21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5499 í B-deild Alþingistíðinda. (4742)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gera margar aths. við það sem hér hefur verið sagt í þessari umr., en mér heyrðist vera beint til mín einni fsp. sem raunar var svarað þegar í minni framsöguræðu. Hún var frá hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, og á þá leið hversu lengi núverandi skipting fjármagns á milli kjördæma skuli standa. Eins og fram kom í minni framsöguræðu er gert ráð fyrir því að þessi skipting fjármagns á milli kjördæma verði tekin til endurskoðunar við lok fyrsta tímabils langtímaáætlunar, sem er í árslok 1986, og komi þá væntanlega til athugunar við reglulega endurskoðun vegáætlunar veturinn 1986–1987. Eðlilegt er í þessum efnum að það sé kannað við þáttaskil í langtímaáætlun hvernig fjármagn hefur nýst í hverju kjördæmi, hvernig framkvæmdum hefur miðað áfram, miðað við þær skiptireglur sem notaðar hafa verið, og hvort eitt kjördæmi hefur farið betur út úr því en annað. Eftir að slík athugun hefur farið fram ásamt nýrri athugun á ástandi vega er hugsanlegt að upp verði tekin ný skiptiregla á milli kjördæma. Þessar forsendur voru í rauninni kynntar innan fjvn. og vel má vera að ég hafi ekki hlustað nægilega grannt á ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, en mér fannst koma fram í máli hans ástæða til þess að ég rifjaði þetta frekar upp.

Hér hefur verið sagt af nokkrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar að langtímaáætlun hafi farið úr böndum og hér hefur verið rakið allrækilega hvaða frávik hafa orðið í prósentutölum á fjármagni til vegagerðar miðað við það sem langtímaáætlun gerir ráð fyrir. Þetta rakti ég raunar einnig að mestu í minni framsöguræðu og greindi frá því hvað skort hefði á, bæði til nýbygginga og viðhalds, að þessum prósentutölum væri fylgt.

Ég greindi einnig frá því að þó að þetta væri svo með fjármagnið væri munurinn minni þegar til framkvæmdanna væri litið og í sumum greinum hefðu framkvæmdir farið fram úr því sem langtímaáætlun gerði ráð fyrir. Svo er t. a. m. um bundið slitlag á þjóðvegi landsins. Þetta kom enn fremur fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. og ég gerði allrækilega grein fyrir að þó að gott sé að hafa háar tölur hvað fjármagn snertir hefur hitt þó meira að segja að fjármagnið nýtist vel. Það er enn fremur til lofs þeim aðilum sem starfað hafa að vegagerð, Vegagerð ríkisins og þeim starfsmönnum sem hún hefur á að skipa og yfirstjórn vegamála, að þessi mál hafa þokast mjög til hins betri vegar á síðustu árum. Ég tel þess vegna að það sé rangt, sem hér hefur verið sagt, að langtímaáætlun hafi farið úr böndum. Það hefur að vísu ekki verið staðið að fullu við fjármagn, en framkvæmdum hefur verið fylgt eftir þann veg að lítið skortir á að langtímaáætlun hafi verið fylgt. Og verði sú till. til þál. sem hér liggur fyrir samþykkt og henni framfylgt er ekkert vafamál að langtímaáætlun stenst og við megum þar með vel við una.

Ég veit hins vegar ekki hvað hv. alþm. kunna að segja ef svo færi að verk færu að fara langt fram úr langtímaætlun vegna þess að þau mundu reynast ódýrari en gert hafði verið ráð fyrir þegar fjármagn til vegagerðar í heild var ákveðið í þeim hlutföllum sem langtímaáætlun gerir ráð fyrir. En ég skal ekki fara út í þá sálma. Ég vil aðeins ítreka þá staðreynd að vel hefur tekist að nýta það fjármagn sem til ráðstöfunar hefur verið og ég tel það ekki rétt að langtímaáætlunin hafi farið úr böndum.

Ég held að það sé ekki fleira sem er ástæða fyrir mig að taka fram. Ég vil þó segja að það er eðlilegt að hv. alþm. úr ýmsum kjördæmum taki til máls og greini frá því að mörg verk séu óunnin í þeirra landshlutum og byggðarlögum. Þetta horfum við á um allt landið. Við hljótum að viðurkenna að þó mikið hafi verið gert sé enn mikið eftir um allt land. Við stöndum í því stórvirki nú að byggja upp varanlega vegi um allt landið. Við skulum kosta kapps um að standa saman um þau mál þannig að við getum verið fullsæmdir af og verðum ekki eftirbátar þeirra sem á sínum tíma lögðu malarvegi um landið allt við lítil efni.

Ég held svo, herra forseti, að það sé ekki fleira sem mér þykir ástæða til að vekja athygli á af því sem fram hefur komið í þessum umr., en endurtek þakkir mínar fyrir gott samstarf um þessi mál, bæði til nm., starfsmanna Vegagerðar ríkisins og einnig til hæstv. ráðh.