegu markmiði. Annars fer áætlunin úr böndunum.“

Staðreyndin er nefnilega sú að langtímaáætlunin er þegar farin úr böndunum þótt blasi enn augljósar við að svo sé ef svo færi á næstu árum að ekki yrði staðið við upprunalegt markmið langtímaáætlunarinnar um fjármögnun vegaframkvæmda. Það er jafnaugljóst að ef landið á að haldast í byggð verður það ekki gert nema með öruggum samgöngum.

Sú langtímaáætlun, sem nú er byggt á við veganýbyggingu og vegaviðhald, var unnin af nefnd sem í sátu fulltrúar allra þingflokka og lögð var fram hér á Alþingi vorið 1983. Jafnvel þótt mörgum hafi fundist það vorið 1983 að langtímaáætlun gæfi nokkuð góð fyrirheit lá það í loftinu að reynslan skæri fyrst og fremst úr um ágæti hennar. Tekjumörkun var sterkasta hlið áætlunarinnar, þó með þeim ákveðna ásetningi að um væri að ræða markmið um lágmarksframlag. Aðrir þættir, sem áætlunin byggðist á, voru veikari. Það hefur komið í ljós að ástand vega, umferðarþörf og félagslegar aðstæður voru ekki metnar sem skyldi. Áhrif nýbygginga á umhverfi sitt og kannske ekki síður áhrif þess á framkvæmdir í vegamálum, nýbyggingar og bundið slitlag eru mjög mismunandi eftir landshlutum. Til þessa þáttar verður að taka miklu meira tillit á næstu árum og jafna framkvæmdir milli héraða meira en gert hefur verið.

Þá hefur komið fram mismunun um framkvæmd sérverkefna. Við því mátti búast að eftir stuttan reynslutíma mundi langtímaáætlunin til vegaframkvæmda þurfa endurskoðunar við. Ég tel að að því sé nú þegar komið. Ef litið er til reynslu af framkvæmd langtímaáætlunar á Vesturlandi kemur m. a. eftirfarandi í ljós:

Um sérverkefni er þetta að segja: Meginverkefni á Vesturlandi utan Ó-vegaframkvæmdanna undir Enni hefur verið uppbygging vegar fremst í Norðurárdal og á Holtavörðuheiði. Þetta er svokallað sérverkefni á Vesturlandi. Framkvæmdin kemur íbúum Vesturlands að sáralitlu gagni. Hér er fyrst og fremst verið að byggja upp veg sem þjónar öðrum landshlutum. Vegurinn liggur frá Vesturlandi miðað við samgöngur innan svæðisins.

Hér kemur fram einn ágalli langtímaáætlunarinnar. Það kemur sem sagt í ljós að á sama tíma og stór hluti þess fjármagns, sem ætlaður er Vesturlandi, fer til þess að byggja upp veg til að auðvelda samgöngur annarra landshluta að Vesturlandi hafa framkvæmdir um Reykjaneskjördæmi af Vesturlandi verið látnar sitja á hakanum. Framkvæmdahraði um Hvalfjörð sunnanverðan, sem kemur í hlut Reykjaneskjördæmis, er í öfugu hlutfalli við þann þunga sem haldið hefur verið uppi á Holtavörðuheiði.

Þegar kemur vestur fyrir Borgarnes er ástand vega víða mjög bágborið. Það er skoðun mín að við gerð langtímaáætlunarinnar hafi þessir vegir verið metnir betri en þeir hafa reynst vera og þar með fjárframlag til þeirra áætlað minna en þurft hefði. Það hefur sem sé komið í ljós að til þess að bjarga algerum vandræðastöðum á veginum vestur um frá Borgarnesi svo og á norðanverðu Snæfellsnesi og í uppsveitum Borgarfjarðar hefur þurft að færa til fjármagn, sem skv. vegáætlun og langtímaáætlun hefur verið ákveðið til þeirra staða sem skv. þessum áætlunum þurfti að byggja upp fyrst og skv. þeim hafa forgang þar eð ástand veganna hefur reynst miklu verra en grundvöllur langtímaáætlunarinnar var byggður á.

Á fundum þm. Vesturl. með vegamálastjóra og hans fólki kom greinilega fram að mikið skorti á að sá rammi, sem langtímaáætlunin setur um vegaframkvæmdir á Vesturlandi, sé til nokkurrar frambúðar. Vegagerð ríkisins þarf því í samráði við þm. kjördæma og sveitarstjórna að huga að endurskoðun og nýrri áætlanagerð. Á meðan slík endurskoðun nær ekki um landið allt þarf að gera áætlanir um sérstök svæði. Þm. Vesturl. hafa lagt til sameiginlega við Vegagerð ríkisins að gerð verði ítarleg könnun á vegarstæði á norðanverðu Snæfellsnesi. Kannaðir verði m. a. þeir möguleikar að fara með veg undir Búlandshöfða og um Mávahlíðarrif, áhrif og bygging brúar yfir Kolgrafarfjörð. Þá verði cg kannaðar hugsanlegar nýjar leiðir um veg um Helgafellssveit og vegarlagning úr Kerlingarskarði að Snæfellsnesvegi við Stykkishólm og út á nesið. Þá hefur komið upp hugmynd um nýjan veg um Dufansdal.

Einnig varð samkomulag um að gera fullkomna kostnaðaráætlun um veg frá Sleggjubeinu að Arnarstapa um Klifhraun eða Stapahraun. Vegagerð ríkisins hefur samþykkt þessa þætti báða og áætlanagerð þar að lútandi.

Við afgreiðslu þessarar vegáætlunar fyrir árin 19851988 liggur það nokkuð ljóst fyrir að gera þarf nýja langtímaáætlun. Þó þarf fyrst og fremst að tryggja það að sú áætlun, sem nú er farið eftir, fari ekki úr böndunum en að því stefnir. Sú staðreynd að í ár verður innan við 1.9% af þjóðarframleiðslu varið til vegamá:a í stað 2.4%, eins og upprunalegt markmið var, staðfestir það að farið er að losna um böndin.