01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fréttaritari Ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn skýrði frá því í fréttaauka í gær að skv. fréttamati þarlendra manna, vegna tíðinda sem bárust handan um Atlantshafið af verkalli opinberra starfsmanna, hefði það þótt merkilegast að uppi hafi verið áætlanir um valdarán í höfuðborg Íslands í þessu verkfalli. Sem og þótti það skv. þarlendu fréttamati merkilegt að kennarar hefðu ákveðið að yfirtaka Ríkisútvarpið, leggja það undir sig, eins og byltingarmenn byrja gjarnan, til þess að útvarpa þaðan kröfum sínum og tilkynningum. Illa mun hafa gengið að leiðrétta það við blöð og fréttastofnanir á Norðurlöndum að þetta muni nú ekki hafa verið tilfellið, vegna þess að þetta þóttu svo spennandi fréttir og merkar. Þannig er það nú með mat fréttamanna.

Í tilefni af þessu máli, sem hér liggur fyrir, hefur því verið hampað og það komið fram í blöðum og ég hef ályktað það af umfjöllun þess meðal fjölmiðlamanna að skv. fréttamati þeirra þykir þeim fréttamönnum þetta vera eitt almerkasta mál sem lagt hefur verið fram á Alþingi Íslendinga til þessa, ef ekki endilega hið merkasta í þingsögunni. Þetta segir kannske meira, eins og þeir orða það stundum Bandalagsmenn, þetta segir kannske meira um fréttamat fréttamanna en um málið sjálft.

Hvers vegna finnst fréttamönnum þetta vera svona afburða merkilegt mál? Ég get náttúrlega engan veginn lagt þeim nein orð í munn. Vera kann að það komi fréttamönnum eitthvað á óvart að flokkur sem kennir sig við jafnaðarstefnu leggi fram tillögur um afnám ríkisstofnana í tylftartali. Ef það væri tilfellið sýnir það kannske fyrst og fremst að fréttamenn fylgjast ekki nægilega vel með. Ég skal taka það fram, áður en lengra er haldið, að ég er eiginlega ekkert að setja út á þá hugsun sem fram kemur í till. og í framsögu hv. frsm. M.ö.o.: það er ekkert óeðlilegt við það að taka til endurskoðunar löggjöf, sem sett var einhvern tíma fyrir áratugum, við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður, um að settar skyldu á stofn ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki til að gegna hinum og þessum störfum. Það er ekkert athugavert við það. Og þarf engan veginn að hrapa að þeirri ályktun að það sé enginn munur á hv. flm. Stefáni Benedikssyni, svona út frá hugmyndafræðinni, og annáluðum fréttamanni með mjög merkilegt fréttamat, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, sem kom mjög við sögu verkfallsdagana. Ég gæti ímyndað mér að báðir yrðu þessir menn sammála um að þetta væri skynsamlegt mál, og kannske merkasta mál á þessu þingi. Það þarf ekki endilega að vera á sömu forsendum — og þó. Í máli flm. kom fram í mjög stuttorðri og knappri greinargerð að till. væri flutt vegna þess að breyttir atvinnuhættir réttlættu ekki lengur þessa starfsemi, m.ö.o. að þessum störfum eða þessu hlutverki í efnahagslífi væri hægt að sinna með betri og hagkvæmari hætti, skattgreiðendum að kostnaðarlausu, væntanlega með því að færa þessa starfsemi í hendur einkaaðila. Það kemur ekki fram í grg. hvort það á aðeins við í þessu tilviki, þ.e. að því er varðar þessi 13 mál, eða hvort flm. er þeirrar skoðunar að þetta muni kannske eiga almennt við. Það er ein af þeim spurningum sem mig mundi langa til að beina til hv. flm.

Hvers vegna bara Fiskifélag Íslands eða þátttöku ríkisins í rekstri þess? Hvers vegna bara tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins og síðan upp að telja? Hvers vegna bara þessi fyrirtæki, þessar stofnanir. en ekki ótalmargar aðrar?

Út af fyrir sig dugir hugmyndafræðin ein sér ekki til þess að svara þessum spurningum. Menn geta verið þeirrar skoðunar yfirleitt að það sé mikil sólund, bruðl og annað spandelsi í ríkiskerfinu yfirleitt. Menn geta verið þeirrar skoðunar að embættismenn í þjónustu ríkisins séu ekki best til þess fallnir að reka framleiðslustarfsemi eða þjónustu sem hugsanlega ætti að geta staðið undir sér. Og menn geta verið þeirrar skoðunar að samkeppni einkaaðila á markaði skili bestum árangri fyrir neytendur, leiði að lokum til lágmörkunar á kostnaði, vegna þess að kostnaður í einkarekstri skiptir máli, leiðir til sparnaðar, hagkvæmni. Þegar þessi kenning er sett fram í sinni hreinræktuðustu mynd, kallast hún frjálshyggja. Og það er til siðs hjá vinstrimönnum að fordæma þessa skoðun almennt út frá einhverjum hugmyndafræðilegum forsendum. Þar af álykta menn líka oft að þarna sé víglínan dregin í pólitískri baráttu: Vinstrimenn séu ríkisforsjármenn, vinstrimenn vilji auka sem mest ríkisgeirann, rekstur og þjónustu á vegum ríkisins. En það sé hins vegar hægrimennska að gæta hagsmuna neytenda og skattgreiðenda og benda á rök af því tagi að sum starfsemi sé betur komin í höndum einkaaðila, að markaðurinn gegni ákveðnu hlutverki og meira að segja mjög þýðingarmiklu hlutverki fyrir almenning. launþega, neytendur o.s.frv. Út frá þessari framsetningu málanna er meira að segja hefðbundin pólitík og hefðbundin skipting í hægri og vinstri rekin. Og ef menn vilja spyrja um hverjir hafi rétt skilríki upp á vasann um kórréttar skoðanir leita menn fyrst og fremst einmitt til svona framsetningar.

Nú virðist mér augljóst mál að flm. þessarar till., hv. þm. Stefán Benediktsson, sé ekki þessarar skoðunar. Það er augljóst mál að hann, a.m.k. að því er varðar þessar skoðanir, tekur undir málflutning sem í opinberri umræðu hér á landi og víðar er kennd við hina örgustu hægrimennsku — markaðshyggju, sem boðberum þeirrar skoðunar þóknast að kenna við frjálshyggju, en er út af fyrir sig hugtakabrengl. Ég held að eigi að heita markaðshyggja, það er það.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tek það fram að ég er lítill ríkisforsjármaður sjálfur. Ég gæti þess vegna tekið undir röksemdir flm. af þessu tagi í mjög mörgum tilvikum. Þó ekki væri nema bara af hagkvæmnissjónarmiðum. Allir menn ættu nú orðið að þekkja tilhneigingar ríkisbákns, skriffinnskuveldis, til þess að þengjast út. Flestir menn, sem eitthvað kynnast opinberum rekstri, kannast bæði við Parkinson og Pétursprinsip. Og þó ekki væri nema út frá hreinum hagnýtum sjónarmiðum væri hægt að fallast á slíka röksemdafærslu. Það er æskilegt að í umræðum um þessi mál stigi menn upp úr skotgröfunum og hætti að hefja á loft ævagamla stimpla og merkimiða vegna þess að það er augljóst mál að sú gamla rökræða er full af þversögnum. Sá flokkur sem vill vera valddreifingarflokkur, sá flokkur sem telur sig vera fyrst og fremst málsvara almennra launþega. þarf ekki af þeim sökum að vera ríkissósíalistaflokkur í hefðbundnum stíl. Og sú skoðun að það séu ákveðnir hlutir sem eru betur komnir fyrir launþega, neytendur og allan almenning í höndum einkaaðila, vegna þess að þeir nýta betur framleiðsluþætti, þar er kostnaði betur haldið í skefjum, þar er verði betur stillt í hóf, m.a. fyrir áhrif samkeppni, — það eru fullgild sjónarmið í þágu launþega. Og það er algerlega ástæðulaust fyrir menn sem kenna sig við jafnaðarstefnu eða vinstristefnu að afsala sér slíku til einhverra gróðahyggjumanna eða láta flækja sig í vitlausum og úreltum röksemdum ríkisforsjár. Þetta er allt saman gott og blessað og af hinu góða.

Engu að síður er ég ekki alveg sáttur við þetta mál. Ég hefði kosið að hv. flm. hefði lagt ögn meiri vinnu í þetta mál og þá á ég fyrst og fremst við þetta. Hér er lögð fram þáltill., þrettánföld, þar sem hv. þm., 1/60 partur löggjafarvaldsins, skorar á hæstv. ríkisstj. hægri aflanna að framfylgja þessari hugsjón og stefnu Bandalags jafnaðarmanna. Látum nú vera að ályktunin er sett fram á málfari einhverra kerfiskarla, sem er náttúrlega alveg gersamlega ósamboðið svo ungum og ferskum þingflokki, sbr. orðalagið „að annast framkvæmd þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til“. Þetta heitir á íslensku: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja niður starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins.“ Látum nú vera með þennan kerfiskarla kansellístíl. Þetta er ábending til viðvörunar, að menn mega ekki verða samdauna kansellíinu svo fljótt að þeir fari að tala og hugsa á máli kansellíkarla.

En ég hefði viljað sjá miklu frekar þann framgangsmáta að hv. þm. hefði flutt frv. til l. um að lög, sem á bak við þessar stofnanir eru og í krafti hverra þær starfa, yrðu numin úr gildi og þá með ákveðnum aðlögunartíma. Þetta er algeng aðferð í löggjafarstarfi nú til dags, þ.e. að flytja brtt. um lög sem kveða á um sólarlagsákvæði. Einhvern umþóttunartíma þarf. Ég held að þetta hefði verið miklu réttari leið en leggja þetta í vald ríkisstj. Sér í lagi held ég að þetta hefði verið meira í samræmi við yfirlýsta skoðun þeirra þm. Bandalags jafnaðarmanna, sem er sú að leggja mikla áherslu á löggjafarþáttinn í starfi alþm. Þeir hafa öðrum fremur haft á orði að þeir litu svo á að löggjafarstarfið sé aðalþátturinn í starfi þm. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að leggja fram þáltill. þar sem hv. þm., sem á sínum tíma mætti ekki til þings og viðhafði þau orð að hann nennti ekki að verða hér messagutti á Alþingi, og taldi sig geta haft meiri áhrif á stjórnmálabaráttu í landinu utan þingsala en innan, skyldi víkja af þingi. Því held ég að það væri ekki nema eðlilegt að þeir hinir sömu, sem þessar skoðanir hafa, legðu á sig ögn meiri vinnu í löggjafarstarfinu með því að flytja slíkt frv. og láta því frv. fylgja ítarlega greinargerð, lið fyrir lið, um hvert einstakt mál. Við erum allavega að tala hér um atvinnu eitthvað um 300 einstaklinga eða svo taldist mér til við fljótlegan yfirlestur á árlegri skrá yfir starfsmenn ríkisins. Að vísu voru ekki heimildir um einar tvær af þessum stofnunum, en þær sem heimildir voru um höfðu 288 starfsmenn. Og ef þetta eru fyrirvinnur fjölskyldna er verið að tala um afkomu eitthvað um 1000 manns eða svo. Fjárhagslega séð, að því er varðar ríkisbúskapinn, er ekki verið að tala hér um stórar upphæðir. Sumar af þessum stofnunum eru reyndar ríkissjóði eða skattgreiðendum engin byrði, svo sem eins og t.d. Ferðaskrifstofa ríkisins eða Jarðboranir, vegna þess að þær selja sína þjónustu og afla tekna, þannig að nettóframlag ríkisins er ekkert, og má vera í sumum tilvikum að um einhvern hagnað sé að ræða. En þegar á heildina er litið, á stofnanirnar allar saman, er hér um að ræða 150 millj. Það er peningur líka, ekki segi ég það. En engu að síður er á það að líta að hér er um að ræða starf og lifibrauð umtalsverðs fjölda fólks og hér er um að ræða starfsemi sem ekki verður slegið föstu að liggi í augum uppi að megi bara leggja niður með einni handarhreyfingu, án þess að velta fyrir sér spurningu um hvað eigi að koma í staðinn, með hvaða hætti þetta eigi að gerast, — já, nákvæmlega hvernig ríkið eigi að losa sig hér við þessa hluti. Það hafa fleiri menn, og þá einkum stjórnarsinnar, haft á stefnuskrá sinni að selja ríkisfyrirtæki. Ég man ekki betur en það hafi komið fram að hæstv. fjmrh. hafi í sínu ráðuneyti látið útbúa 22 frv. til l. um sölu á ríkisfyrirtækjum. Ég man ekki betur en það hafi fengið heldur óblíðar viðtökur í ríkisstj. M.a. hafi hæstv. iðnrh. bent hæstv. fjmrh. á að hann væri fullfær um að annast málefni síns rn. sjálfur og þyrfti ekki milligöngu fjmrh. til. Niðurstaðan varð sú að fjmrh. hefur lítið orðið ágengt. Þeir litlu tilburðir sem hann hefur haft uppi í þessu efni hafa sætt alvarlegri gagnrýni vegna þess að hann hefur haft nánast engar viðmiðunarreglur sem hægt væri að sætta sig við um verðlagningu á þeim eignum ríkisins sem hér um ræðir. Þar er erfitt um að fást þegar ekki er vel starfandi verðbréfamarkaður í landinu þar sem hægt væri að meta þessar eignir til fjár á hlutafjármarkaði. Augljóst er af mörgum dæmum að það hefur nánast verið um að ræða gjöf fremur en sölu.

Þetta eru allt saman alvarleg mál fyrir löggjafarvaldið, fyrir þm. sem vill leggja áherslu á hlutverk sitt sem löggjafa og fyrir þm. sem vitað er að ber þrátt fyrir allt ekkert allt of mikið traust til hæstv. ráðh. núv. ríkisstj. Þó ekki væri nema vegna þess að hann hefur þegar flutt fram vantraust á þá ríkisstj. Þess vegna er þetta fyrst og fremst ábending um vinnubrögð. Hvers vegna ekki að leggja fram lagafrv. um þetta? Hvers vegna ekki að beita sólarlagsaðferðinni? Hvers vegna ekki að svara augljósum spurningum sem ég hygg að starfsmenn þessara stofnana vildu fá svör við, um hvaða aðlögunartími á að vera, hvenær þetta ætti að koma til framkvæmda? Hefur flm. hugsað til enda hvernig þeirri starfsemi verði haldið uppi með öðrum hætti, hvernig sala eigna eigi að fara fram o.s.frv.? Þarna hlýtur að vera um að ræða nauðsynlegan aðlögunartíma, því að ekki hvarflar það að mér að fyrir flm. vaki að þessum mönnum verði sagt upp störfum í skyndingu. Það er engan veginn ósennilegt að ef þessi starfsemi væri færð með skaplegum aðlögunartíma í hendur einkaaðila gæti hagsmunum starfsmanna verið ekki síður borgið í slíkum rekstri og miða ég þá bara við þekktar staðreyndir um kjör opinberra starfsmanna.

En hv. flm., hvers vegna bara þessi fyrirtæki og hvers vegna nákvæmlega þessi? Er þess að vænta að Bandalag jafnaðarmanna úttæri þessa stefnu sína í fleiri málum nú á þessu þingi, m.ö.o. þá stefnu að selja ríkisstofnanir, að koma starfsemi sem nú er í þjónustu ríkisins í hendur einkaaðila þar sem líklegt væri að hún skilaði meiri hagkvæmni, minni kostnaði og gæti orðið skattgreiðendum og launþegum og almenningi, þjóðinni allri, hagkvæmari?

Í tilefni af þessu máli renndi ég í gegnum núverandi fjárlagafrv. Það er eins og kunnugt er sett fram af hæstv. fjmrh. sem hafði hæst orð um nauðsyn þess að selja ríkisfyrirtæki. Það er sett fram af fjmrh. í nafni ríkisstj. sem hefur á stefnuskrá sinni að selja beri ríkisfyrirtæki. Af þessu hlýtur að mega álykta að ríkisstj. og þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna séu sammála í meginatriðum um þessa stefnu. Ég hygg að flutningur þessara mála hafi vakið upp spurningar í hugum margra, t.d. starfsmanna sem vinna hjá ríkisstofnunum, um hvort ekki sé þess að vænta að haldið verði áfram á þessari braut. Verða fluttar sams konar ályktunartillögur sem enga vinnu þarf að leggja í aðra en svo sem eins og hér er gert og er kannske minni vinna í lögð en sú margfræga húsmóðir sem skrifar stundum Velvakandabréf gerir öðru hverju?

En lítum á fleiri dæmi: Á að leggja niður fleiri ríkisstofnanir sem ætla má að skili meiri hagkvæmni í höndum annarra aðila? Hvað t.d. með stofnanir í skólakerfinu sem heita hússtjórnarskólar? Eins og þm. er kunnugt er ráð fyrir því gert í starfi framhaldsskóla að þar séu sérstakar námsbrautir sem leiða til starfsréttinda í sambandi við matreiðslu, framreiðslu og hvers kyns slíka hluti. Aðstæður eru gerbreyttar að því er varðar húsmóðurstarf, atvinnuþátttöku eiginkvenna og kvenna í sambúð. Hvaða hlutverki gegna húsmæðraskólar nú? Það eru a.m.k. sjö húsmæðraskólar starfandi í landinu. Er þess að vænta að Bandalag jafnaðarmanna leggi fram tillögur um að þessi starfsemi verði lögð niður? Gilda ekki sömu rök um þetta? Breyttar þjóðfélagsaðstæður eru ein skýringin.

Þjóðfélagsaðstæður hafa náttúrlega gerbreyst frá því að héraðsskólar voru stofnaðir víða um land. Margir þeirra eru nú í leit að nemendum. Margir þeirra eru jafnvel í leit að nýju hlutverki. Þeir eru a.m.k. átta talsins. Það er að vísu mjög misjafnlega fyrir þeim komið að því er varðar aðsókn og annað slíkt. En engu að síður hefur á undanförnum árum komið í ljós að blómaskeiði þessara skóla virðist e.t.v. vera lokið, sumra hverra, og í öðrum tilvikum hafa verið uppi hugmyndir um að reyna að finna þeim nýtt hlutverk.

Úr því að við tölum um stofnun eins og Ríkismat sjávarafurða, hvað um mat á landbúnaðarafurðum? Er ekki þess að vænta að verði fluttar tillögur um að leggja það niður? Hvað um Veiðimálaskrifstofu? Hvers vegna á ríkið að reka einangrunarstöð holdanauta í Hrísey, með leyfi að spyrja, hv. þm.? Er þess að vænta að Bandalag jafnaðarmanna taki á því máli? Eins og komið er fyrir íslenskum landbúnaði, er ástæða til og forsenda fyrir því að reka tvo bændaskóla í landinu eða eru hagkvæmnisrök fyrir því að gera það aðeins á einum stað? Hvað er að segja um hluti eins og Bifreiðaeftirlit ríkisins? Það hafa verið uppi hugmyndir um að það væri starfsemi sem vegna gerbreyttra aðstæðna í þjóðfélaginu ætti að breyta í grundvallaratriðum. jafnvel að færa að hluta til yfir á bifreiðaverkstæði í einkaeign. Er þess að vænta að það mál verði tekið upp í samvinnu Bandalags jafnaðarmanna. hæstv. fjmrh. og þeirra stjórnarsinna sem telja æskilegt að selja ríkisfyrirtæki og hafa það á stefnuskrá sinni? Hvað um stofnanir eins og eftirlitsstofnanir margs konar? Er ekki eðlilegt að fyrirtæki og atvinnuvegir, sem þessar stofnanir þjóna eða hafa eftirlit með, greiði sjálf kostnaðinn við það, alveg eins og ef það er ætlan flm. að því er varðar Ríkismat sjávarafurða?

Hvað um Hollustuvernd ríkisins? Hvað um lyfjanefnd ríkisins? Því ekki það alveg eins og Fasteignamat ríkisins, skipulagsstjórn og Ríkismat sjávarafurða? Skipaútgerð ríkisins er eitt af þessum málum, ef ég man rétt, herra forseti. Hvað um aðra stofnun, sem til er í fjárlögum, þessu tengd og heitir rekstrardeild ríkisskipa? Er það kannske... (Gripið fram í: Það er búið að leggja það niður.) Það er búið að leggja það niður. Jæja, guð láti gott á vita. — Hvað um Siglingamálastofnun? Væri það ekki stofnun sem þá ætti að selja þjónustu sína og þeir aðilar sem njóta þeirrar þjónustu að standa straum af henni? Það er talað um Ferðaskrifstofu ríkisins sem að vísu er ekki byrði á skattgreiðendum af því að hún selur sína þjónustu. En hvað um Ferðamálaráð? Ætti ekki ferðaiðnaðurinn, sem er öflugur og vaxandi atvinnuvegur, að standa undir kostnaði af því? Hvað um Rafmagnseftirlit ríkisins? Hvað um tilraunastöðvar landbúnaðarins? Ég fann a.m.k. fjórar við fljótan lestur í fjárlögum. Væri ekki eðlilegt að landbúnaðurinn sem slíkur, bændur eða vinnslustöðvar landbúnaðarins, landbúnaðurinn sem atvinnuvegur, sæju um að bera kostnað af þessari starfsemi ef hún telst raunverulega nauðsynleg og skila landbúnaðinum umtalsverðum arði?

Úr því að talað er um starfsemi sem styðst kannske ekki við nein rök að ríkið reki og væri hagkvæmari í höndum annarra aðila: Af hverju er ríkið að reka fyrirtæki sem heitir Fóðuriðjan í Ólafsdal? Hvers vegna er ríkið að reka fyrirtæki sem heitir grænfóðurverksmiðja í Flatey eða laxeldisstöð í Kollafirði? Úr því að það er lagt til að ríki hætti að vera með fingurna í Síldarverksmiðjum ríkisins, hvers vegna þá þetta?

Það má lengi spyrja: Er það eðlilegur atvinnuvegur fyrir ríkið að stunda lyfjaverslun? Eru einhver sterkari rök fyrir því en að ríkið stundi verslun með áfengi og tóbak? Mörgum þykir það nánast óþolandi hneisa, óþolandi siðferðilegur blettur á ríkinu, ef menn eru þeirrar skoðunar að þetta séu vímuefni, mannskemmandi og heilsuskemmandi, að ríkið stundi þessa verslun, taki sér meira að segja einokun á því og réttlæti síðan þessa starfsemi með því að hún hafi af þessu mikinn gróða. Auðvitað er hægt að hugsa sér að koma því fyrir á annan veg, þ.e. þeir fjármálamenn eða viðskiptaaðilar sem hafa umboð fyrir innflutningi á þessum varningi og þiggja fyrir nánast enga þjónustu og enga fyrirhöfn og engan kostnað mjög álitleg umboðslaun í erlendum gjaldeyri, bera engan kostnað af innflutningi, tollafgreiðslu, lagerhaldi, dreifingu, sölu, markaðssetningu. Auðvitað væri hægt að hugsa sér annan hátt á. Ríkið gæti haldið öllum sínum tekjum með því að skattleggja

þetta þegar í stað í innflutningi í tolli, en látið þessa gróðaaðila hins vegar hafa fyrir því sem til þarf til þess að flytja þetta inn. Þar með væri ríkisvaldið losað undan þeirri siðferðilegu smán sem í því á að vera fólgin að stunda þessa verslun.

Hvað með ríkisprentsmiðjuna Gutenberg? Er einhver nauðsyn, út frá röksemdafærslu hv. þm., að ríkið sé að reka prentsmiðju og keppa við einkaaðila í þeim efnum? Landssmiðjan er farin úr safninu. Það er helst hæstv. iðnrh. sem hefur hug og dug í að koma stefnumálum ríkisstj. og Bandalagsins í framkvæmd að þessu leyti. Það urðu geysilegar deilur um þvottahús ríkisspítalanna á sínum tíma, þótti takast heldur snautlega til um útboð í þeim efnum. (Gripið fram í: Já, var það ekki?) En hvað með það? Er þess að vænta að þessi stassjón falli undir þessa skilgreiningu, þ.e. starfsemi á vegum ríkisins sem betur væri komin vegna hagkvæmni og breyttra atvinnuhátta í höndum einkaaðila? Hvað með Háskólabíó? Eru einhver rök fyrir því að Háskóli Íslands reki bíó og forstjóri þess reki síðan vídeóleigur? Mér sýnist alveg augljóst mál að þessi stofnun ætti að falla undir þetta. Hvað með Sölu varnarliðseigna? Með hvaða rökum er það að ríkið versli með „djönk“ erlends setuliðs sem hér er í landinu? Fellur það ekki undir sama smánarblettinn? (Gripið fram í: það er í stefnuskránni.) Er það í stefnuskránni? Þ.e. það er væntanlegt. Hvað með landshafnir? Hvernig stendur á því að ríkið rekur landshafnir sums staðar, á einum þremur stöðum á landinu. (Gripið fram í.) Í Þorlákshöfn, Keflavík/Njarðvík, Rifi. (Gripið fram I: Þær eru fjórar.) Og hver er sú fjórða hv. þm? (Gripið fram í: Þær eru þrjár.) Þær eru bara þrjár. Og síðan má spyrja að því, af því að þarna er nefnd framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins: Hvað með Innkaupastofnun ríkisins? (Gripið fram í.) Það er nefnilega það.

Þetta er lítill listi. Hann er engan veginn tæmandi. Þetta er listi upp á 99 stofnanir og fyrirtæki sem nú eru rekin á vegum ríkisins. Inni á þessum lista eru 12 þeirra sem hv. þm. hefur lagt til að verði lagðar fyrir róða. Ég hef bara talið upp sum, sleppt öðrum, og gæti afhent hv. þm. þennan lista. Þetta eru 87 fyrirtæki sem kæmu þá til álita skv. þessum grundvallarreglum til viðbótar. Ef við værum að ræða þáltill., þar sem ég mundi gera þá brtt. um orðalag, þ.e. fella út kansellímálið „að annast framkvæmd þeirra aðgerða“, þá gæti sama grg. væntanlega dugað fyrir þeim öllum 87. Þá færi ég nú að skilja mat fréttamanna þess efnis að þetta væri orðið dálítið merkilegt mál. Víst er í mörgum tilvikum langur tími liðinn frá því að hugsjónamenn, einkum til vinstri, töldu brýna nauðsyn bera til, vegna ríkjandi þjóðfélagsaðstæðna, að þessum stofnunum yrði komið á fót og jafnvel ekki grunlaust um að sumir hefðu nú talið það vera í anda jafnaðarstefnu, vinstristefnu, sósíalisma eða guð má vita hvað, að slíkt yrði gert. En svona leikur tíminn okkur grátt, að það sem einu sinni þótti alveg bráðnauðsynlegt vegna ríkjandi aðstæðna þykir nú kannske með ærnum rökum alveg bráðnauðsynlegt að leggja af. Það sem hefur þá breyst eru aðstæðurnar fremur en innrætið eða lífsskoðanir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Ég lýsi mig reiðubúinn til að afhenda hv. flm. þennan lista og þætti mjög gaman að eiga við hann orðastað um frekari útvíkkun á þeim grundvallarreglum sem liggja til grundvallar þessum málflutningi.