21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5499 í B-deild Alþingistíðinda. (4741)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Karvels Pálmasonar á því að það hefur aldrei á einu ári verið lagt meira af bundnu slitlagi á Íslandi en í ár og ég hygg að árið 1985 verði einnig metár í mörgum öðrum þáttum vegagerðar. Þessu ber að fagna og það ber líka að fagna því að það tekst að gera þetta þrátt fyrir að ekki sé varið hærri fjárhæð til vegagerðar en gert er í ár.

Það sem ég gerði að umtalsefni áðan var það að við þurfum auðvitað að gera marga hluti aðra en að leggja vegi. Ég er ekki sammála þeirri stefnu, sem hæstv. félmrh. hefur að við ættum að steypa okkur í verulegar skuldir erlendis út af vegagerð. Við þurfum auðvitað að vera stórhuga og við þurfum auðvitað að reyna að kappkosta að vinna vel að vegagerðinni og verja til hennar talsverðu fé, en hún má ekki verða úr taki við allar aðrar framkvæmdir í þjóðfélaginu þó góð sé.